Fór í sleik við besta vin sinn þegar sá kom út úr skápnum

Baldvin Z er gestur Snæbjörns í þættinum Snæbjörn talar við …
Baldvin Z er gestur Snæbjörns í þættinum Snæbjörn talar við fólk.

Baldvin Z, leikstjóri, framleiðandi, höfundur og allrahandakvikmyndagerðamaður, er gestur Snæbjörns Ragnarssonar í hlaðvarpsþættinum Snæbjörn talar við fólk.

Kvikmyndir Baldvins eins og Órói, Vonarstræti og Lof mér að falla eru orðnar íslensk klassík nú þegar og þar að auki hefur hann dýft tánum í fleira; stuttmyndagerð, sjónvarpsþætti og heimildamyndagerð. Hann er einn eiganda Glassriver sem framleiðir sjónvarpsefni í samvinnu við þá sem gera hlutina best. Baldvin er fæddur og uppalinn á Akureyri, yngstur í stórum systkinahópi og missti móður sína úr krabbameini þegar hann var ungur. Tíminn fyrir slíkt er vitanlega aldrei góður en þetta áfall í bland við önnur beindu honum á örlítið vafasamar brautir framan af. Hann fór í gegnum alls konar sjálfsskoðun en setur skurðpunkt við tímann þegar hann kynntist konunni sinni. Þá breyttist allt. Og já, Baldvin er trymbill í hinni goðsagnakenndu sveit Toymachine sem nýlega tók upp og gaf út frábæra plötu með 20 ára gömlu efni.

Þegar Baldvin var ungur var hann misnotaður kynferðislega af nágranna sínum. Hann er alinn upp við það að afi hans hafi gerst brotlegur gegn börnum og segir frá því að það hafi orðið fjölskyldusprenging við það.

„Svo hafði ég sjálfur lent í nágranna þegar ég er krakki. Og ég byrgi það inni út af fjölskyldumálinu, tala aldrei um það. Og eiginlega bara svona rétt tala um það seinna meir. […] Ég er svona sex, sjö ára – eitthvað svoleiðis,“ segir Baldvin. 

Áður en hann kynntist konunni sinni hugaði hann mikið um það hvort hann væri hommi. Hann fór í sleik við besta vin sinn þegar sá kom út úr skápnum. 

„Ég gekk í gegnum tímabil þegar ég var unglingur þegar ég velti fyrir mér bara hreinlega um kynhneigð mína. Hver á ég að snúa mér? Og það er svolítið uppsprettan að því að ég geri Óróa. Hún fjallar um strák sem á þeim stað í lífinu, hann er að velta fyrir sér hvort hann sé samkynhneigður eða gagnkynhneigður. […] Ég velti þessu fyrir mér fljótlega eftir að Baldvin, besti vinur minn, kemur út úr skápnum og hann segir mér að hann sé samkynhneigður og ég bara: „Þetta er frábært, þú ert bara búinn að finna þig.“ Og við bara enduðum í sleik.“

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

Gott spjall.

Snæbjörn Ragnarsson og Baldvin Z.
Snæbjörn Ragnarsson og Baldvin Z.
mbl.is