Rekin úr vinnunni eftir að hafa stofnað hjálpartækjaverslun

Gerður Huld Arinbjarnardóttir stofnaði Blush árið 2015.
Gerður Huld Arinbjarnardóttir stofnaði Blush árið 2015. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gerður Arinbjarnardóttir hefur á fáeinum árum farið frá því að selja kynlífstæki úr skúffum heiman frá sér yfir í að velta hálfum milljarði á ári. Gerður, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, fann sig ekki í hefðbundnum skóla, en vissi að hún hefði vit á viðskiptum. Þessi unga kona, sem á stórmerkilega sögu, byrjaði með tvær hendur tómar sem einstæð móðir og ákvað að taka stökkið.

„Ég var komin á þann stað að þurfa að velja. Ég var rekin úr vinnunni minni fljótlega eftir að ég var byrjuð með Blush. Sá sem rak mig sagði mér að ég yrði að velja og þetta væri bara of mikið að ég væri í hvoru tveggja á sama tíma. Ég var líka einstæð móðir og sé núna að þetta var bara hárrétt og ég verð alltaf ævinlega þakklát þessum einstaklingi sem rak mig. Þarna kom þetta augnablik þar sem það var annaðhvort að hrökkva eða stökkva. Þarna var þetta ekki orðið nógu stórt til að ég gæti lifað á þessu, en ég hafði svo mikla trú á hugmyndinni, þó að ég hafi ekki haft jafn mikla trú á sjálfri mér. Það var stanslaus rödd í hausnum á mér sem sagði við mig að ég væri ekki með menntun í þetta, að ég væri of ung, hver ég þættist eiginlega vera að ætla að fara að byrja með fyrirtæki. En ég hafði það mikla trú á hugmyndinni að það hjálpaði mér að halda þessu áfram. Svo þegar ég fór að vinna í að trúa meira á mig líka og gera markvissa hluti til að laga það, þá fór allt að blómstra og það gerðist svo hratt að ég eiginlega trúði því ekki.“

Gerður segir að það sem hafi verið erfiðast hafi verið að þora að stíga inn í að taka áhættuna á að gera mistök. Sérstaklega þar sem hún var skilyrt eftir mörg ár af því að upplifa sig sem slaka í námi.

„Ég held ég hafi verið hrædd við það sem allir eru hræddir við, sem er að gera mistök og bregðast fólkinu í kringum mig. Ég fór í gegnum skólakerfið með þá tilfinningu að ég væri aldrei nógu góð. Ég átti erfitt með nám og kerfið er þannig að þér eru gefnar einkunnir og þú ert metin út frá því og ég var alltaf að valda sjálfri mér vonbrigðum. Ég var alltaf í C-bekknum sem var fyrir tossana. Það að skipta krökkum upp með þessum hætti eftir árangri í námi er eiginlega ofbeldi. Þetta eru viðkvæmustu árin. Geturðu ímyndað þér hvað það gerir fyrir sjálfstraust unglings sem er í mótun að honum sé sagt að hann sé ekki nógu góður og eigi að vera í C-bekk? Niðurlægingin sem fylgir því að segja vinkonum sínum sem allar eru á leið í A-bekk að maður verði ekki með þeim í bekk árið eftir af því að maður sé svo lélegur námsmaður. Svo er ekkert tekið inn í þetta að það er bara verið að mæla mann út frá því sem skólakerfið telur mikilvægt. Stærðfræði, náttúrufræði og íslenska og hefðbundin fög, en ekkert um mannleg samskipti, fjármál, tilfinningastjórnun og fleira. Er ekki löngu kominn tími til að spyrja börnin okkar hvernig þeim finnst best að læra? Sumir vilja hlusta, aðrir tala og aðrir lesa. Ég hef aldrei getað lesið langar bækur, en ég get horft á myndbönd þar sem nákvæmlega það sama er kennt og ég get þulið það allt upp fyrir þig þegar myndbandið er búið. Ég upplifði það trekk í trekk að vera ekki nógu góð og upplifði mig alltaf eins og ég væri heimsk, en sem betur fer studdu foreldrar mínir alltaf við bakið á mér.“

Í þættinum ræða Gerður og Sölvi um viðskipti, ferðalög í framandi lönd, þægindaramma fólks og margt margt fleira.

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál