Jón dansari fékk Covid og eignaðist kærustu

Jón dansari fann frið og ástina þegar hann slökkti á …
Jón dansari fann frið og ástina þegar hann slökkti á samfélagsmiðlum í haust. Skjáskot/Instagram

Samkvæmisdansarinn Jón Eyþór Gottskálsson eða Jón dansari fann jákvæða breytingu á lífi sínu eftir að hann tók sér pásu frá samfélagsmiðlum. Hann eignaðist kærustu en fékk reyndar líka kórónuveiruna í október. 

Jón dansari greinir frá því í nýrri færslu á Instagram að hann sé byrjaður með nýrri kærustu. Þau greindust bæði með kórónuveiruna í byrjun október en þá var hún vinkona hans eins og hann orðar það. Hann segir þau hafa sloppið vel en hann finnur enn fyrir eftirköstum. 

Dansarinn úr sjónvarpsþáttunum Allir geta dansað var áður fyrr duglegur að sýna frá lífi sínu á samfélagsmiðlum en nú hefur orðið breyting á. Hann segist hafa tekið sér hlé frá samfélagsmiðlum í september og ákvað að halda áfram eftir að hann fann hversu gott það gerði honum. 

Hér má lesa færslu Jóns í heild sinni: 

„Þú finnur ekki hamingju á samfélagsmiðlum!

Ég tók þá ákvörðun að sleppa öllum samfélagsmiðlum í september og mér leið svo vel án þeirra að ég ákvað að framlengja þá pásu ótímabundið. Þetta stanslausa áreiti sem fylgir því að vera með kveikt á notifications var ekki að gera mér neitt gott. Ég var ítrekað að finna sjálfan mig rífa upp símann úr vasanum haldandi að hann hefði verið að víbra, upptekinn af „lækum“ og öðru sem skiptir nákvæmlega engu máli. Ég tala nú ekki um alla þessa sjúku algoritma sem eru á Facebook, Instagram og tiktok sem eru forritaðir til að líma þig við skjáinn og slíta þig frá hinu raunverulega lífi. Mögnuð staðreynd að sjálfsvígstíðni meðal unglinga er búin að hækka um 70% frá komu samfélagsmiðla.

Ég greindist með covid-19 í byrjun október ásamt vinkonu (sem þróaðist í kærustu) og sluppum við nokkuð vel frá því. Þessi veikindi stóðu yfir í 7-10 daga sem einkenndust af almennum slappleika, hausverkjum ásamt því að ég missti bragð- og lyktarskyn. Eftir að ég losnaði úr einangrun og byrjaði að hreyfa mig þá er hjartslátturinn minn upp úr öllu valdi og fæ ég reglulega aðsvif. Kannski er það samt bara nýja kærastan sem hefur þessi áhrif, hver veit.

Það eina sem skiptir mig máli í dag er andleg og líkamleg líðan. Enda hef ég aldrei verið jafn mikið í raunveruleikanum og í tengingu við fjölskyldu og er ég að gera allt til að efla þá tengingu enn frekar.

Ef þér líður ekki nógu vel í lífinu prófaðu þá að logga þig út og efla raunveruleg tengsl, því að þú finnur ekki hamingju á samfélagsmiðlum. (Mín megin a.m.k.)“ skrifaði Jón. 

mbl.is