„Faðir þeirra hafði dáið efnaður maður“

Yrsa Sigurðardóttir verkfræðingur og rithöfundur.
Yrsa Sigurðardóttir verkfræðingur og rithöfundur.

Yrsa Sigurðardóttir metsöluhöfundur var að gefa frá sér splunkunýja bók sem heitir Bráðin. Hér gefst lesendum kostur á að lesa formála bókarinnar: 

Konan á útidyratröppunum var ekki eins og Kolbeinn hafði ímyndað sér þegar hann ræddi við hana í síma. Dimm röddin passaði ekki við grannan líkamann og bjart yfirbragðið. Hann hafði átt von á öllu útlifaðri manneskju, með sígarettu í munnviki og vodkapela í vasa. Sú sem stóð fyrir utan heimili hans var líklegri til að drekka spínatsafa en áfengi og reykti tæpast. En þegar hún kynnti sig fór ekki á milli mála að þetta var konan sem hafði hringt.

Nýjasta bók Yrsu heitir Bráðin.
Nýjasta bók Yrsu heitir Bráðin.

„Þú fyrirgefur hvað þetta dróst. Ég átti bara ekki leið í bæinn fyrr en núna.“ Konan rétti honum pappakassa. Innihaldið var þungt og hann tók í. Líklega var hann fullur af bókum. „Þessi kassi fannst semsé uppi á háalofti. Á bak við stæðu af gamalli afgangseinangrun. Það er eflaust ástæðan fyrir því að hann varð eftir þegar þið tæmduð húsið.“

Kolbeinn baðst afsökunar á því að þeir bræður skyldu ekki hafa farið betur yfir háaloftið. Konan blés á það og sagði að þetta væri ekkert mál. Sjálf hefði hún gleymt reiðhjóli í hjólageymslunni þegar þau hjónin fluttu úr íbúðinni sinni, í hús föður hans. Annað eins hefði nú gerst.

Kassinn var allur í ryki og Kolbeinn lagði hann frá sér. Hann var í bak og fyrir merktur smjörlíki sem var ekki lengur á markaði. Tegund sem hann mundi ekki eftir að hafa séð í búð. Það hafði örugglega verið pakkað niður í kassann fyrir mörgum áratugum.

Konan virtist skyndilega muna eftir einhverju. „Ó, já! Ég er með annað. Ég veit ekki hvort þú hefur nokkuð gaman af þessu en ég vildi samt ekki henda því.“ Hún sótti lítinn glæran plastpoka í úlpuvasann og rétti honum. Í honum var eitthvert brúnt og ókennilegt smott­erí. „Þetta er skór. Við fundum hann í haust þegar við vorum að grafa fyrir palli. Ætli hann hafi ekki tilheyrt öðrum hvorum ykkar bræðra.“

Skórinn sást raunar greinilega í gegnum glært plastið, ef vel var að gáð. Þetta var uppreimaður, brúnn smábarnaskór úr leðri. Það var að vísu ekki gott að sjá hvort þetta var upphaflegur litur. Kannski hafði hann verið skjannahvítur. Reimarnar höfðu í það minnsta skipt um lit og voru brúnar eins og moldin sem skórinn hafði legið í.

En hvað sem litnum leið, þá gilti það sama um skóinn og smjörlíkistegundina. Kolbeinn hafði aldrei séð hann áður. Sem sagði svo sem ekki mikið. Hann passaði varla barni sem var eldra en þriggja eða fjögurra ára. Hann mundi nákvæmlega ekkert frá þeim tíma, svo kannski hafði hann átt hann. Það var allavega ljóst að hann tilheyrði einhverjum úr fjölskyldunni hans eða barni sem hafði komið í heimsókn. Foreldrar hans höfðu byggt húsið og hæpið að skórinn hefði legið í jörðu á lóðinni þegar þau tóku við henni.

Kolbeinn leit upp og horfði framan í konuna. „Takk. Þetta er skemmtilegt.“ Honum sýndist hún vonsvikin yfir því að hann skyldi ekki hafa neitt frekar að segja um þennan fornleifafund. Kannski hafði hún átt von á frásögn af því hvernig skórinn týndist. En engri slíkri sögu var til að dreifa. Hann reyndi að gera gott úr þessu. „Hans hefur eflaust verið leitað á sínum tíma. Maður átti ekki endalaust af fötum og skóm í gamla daga.“ Hann sneri pokanum í hendi sér og virti skóinn fyrir sér. „Hvernig í ósköpunum hefur hann grafist undir flötina? Garðurinn var löngu gróinn þegar við bræður komumst á legg.“

