Fékk drulluna yfir sig þegar hann vildi banna flugelda

Sævar Helgi Bragason er gestur Snæbjörns Ragnarssonar í hlaðvarpsþættinum, Snæbjörn …
Sævar Helgi Bragason er gestur Snæbjörns Ragnarssonar í hlaðvarpsþættinum, Snæbjörn talar við fólk.

Sævar Helgi Bragason er stjörnusérfræðingur. Það stendur sennilega ekki á prófskírteininu hans en við þekkjum hann í það minnsta sirka svoleiðis. Hann hefur ótrúlegan áhuga á alheiminum og býr yfir þeirri gjöf að geta talað við okkur hin á þann hátt að við bæði hrífumst með og skiljum. Hann er náttúruverndarsinni og fjölmiðlastjarna, lúði – í jákvæðustu merkingu þess orðs – og gersamlega óþreytandi þegar kemur að því að miðla og fræða. Sævar er þó meira en það því hann er faðir og á von á öðru barni með sambýliskonu sinni. Hann hefur áhuga á fallegum hlutum, eldar góðan mat og drekkur góða drykki. Hann á skemmtilega fortíð að baki og hefur alltaf stefnt rakleiðis í sömu áttina – út í geim. Hann er gestur Snæbjörns Ragnarssonar í hlaðvarpsþættinum Snæbjörn talar við fólk. 

Sævar segir frá því í viðtalinu þegar honum var úthúðað fyrir að tala niður flugelda og fékk yfir sig drull og dónaskap eftir færslu á Twitter. 

„Ég lærði það hvernig er að upplifa það að fólk tali mjög illa um mann. […] Hálfviti og aumingi og dreptu þig og skjóttu þig auminginn þinn og hoppaðu upp í rassgatið á þér fíflið þitt og drullaðu þér bara eitthvert annað og eitthvað svona. En mér er alveg sama þegar fólk segir eitthvað svoleiðis, það hefur engin sérstök áhrif á mig. Það hefur hinsvegar meiri áhrif á ástvini manns, kærustur, […] foreldra […] og börnin manns náttúrulega líka,“ segir Sævar í viðtalinu. 

Snæbjörn Ragnarsson og Sævar Helgi Bragason.
Snæbjörn Ragnarsson og Sævar Helgi Bragason.

Í viðtalinu berst talið að hönnun en Sævar á Eames hægindastólinn sem kostar 787.000 í Pennanum. Hann segir að þessi stóll veiti honum ómælda ánægju. 

„Mér finnst gaman að sitja í vandaða stólnum mínum og það veitir mér ánægju. Þannig að maður reynir að kaupa hluti sem veita sér ánægju og þá er mér stundum alveg sama hvað þeir kosta. […] Það tók mig ógeðslega langan tíma að vinna mér fyrir öllum peningunum sem gerðu mér kleift að kaupa þennan rándýra stól en ég finn að hann veitir mér ómælda ánægju.“

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is