Eltingaleikur við hústökumann var fáránlegt atvik

Elli Egilson er ánægður með lífið í Las Vegas með …
Elli Egilson er ánægður með lífið í Las Vegas með eiginkonu sinni Maríu Birtu Bjarnadóttur. Ljósmynd/Aðsend

Listamaðurinn Elli Egilsson býr í Las Vegas. Árið 2020 hefur verið óvenjulegt hjá honum eins og svo mörgum öðrum. Komandi ár er háð kórónuveirufaraldrinum en hann vonast þó til þess að halda myndlistarsýningu á Íslandi á fertugsafmæli sínu. 

Hápunkt­ur árs­ins 2020?

„Það er svo margt! María konan mín gaf mér fertugsgjöfina fyrir fram fyrir næsta ár, draumabílinn minn, klassískan Cadillac Fleetwood Brougham 1986-módel, ekta Las Vegas mafíósó-kaggi! Ég opnaði nýja vinnustofu rétt við Las Vegas-„Strippið“ og þar hef ég varið langmestum tíma mínum á þessu ári. Svo var ég með einkasýninguna mína Efnisþættir í sumar í Gallerý Port í Reykjavík. Það er margt frábært og jákvætt búið að gerast á þessu ári hjá mér þrátt fyrir ástandið í heiminum.“

Elli kom sér upp nýrri vinnustofu á árinu.
Elli kom sér upp nýrri vinnustofu á árinu. Ljósmynd/Aðsend

Lág­punkt­ur árs­ins 2020?

„Það verður að vera óvissan sem fylgir þessum faraldri fyrir mig persónulega, það hefur kannski haft mestu áhrifin á mig og flesta í kringum mig. En að sjálfsögðu glímir fólk um allan heim við þessa hræðilegu veiru alla daga og eftirköstin sem henni fylgja, fólk er að missa ástvini sína, fólk missir vinnuna og maður situr heima og getur lítið gert til þess að hjálpa öðrum. Ég hef reynt að hvetja fólk að finna sig í myndlistinni og dunda sér við það til þess að gera eitthvað skapandi og róandi heima.“

Skrýtn­asta augna­blikið árið 2020?

„Skrýtið og óþægilegt augnablik ... einn morguninn vaknaði ég við að það var einhver að reyna að koma inn um útidyrnar heima, ég bjóst við að þetta væri bara María að koma snemma heim eftir fund og ég kallaði fram í stofu, eitthvað þreyttur þennan morgun þannig að ég nennti ekki að fara fram úr og kallaði bara: „Hæ engill, ertu komin heim?“ en fékk ekkert svar, þá ákvað ég að fara í upptökurnar af öryggismyndavélunum á símanum mínum og sá þá að það var einhver maður að reyna brjótast inn til okkar!

Ég spratt á fætur og hljóp fram og opnaði útidyrnar með látum en maðurinn var farinn. Ég stökk aftur inn, fór í skó og hljóp um allt hverfið eins og einhver brjálæðingur sjálfur, ber að ofan í náttbuxunum að leita að þessum manni en hann var horfinn sporlaust! Ég fór aftur heim og hringdi í lögguna sem kom stuttu seinna og það kom svo í ljós stuttu seinna að þessi maður bjó ólöglega í íbúð ská á móti okkur án þess að eigandinn vissi. Þar fannst til dæmis fullt af Amazon-pökkum sem hafði horfið frá okkur Maríu. En það fyndnasta við þessa sögu er þegar lögreglan kom inn til mín og tók niður skýrsluna að þá sagði einn lögregluþjónninn upp úr þurru: „Virkar þessi alveg?“ og ég í mínu adrenalínkasti spurði móður: „Hvað?“ „Þessi róbot Roombla-ryksuga þarna. Ég er búinn að vera að spá í að gefa konunni minni svona.“ Gjörsamlega fáranlegt augnablik!“

Hústökufólkið stal meðal annars pökkum sem þau Elli og María …
Hústökufólkið stal meðal annars pökkum sem þau Elli og María Birta áttu. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig ætl­ar þú að fagna nýju ári?

„Ég var að koma aftur heim til Las Vegas eftir stutt stopp á Íslandi þannig að við María munum eflaust hafa það kósí heima og fagna saman nýju ári með þakklæti fyrir allt sem maður lærði af þessu einstaka ári sem er að líða.“

Hvernig leggst nýtt ár í þig?

„Ég er spenntur fyrir nýju ári eins og alltaf en ekki með neinar sérstakar væntingar svo sem. Ég er hins vegar á milljón á vinnustofunni að vinna í nýrri myndlistarseríu sem ég væri til í að sýna á nýju ári, en það fer allt eftir því hvort önnur bylgja skellur á. Ég stefni á að sýna á sumardaginn fyrsta, 22. apríl, en ég verð fertugur þann dag. Það yrði skemmtilegt en verður allt saman að koma í ljós.“

Elli hélt listasýningu á Íslandi árið 2020 og stefnir á …
Elli hélt listasýningu á Íslandi árið 2020 og stefnir á aðra næsta vor. Ljósmynd/Aðsend

Ára­móta­heit fyr­ir 2021?

„Nei ég hef aldrei tekið þátt eða verið með í þessum áramótaheitum, ég lít frekar á morgundaginn eða nýtt komandi ár svona: Á meðan ég er duglegur, jákvæður, góður við aðra, heilsuhraustur og ákveðinn þá er lítið sem ég þarf að bæta mig í.“

Ætlar þú að vera dug­legri að gera eitt­hvað árið 2021 en þú varst árið 2020?

„Ég þarf að vera duglegri að hreyfa mig, það er alveg á hreinu! Sundsprettsrútínan mín er gjörsamlega farin út um gluggann en ég hef svo sem ekkert þorað að fara eins mikið í ræktina eða að synda út af þessari blessuðu veiru. Ég vona bara, eins og við öll, að hlutirnir komist fljótlega í eðlilegra stand.“

Rétt­ur árs­ins í eld­hús­inu þínu?

„Ég er nýbúinn að ná tökum á ítalskri veganmatreiðslu, það er ekki auðvelt en það er hægt, ég var að mastera vegan spicy chik'n Alfredo til dæmis.“ 

Ítalskir veganréttir voru áberandi í eldhúsi Ella árið 2020.
Ítalskir veganréttir voru áberandi í eldhúsi Ella árið 2020. Ljósmynd/Aðsend

Besta bók árs­ins?

„A Promised Land eftir Barack Obama. Ég er einnig mjög spenntur að glugga í Fávita eftir Sólborgu Guðbrandsdóttur vinkonu mína.“

Besta kvik­mynd árs­ins?

„Engin, sorrí. Ég gæti kannski nefnt þrjár til fjórar myndir sem ég var sáttur með en það er engin ein sem stendur upp úr. Ég nýtti hins vegar árið frekar í að rifja upp gamlar klassískar myndir sem hafa haft áhrif á mig; One Flew Over the Cuckoo's Nest, The Shining, Schindler's List, Goodfellas og svo framvegis.“

Bestu þætt­ir árs­ins?

„Unorthodox, The Queen's Gambit og svo var ég algjör sökker fyrir Tiger King-seríunni eins og flestir held ég nú bara!“

Besta lag árs­ins?

„Öll After Hours-platan eins og hún leggur sig, Abel átti þetta ár, „hands down“!“

mbl.is