Konan kinkaði kolli. „Já. Svolítið furðulegt. En samt eiginlega ekki. Hann fannst rétt hjá fánastönginni. Hann hefur líklega dottið ofan í holuna sem var grafin fyrir undirstöðunni og enginn tekið eftir því.“ Konan leit á hann hálfskelfd á svip. „Við tókum niður fánastöngina. Vonandi finnst ykkur það í lagi.“

Hann brosti. „Já, já. Þið eigið núna húsið og gerið það sem ykkur sýnist. Svo get ég nú ekki sagt að þessi fánastöng hafi verið í miklu uppáhaldi. Ekki hjá mömmu allavega. Hún sagði mér einu sinni að þau hefðu bara einu sinni flaggað. Og þá í hálfa stöng. Það fylgdi ekki sögunni af hvaða tilefni en hún sagðist hafa suðað endalaust í pabba að fjarlægja hana.“

Konunni virtist létt. „Ef hann setti hana upp, skil ég vel að hann hafi ekki viljað taka hana niður. Við þurftum lítinn krana til að fjarlægja undirstöðuna, olíutunnu sem var full af steypu.“

Þetta kom Kolbeini ekki á óvart. Pabbi hans var þekktur að öðru en að kasta höndunum til verka. Á sjó og í landi. Ef hann reisti fánastöng, þá skyldi hún standa af sér öll hugsanleg óveður – og líka þau sem voru óhugsandi.

Þau skiptust á nokkrum orðum um allt og ekkert. Hann spurði hvernig henni líkaði að búa á Höfn, hún sagðist vera hæstánægð. Hún spurði hvort hann ætlaði einhvern tíma að flytja aftur austur og hann sagðist ekki sjá það fyrir sér. Hann væri löngu orðinn borgarbarn enda hefði hann flutt í bæinn þegar hann var enn á barnsaldri eftir skilnað foreldranna.

Að þessu sögðu urðu þau uppiskroppa með umræðuefni. Leiðir þeirra höfðu eingöngu legið saman vegna sölunnar á húsi föður hans. Þeir bræður höfðu ekki hitt hjónin í söluferlinu en látið fasteignasala fyrir austan sjá um öll samskipti. Mögulega hefði salan gengið hraðar fyrir sig ef þeir hefðu skipt sér meira af henni en hvorugum lá lífið á. Faðir þeirra hafði dáið efnaður maður og það hastaði ekki að losa verðmætin sem lágu í húsinu þegar skiptin höfðu farið fram. Hlutverk þeirra í ferlinu hafði því eingöngu verið að samþykkja söluna og skrifa undir pappíra. Faðir þeirra var látinn og húsið ekki í eigu eftirlifandi móður þeirra. Sem hefði raunar litlu breytt, því að hún var ófær um flest vegna heilabilunar. Hún hefði ekki vitað hvernig hún ætti að snúa pennanum ef hún hefði átt að undirrita kaupsamninginn. Ef hún gat þá enn skrifað nafnið sitt.

Eftir stutta en vandræðalega þögn hrökk upp úr honum hvort hann mætti bjóða henni kaffi en hún afþakkaði, sagðist eiga langan akstur fyrir höndum og hún yrði að koma sér af stað. Nota birtuna. Hann þakkaði henni þá aftur fyrir kassann og skóinn og þau kvöddust.

Hann fylgdist með henni ganga á brott og veifaði henni úr gættinni þegar hún settist upp í bílinn. Svo lokaði hann á eftir sér, enn með pokann í höndunum. Það var fallega gert af henni að hafa ekki bara hent skónum en í sjálfu sér var það bara tímaspursmál hvenær hann myndi gera það sjálfur. Hann var lítið fyrir að safna gömlu drasli og barnsskór sem hafði legið í jörðu árum saman féll svo sannarlega í þann flokk.

En kannski hefði bróðir hans gaman af þessu. Sérstaklega ef hann hafði átt skóinn. Hvorugur hafði haldið miklu eftir úr dánarbúinu enda voru þeir ekki tengdir munum eða húsgögnum föðurins sterkum tilfinningaböndum. Eftir að þeir fluttu með móður sinni til Reykjavíkur höfðu þeir átt í stopulum samskiptum við hann og því voru fáar minningar tengdar þessu dóti. Þeir höfðu komist að því þegar þeir fóru saman austur til að tæma húsið og ákveðið að selja eða henda megninu af því sem þar var.

Þessi eini kassi og barnsskórinn voru nánast jafn mikið og það sem þeir höfðu geymt.

Kolbeinn tók skóinn upp úr pokanum. Hann fann daufa moldarlykt af uppþornuðu leðrinu. Skórinn var harður viðkomu og lausar reimarnar stífar. Nánast eins og þetta væri afsteypa af skó. Hann sneri honum á alla kanta en það var ekkert kunnuglegt við hann. Þegar hann leit ofan í hann kviknaði þó minning úr æsku.

