Erfitt að upplifa jólin eftir föðurmissinn

Pétur Georg Markan nýtur jólanna með fjjölskyldu sinni.
Pétur Georg Markan nýtur jólanna með fjjölskyldu sinni. mbl.is/Árni Sæberg

Pétri Georg Markan, samskiptastjóra Biskupsstofu, finnst jólin stundum eins og segulmögnun allra kosta og ókosta mannsins. Þau laði fram það stórkostlegasta í fari mannsins og um leið stærstu lestina. 

Pétur lítur á jólin sem fjölskylduhátíð. Hann starfaði áður sem sveitarstjóri og hefur því sterkar taugar til landsbyggðarinnar á þessum tíma. Pétur er giftur Margréti Lilju Vilmundardóttur. Hún er með BA-próf í guðfræði, sem gerir samtöl fjölskyldunnar um jólin innihaldsrík og skemmtileg.

Hvernig líður þér um jólin?

„Stundum finnst mér eins og jólin séu segulmögnun allra kosta mannsins og ókosta. Þau laða fram það stórkostlegasta í fari mannsins og um leið stærstu lestina. Við elskum, virðum, hjálpum og finnum til á jólunum. Virðum náunga okkar, setjum aðra en okkur sjálf í forgrunn og leggjum rækt við að efla samband okkar við ástvini. Fyrirgefum gamlar syndir og stofnum til nýrra kærleikssambanda. Það sem meira er; við ýkjum upp þessa hegðun í samræmi við væntingar jólasiða.

Um leið eru jólin birtingarmynd mögulegra endaloka mannsins. Eyðingarhegðunar og neyslu sem gengur markvisst á auðlindir jarðar, náttúru og loftslag – hegðun sem eykur á ójöfnuð og félagslegt óréttlæti. Allt það atferli sem maðurinn hefur ekki stjórn á í tilliti sjálfbærni og óréttlætis tekur á sig trylltan veldisvöxt yfir jólahátíðina. Það hvílir mikil ábyrgð á kristnum sið að segja stopp. Í rauninni er mikið tækifæri fólgið fyrir hinn kristna sið í að sýna forystuhlutverk sitt, stöðu og mikilvægi og gerast hávær rödd breytinganna með aðgerðum.

Jólahegðun mannsins mun líklegast breytast, með meiri áherslu á sjálfbæra kærleikshátíð ljóss, trúar og friðar. Þessa þróun á kirkjan að leiða.“

Jólin eru fjölskyldutími

Hvaða hefðir eru í hávegum hafðar á jólunum hjá þér?

„Jólin eru fyrst og fremst fjölskyldutími hjá okkur. Börnin okkar fæddust öll fyrir vestan, þar sem við bjuggum í sjö ár, og fjölskyldan hafði þann jólasið að fara í skógræktina, bæði á Ísafirði og í Súðavík, og fella tré fyrir jólin. Hluti af grisjun skógarins og dásamleg jólahefð. Eftir að við fluttum aftur í bæinn höfum við reynt að halda í þessa hefð.

Þá var ein af innilegustu jólahefðunum þegar ég var sveitarstjóri að keyra út jólagjafir til starfsmanna sveitarfélagsins fyrir hádegi á aðfangadag. Þetta gerði ég með börnunum og það var mikil helgistund.

Þá fer ég og næ í jólarjúpu fyrir jólamatinn. Við erum alltaf með rjúpu á aðfangadag.

Við förum að leiði pabba á aðfangadag og eigum þar stutta stund.

Á aðfangadag erum við líka með möndlugraut og spilagjöf, lax og graflaxsósu og ískalda rauða kók í gleri í hádeginu.“

Hver er elsta jólaminningin þín?

„Ég held að það sé forkunnarfagur rauður og svartur Stigasleði. Man enn hamingjutilfinninguna.“

Voru jólin skemmtileg á þínu heimili í bernsku?

„Já, jólin voru mikill fjölskyldutími. Svo kom tímabil eftir að pabbi dó þar sem við fjölskyldan vorum aðeins að finna okkur í mistrinu. Núna eru jólin afar formföst fjölskyldu- og barnajól.“

Hver er besta gjöfin sem þú hefur fengið?

„Þetta er hættuleg spurning. Ég er lánsamur og elskaður maður og hef fengið margar dásamlegar gjafir í gegnum tíðina. Fyrsta jólagjöfin mín frá Millu konunni minni er eftirminnilegust. Innihaldið sjálfsagt ekki merkilegt í samhengi sögunnar sem við vorum þá að hefja.

