Vinir Jónínu heiðruðu minningu hennar með stæl

Jónínu Benediktsdóttur var minnst með tárum og hlátri.
Jónínu Benediktsdóttur var minnst með tárum og hlátri. Kristinn Ingvarsson

Útför Jónínu Benediktsdóttur fór fram frá Digraneskirkju í dag. Þótt útförin hafi verið sorgleg, enda lést Jónína fyrir aldur fram, þá var mikið hlegið þegar hennar var minnst. Útförinni var streymt í beinni útsendingu en er aðgengileg á YouTube.

Söngvarinn Friðrik Ómar Hjörleifsson minntist vinkonu sinnar í skemmtilegri ræðu þar sem hann rifjaði upp sín fyrstu kynni af Jónínu. Hann kynntist Jónínu í gegnum sameiginlega vinkonu þeirra, söngkonuna Heru Björk Hilmarsdóttur, sem hafði verið í detox-meðferð hjá henni. 

„Hún seldi mér það að ég þyrfti svo sannarlega að fara í detoxmeðferð. Ég var nýbúinn að vera í Söngvakeppni evrópska sjónvarpsstöðva með Regínu Ósk og ég væri orðinn svo þreyttur. Jónína sagði þetta svona við mig og horfði á mig og sagði „ohh þú verður að fara að koma, þú ert svo þreyttur“,“ sagði Friðrik Ómar og bætti við að Jónína hefði ekkert haft fyrir því að segja honum frá því hverjir væru með honum í detoxinu. „Það voru Geiri „Goldfinger“, Árni Johnsen og Gunnar í Krossinum,“ sagði Friðrik Ómar. 

Hann rifjaði einnig upp þegar hann og fyrrverandi sambýlismaður hans voru í húsnæðisvanda áður en þeir fluttu til Svíþjóðar. Þá bauð Jónína þeim að búa hjá sér og reyndist sambúðin göful. Hann sagði sögu frá því þegar hann var að fara syngja við útför en átti ekki nógu fín jakkaföt. 

Þá sagðist Jónína geta reddað því og sló um leið á þráðinn til Sævars Karls Ólasonar og bauð honum að koma í detox-meðferð í skiptum fyrir svört jakkaföt. Í tilefni dagsins var Friðrik Ómar í þessum sömu jakkafötum og þakkaði detox-meðferðum Jónínu fyrir að passa enn þá í þau. 

Útförin var svo sannarlega í anda Jónínu sjálfrar og lék tónlist hljómsveitarinnar ABBA stóran þátt í útförinni.

Frá útför Jónínu í dag.
Frá útför Jónínu í dag. Árni Sæberg
mbl.is