Fyrir ofan hælinn mátti greina taumiða eins og mamma hans hafði límt eða saumað í allar flíkur þeirra bræðra, langt fram á táningsár. Miðarnir báru nöfn þeirra og áttu að tryggja að föt og skór skiluðu sér heim ef þeir týndu þeim eða gleymdu.

Skórinn tilheyrði því líklega Kolbeini eða bróður hans. Hann reyndi að kroppa aðeins í miðann í von um að rautt, ísaumað letrið birtist undan moldinni en það gerðist ekki. Við þetta hnikaðist reimin til þar sem hún lá þvert yfir skóinn og það glitti í upphaflega litinn á leðrinu.

Kolbeini brá aðeins. Hann gat ekki betur séð en að skórinn hefði verið bleikur. Þá var gjörsamlega útilokað að hann tilheyrði öðrum hvorum þeirra bræðra. Þó að fólk væri nú almennt hætt að láta kyn ráða því hvernig barnafötin voru á litinn, gegndi öðru máli um kynslóð foreldranna. Sérstaklega föður hans. Hann hefði aldrei tekið í mál að synir hans gengju í bleikum skóm, enda töluvert eldri en mamma þeirra og enn meira gamaldags.

Hvernig stóð á því að mamma hans merkti skó fyrir dóttur annars fólks? Það var nánast útilokað að einhver annar hefði merkt hann. Mamma hans var sú eina sem auðkenndi föt með þessum hætti, aðrar mæður tússuðu bara nöfnin inn í flíkurnar ef þær merktu þær á annað borð. Það vissi hann vegna þess að þeim bræðrum var strítt á þessu í skóla. Aðrar mæður virtust hafa annað við tíma sinn að gera en að sitja og handsauma nöfn barnanna sinna á litla renninga eins og mamma þeirra hafði gert.

Forvitni hans var vakin. Hann ákvað að prófa að bleyta upp í merkinu til að ná moldinni af. Þar sem stafirnir voru saumaðir í miðann var ekki ólíklegt að hann næði að lesa það sem á honum stóð.

Vatnið í eldhúsvaskinum varð brúnt þegar það rann af skónum á meðan hann nuddaði. Hann var orðinn aumur í fingrunum þegar hann taldi sig loks geta greint hluta af upphleyptu letrinu.

Fyrsti stafurinn var klárlega S. Því fylgdi annaðhvort a, e eða o. Síðan kom l, svo tveir ógreinilegir stafir og líklega r í lokin. Hann var ekki lengi að finna möguleg kvenmannsnöfn með sex stöfum sem byrjuðu á S og enduðu á r. Þau voru aðeins tvö í mannanafnaskránni á netinu. Salvör og Sólvör.

Kolbeinn lagði skóinn frá sér.

Salvör. 

Nafnið ýtti við einhverju úr fortíðinni. En það var sama hvernig hann reyndi, minningin hörfaði sífellt undan þegar hann reyndi að kalla hana fram. Þetta var eins og að ná taki á reyk og hann gafst upp.

Hann lagði skóinn á vaskborðið og horfði á brúnt vatnið renna ofan í niðurfallið. Honum leið undarlega og hann reyndi að ýta frá sér öllu sem hugsanlega gat tengst nafninu. Það reyndist oft best að hætta að hugsa um það sem hugurinn náði ekki utan um. Þá dúkkaði minningin frekar upp, eins og barn sem vill ekkert með mann hafa þar til maður læst ekki taka eftir því.

Það reyndi ekki á þetta ráð. Síminn hans hringdi. Þetta var hjúkrunarfræðingur á heimilinu þar sem móðir hans lá. Konan tilkynnti honum að hann skyldi drífa sig á staðinn, því að móðir hans hefði líklega fengið hjartaáfall og óvíst hvað yrði.

Það var langt síðan líf móður hans hafði verið eitthvað í líkingu við það sem fullfrísk manneskja gæti hugsað sér. Að auki hafði hallað hratt undan fæti undanfarna mánuði. En samt var þetta símtal sem hann hefði af öllu hjarta ekki viljað fá. Hann tafsaði eitthvað á meðan hann jafnaði sig en sagðist svo vera á leiðinni.

„Lætur þú bróður þinn vita?“

Kolbeinn játti því. Áður en hjúkrunarfræðingurinn kvaddi bætti hún við: „Og systur þína. Mömmu þinni er mikið í mun að hún komi líka. Þó að það sé orðið æði erfitt að skilja hana, þá er hún búin að staglast á því síðan þetta gerðist. Láttu hana endilega líka vita.“

„Systur mína?“

„Já.“ Það kom örlítið fát á hjúkrunarfræðinginn. „Salvöru. Hún vill fá að sjá Salvöru dóttur sína.“

mbl.is