Þá fékk ég einu ég sinni fyrir langa löngu handskrifaða bók frá Björgu Magnúsdóttur, vinkonu minni og sjónvarpskonu, en þá vorum við platónskir sambýlingar á Neshaganum.

Bókin er 35 upprifjanir á ævintýrum ársins sem var þá að líða. Stundum eru óvæntar gjafir bænheyrsla – skiptir inn til og tekur út lausa í gangi lífsins.“

Hvert er þitt hlutverk á jólunum í heimilishaldinu?

„Við Milla erum afar samrýnd í jólahaldinu og göngum í störf hvort annars. Ætli eldamennskan sé ekki það hlutverk sem ég hef yfirumsjón með.“

Hvað mælirðu með fyrir alla að gera um jólin?

„Kaupa minna, borða betur, sofa meira og elska alla.“

Hvaða kirkja er í uppáhaldi hjá þér yfir hátíðina?

„Ég á þrjár uppáhaldskirkjur yfir jólahátíðina: Fyrst skal nefna Súðavíkurkirkju. Þá hlustum við alltaf á Dómkirkjuguðþjónustu sem hefst hátíðlega klukkan 18. Svo er Fríkirkjan í Reykjavík með dásamlega miðnæturmessu.“

Samtöl við konuna fyrir jólin áhugaverð

Hefurðu átt skemmtilegt spjall við prest fyrir jólin sem breytti jólunum fyrir þér?

„Já, það má segja að öll samtöl við konuna mína um jólin hafi breytt jólunum smátt og smátt í mína mestu gæfu; okkar eigin fjölskyldujól.“

Hvaða máli skiptir í lífinu að eiga æðri mátt?

„Já, æðri máttur er sprungan sem leiðir ljósið inn. Það er mikilvægt að hver og einn finni sína leið að æðri mætti og viðurkenni vanmátt sinn gagnvart undri lífsins.“

Hvað vonarðu að gerist þessi jólin?

„Það stórstkostlega við jólin er það að þau eiga tilveru sína undir Guði – ekki mönnum, veiru og líðan hagkerfa. Jólin í ár verða því stórskostleg, ástrík og gefandi gjöf Guðs ef við viljum.“

Bóluefni á óskalistanum

Er eitthvað á óskalistanum hjá þér um jólin?

„Já, bóluefni. Til í að deila með mér ef ég fæ. Já, og kannski meiri svefn.“

Kaupir þú þér alltaf nýjan fatnað fyrir jólin?

„Ég er veikur fyrir fallegum fötum. Ég reyni samt að gera minna af því. Reyni. Að reyna þýðir ekki alltaf að geta.“

Hvað slær alltaf í gegn sem gjöf fyrir konuna?

„Ég hef gefið Millu kjól síðan við jóluðum okkur fyrst.“

Áttu góða uppskrift að skemmtilegum aðfangadegi sem þig langar að deila með lesendum?

„Uppskrift að góðum aðfangadegi er fjölskylduvenja sem verður til og mótast með árum og áratugum. Dagskráin þarf alls ekki að vera ítarleg. Við eigum að forðast að skipuleggja allt annað á aðfangadag.“

Hvað gerir þú á aðventunni?

„Ég les Aðventu, um Benedikt og myndarpáfann Leó. Aðventan er síðan smekkfull af menningar- og félagsviðburðum sem gera hana bæði stórkostlega og stórkostlega krefjandi.“

Fólk með mismunandi lykla að æðri mætti

Áttu þér uppáhaldstónleika fyrir jólin?

„Ég held að mannfólkið eigi sér mismunandi lykla að æðri mætti – við finnum Guð með alls konar leiðum. Fyrir mér er menning djúpsamtal við æðri mátt – þá sérstaklega tónlist. Alls konar tónlist! Þannig eru jólin í mínum anda hljómatjáning með orðum. Þar ægir öllu saman, allt frá sálminum Nóttin var sú ágæt ein yfir í River með Joni Mitchell og þaðan í Mín bernskujól eftir Jórunni Viðar og í bestu jólaplötu allra tíma; Christmas með Low. Alveg stórkostleg! Svo er Jólahjól þarna einhvers staðar líka.

Ég get samt ekki hlustað á jólaútvarpsstöðvar – þá erum við farin að tala um eyðingarmátt mannsins.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »