Sat í fangelsi með fólkinu úr Geirfinnsmálinu

Herbert Guðmundsson.
Herbert Guðmundsson. mbl.is/Árni Sæberg

Herbert Guðmundsson er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar. Herbert, sem er löngu orðinn goðsögn í íslensku tónlistarlífi, sat um tíma í fangelsi og samdi þá sitt vinsælasta lag, „Can´t Walk away“. Í þættinum segir hann frá fangelsisvistinni og hvernig hún kom til:

„Ég var kokkur á togaranum MS Reykjafossi og var beðinn um að taka pakka með í land með misjöfnum efnum og ég hugsaði með mér að ég gæti grætt góðan pening og sló til. En svo var gæinn sem átti efnin tekinn af lögreglunni og hann bara kjaftaði, svo kemur fíknó bara á höfnina þegar ég kom í land og ég handtekinn og settur í gæsluvarðhald í heilan mánuð. Ég sat í Síðumúlafangelsinu með fólkinu úr Geirfinnsmálinu, en svo var ég færður á Skólavörðustíg. Ég held að þeir hafi haldið að ég væri stór kall í fíkniefnabransanum á Íslandi, en ekki bara einhver sem ætlaði að græða pening á einni sendingu. En þetta var rosalegt sjokk þegar þetta átti sér stað, ekki síst fyrir fjölskylduna mína. Konuna mína, mömmu mína og ég var líka með tvö lítil börn á þessum tíma og pabbi minn var að deyja úr krabbameini, þannig að þetta var erfitt. Ég man að ég fékk að fara í jarðarförina hans, en var í fylgd tveggja lögreglumanna, sem stóðu við hurðina til að passa að ég færi ekkert.“

Herbert segir að fyrstu dagarnir í fangelsinu hafi verið verulega erfiðir, en smátt og smátt hafi hann náð hugarró og byrjað að lesa mikið af bókum. Svo fékk hann gítarinn sinn inn í fangelsið og þá varð til hans þekktasta lag, „Can´t Walk away“. Herbert segir lagið hafa nánast komið til sín af himnum ofan:

„Svo fékk ég loksins gítarinn til mín inn í fangelsið, það tók talsverðan tíma að redda því og passa að það væri ekkert misjafnt inni í gítarnum og svona. Svo þegar hann er kominn inn, þá kemur lagið til mín frekar fljótt: „There is a way every day, to the problems that man just can´t turn away. Because in this life people try to walk away and say it´s ok, but i´ve seen a terror screen and it build´s up like a monster machine.“ Svo á ég þetta lag í talsverðan tíma áður en það var svo gefið út. Svo fékk ég sex mánaða dóm og fór í netavinnu á Kvíabryggju. Það var góður tími og þetta var í heild sinni mjög góður skóli og kenndi mér mikla auðmýkt.“

Þegar talað er um níunda áratuginn í tónlist á Íslandi kemur nafn Herberts fljótt upp í huga fólks. Herbert, sem er þekktur fyrir mikinn dugnað og gott hugarfar, missti allt eftir hrunið 2008 og segist í kjölfar þess hafa tileinkað sér „minimalískan“ lífsstíl, sem hann stundar enn og segir að auki hamingju sína. Í þættinum fara Sölvi og Herbert yfir það tímabil, magnaðan feril Herberts, sögur úr fangelsinu, bóksölu fyrir hundruð milljóna og margt margt fleira.

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál