Afplánun barnæskunnar

Marta María Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is.
Marta María Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is. Ljósmynd/Kári Sverriss

„Fyrir 35 árum snerist leikfimi í flestum skólum á Íslandi um að keppa í handbolta eða fótbolta. Taka píptest til að mæla árangur iðkendanna. Þessir tímar voru sérhannaðir fyrir fólk með virkara vinstra heilahvel. Fólk með virkara vinstra heilahvel býr yfir þeim eiginleikum að geta raðað hlutum upp í kassa í höfðinu á sér og ef það stillir sig rétt af þá nær það frábærum árangri í lífinu á þeim sviðum sem hægt er að mæla og gefa einkunnir,“ segir Marta María Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is í leiðara í Skólablaði Morgunblaðsins: 

Fólk með virkara vinstra heilahvel hefur til dæmis náð góðum árangri í herþjálfun og í stríðum heimsins og það vinnur flestar kappræður því það er svo rökfast. Fólk með virkara hægra heilahvel getur það hins vegar ekki og þess vegna þarf kennsla að vera þannig að þessir tveir hópar, vinstra og hægra heilahvel, geti báðir notið sín í náminu.

Þegar Selásskóli var opnaður fylgdi ekkert íþróttahús með. Nemar voru …
Þegar Selásskóli var opnaður fylgdi ekkert íþróttahús með. Nemar voru því sendir í ljósbláum rútum í önnur póstnúmer til að stunda íþróttir. Ljósmynd/Sverrir Vilhelmsson

Þegar leiðarahöfundur var krakki var hann þessi sem geymdur var á varamannabekknum þegar búið var að skipta liðinu upp til að keppa í hand- eða fótbolta. Hann kunni nefnilega ekki leikreglurnar og fékk alltaf hlaupasting ef hann þurfti að hlaupa meira en að næsta ljósastaur. Hann naut sín hins vegar ef það mátti klifra í köðlunum því erfiðara er að mæla hæfileika á því sviði. Bekkurinn fékk þó ekki að klifra í köðlum nema bláspari sem gerði þessa leikfimitíma að hreinræktaðri afplánun. Svo ekki sé minnst á óhagkvæmnina sem fylgdi því að ferja heilan bekk úr Selásnum í 110 Reykjavík yfir í Álftamýrarskóla í ljósblárri rútu. Rútubílstjórinn kom fram við bekkinn eins og farþegar hennar væru 30 fyrstu heilagjafar landsins. Þessar ferðir voru blautar, kaldar og svo þurfti bekkurinn að halda niðri í sér andanum til að fá ekki eitrun af dísel-brælunni sem umvafði ljósbláu rútuna.

Þessi afplánun gerði það að verkum að leiðarahöfundur fór nánast óhreyfður í gegnum fyrstu 35 ár ævi sinnar sem ekki er vitað hvort er gott eða slæmt. Líklega slæmt þar sem dagleg hreyfing er góð fyrir hjarta og æðakerfi og ætti að henta fólki ágætlega sem er með ógreindan athyglisbrest. Þeir aðilar þurfa nauðsynlega á því að halda að fá útrás til þess að virka í leik og starfi. Fólk með ógreindan athyglisbrest á það sameiginlegt að geta alls ekki gert neitt sem er leiðinlegt. Um leið og leiðindaverkefni rekur á fjörur viðkomandi missir hann smátt og smátt lífsviljann þangað til hann fattar að beina sjónum sínum að einhverju allt öðru. Þannig lifir viðkomandi af.

Hvers vegna er leiðarahöfundur að tala um athyglisbrest og hæfileikaleysi í leikfimitímum? Jú, líklega vegna þess að íslenskt skólakerfi er ekki hannað fyrir mjög skapandi fólk eða fólk með athyglisbrest. Það er hannað fyrir fólk með virkara vinstra heilahvel sem fílar píptest og er lélegt í því að klifra í köðlum. Í skólum á fólk að hlýða og enginn nær stúdentsprófi nema klára ákveðið marga stærðfræðiáfanga.

Leiðarahöfundur hefði til dæmis aldrei náð stúdentsprófi ef honum hefði ekki dottið það gáfulega ráð í hug að fá búningahönnunarverkefni fyrir leiklistardeild Listaháskóla Íslands metið sem einingar til að útskrifast. Þessi aukavinna sem unnin var fyrir meira en tveimur áratugum hefur nýst miklu betur í leik og starfi en allir heimsins stærðfræðiáfangar til samans. Fólk með virkara hægra heilahvel þarf bara að læra ákveðna tækni til að lifa af. Ef það tekst þá á þessi hópur yfirleitt frekar glaðlega og hressilega tilveru.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál