Þórunn Antonía vill flytja aftur til Reykjavíkur

Þórunn Antonía skoðar möguleika sína að flytja úr Hveragerði aftur …
Þórunn Antonía skoðar möguleika sína að flytja úr Hveragerði aftur til Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Tónlistarkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir virðist vera að kanna möguleika sína á að flytja úr Hveragerði aftur til Reykjavíkur. Þórunn birti færslu í hverfishópnum Vesturbærinn á Facebook þar sem hún auglýsti eftir íbúð til að leigja í Vesturbænum.

Þórunn flutti til Hveragerðis þegar hún gekk með son sinn Arnald Þór og hefur búið þar síðastliðið eitt og hálft ár. En nú virðist hún vera komin með leiða á Hveragerði og leitar á önnur mið. 

Í upphaflegri færslu sinni óskaði Þórunn eftir að geta leigt íbúð aðra hverja helgi í Vesturbænum þegar hún væri ekki með börnin sín. Í uppfærslu á færslunni sagðist hún einnig skoða langtímaleigu á stærri íbúð þar sem hún gæti búið með börnin sín. 

„Ég heiti Þórunn og ég er fædd og uppalin í Vesturbænum. Ég fluttist svo til Hveragerðis fyrir 2 árum með börnum mínum og minn draumur er að finna litla íbúð í Vesturbænum sem ég get dvalist stundum í t.d. aðra hverja helgi þegar ég er barnlaus og nýtt til að eignast aftur örðu af félagslífi og pláss fyrir mína listsköpun þar sem ég mun vonandi spila á tónleikum og annað slíkt með hækkandi sól eftir atvinnulaust covid-ár 🙂

Er ekki einhver tóm dásemdaríbúð sem kostar ekki hvítuna úr augum mér sem vantar konu eins og mig að búa í endrum og eins? Þessi íbúð má vera með húsgögnum eða ekki, ég get vökvað blóm og gefið kisum og spilað lágt á gítar fyrir nágrannana. Ég er skilvís og reglusöm.

#Uppfært.. Einnig er ég til í að skoða stærri íbúðir í langtímaleigu fyrir mig og börnin mín 2 með 3 svefnherbergjum og leigja mitt hús út í Hveragerði sem er með 4 svefnherbergjum, 1000 fm garði og heitum potti,“ skrifaði Þórunn í færslu sinni. 

Þórunn Antonía býr ásamt börnum sínum tveimur í Hveragerði.
Þórunn Antonía býr ásamt börnum sínum tveimur í Hveragerði. mbl.is/Hari
mbl.is