„Maður beið svo oft eftir símtalinu um að hann væri látinn“

Hulda Bjarnadóttir.
Hulda Bjarnadóttir. Ljósmynd/Styrmir Kári

Hulda Bjarnadóttir prýðir forsíðu Vikunnar. Hún er landsmönnum góðkunn úr fjölmiðlaheiminum en hún starfaði á K100 en starfar nú á mannauðssviði Marels þar sem hún leiðir alþjóðleg verkefni af ýmsu tagi. Hulda vill létta fordómum af málefnum fanga og aðstandenda þeirra og henni er annt um að aðstandendur hljóti viðeigandi stuðning. Árið 2000 var Sveinn, bróðir hennar, tekinn við innflutning á fíkniefnum og í kjölfarið dæmdur til fimm ára fangelsisvistar. Fjallað var um málið í fjölmiðlum og þeir sem komu að málinu voru nafngreindir, áður en dómur féll og Hulda segir að sem aðstandanda hafi sér oft verið gróflega misboðið vegna umfjöllunarinnar.

Hulda segir fangelsisdóminn í raun hafa orðið bróður sínum til happs því hann hafi verið langt leiddur í fíkninni og búinn að missa alla von um að komast nokkru sinni út úr þessum aðstæðum.

„Á þessum tíma var ég nýbúin að eignast son minn, Óskar Dag, og þegar Sveinn var settur í gæsluvarðhald ákvað ég að ég yrði að heimsækja hann og taka drenginn með til að sýna Sveini litla frænda sinn. Hann yrði að finna að hann hefði einhvern tilgang í lífinu, eitthvað til að lifa fyrir, og fá að vita að við elskuðum hann og værum til staðar fyrir hann. Ég verð alveg klökk þegar ég tala um þetta,“ segir Hulda.

„Maður beið svo oft eftir símtalinu um að hann væri látinn. Það gátu liðið margar vikur án þess að við heyrðum í honum eða sæjum hann og við vissum ekki hvort hann væri lífs eða liðinn. Svo birtist hann kannski allt í einu, í bullandi vímu, og bað mann um að lána sér fyrir sígarettum. Auðvitað tjúllaðist maður, enda var tilfinningarússíbaninn mikill í þessum aðstæðum. En ég er þakklát fyrir það að hafa ekki gefist upp á honum þrátt fyrir allt og saga bróður míns er sigursaga.“

Sveinn er sjö árum yngri en Hulda. Hún segir hann snemma hafa byrjað að drekka áfengi og reykja kannabis sem þróaðist svo út í sterkari efni.

„Í kringum tólf ára aldurinn lenti hann í slæmum félagsskap og eitt leiddi af öðru, hann hætti að mæta í skólann og var svo kominn á kaf í neyslu. Ég man eftir því að þegar hann var heima hjá mömmu og pabba komu ósjaldan handrukkarar að innheimta fíkniefnaskuldir af honum. Eitt skiptið keyrði ég hann svo út á Granda þar sem hann var að fara að borga handrukkara hálfa milljón sem hann skuldaði og síðasta sem ég sagði við hann áður en hann hljóp af stað með peningana í umslagi var: „Þú verður svo að fá einhverja kvittun hjá honum fyrir því að þú sért búinn að borga þetta!“ segir Hulda og skellir upp úr. „Þetta er fyndið í dag en mér var fullkomin alvara þá. Ég var búin að fá ógeð á þessu. Auðvitað var þetta hræðilegt og gríðarlegt álag á foreldra okkar að horfa upp á barnið sitt í þessum aðstæðum án þess að geta neitt að gert, vita ekki hvort hann væri lifandi eða dáinn eða hvað myndi mæta þeim næsta dag. Þetta litaði líka allt fjölskyldulífið og okkar samskipti. Það komst ekkert annað að en það hvort Sveinn væri búinn að láta heyra í sér, láta sjá sig, hvort maður vissi hvort hann væri í neyslu og hvar hann væri niðurkominn. Ég var oft rosalega reið út í hann og mömmu og pabba fyrir að loka ekki bara á hann en ég var líka hrædd um hann.“

Hulda Bjarnadóttir prýðir forsíðu Vikunnar.
Hulda Bjarnadóttir prýðir forsíðu Vikunnar. Ljósmynd/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál