„Hann í rauninni drap hana“

Helga Sæunn Árnadóttir.
Helga Sæunn Árnadóttir. Ljósmynd/Hallur Karlsson

Helga Sæunn Árnadóttir prýðir forsíðu Vikunnar en í viðtalinu segir hún frá því að hún óttist um líf dóttur sinnar, Kamillu Ívarsdóttur, sem varð fyrir alvarlegri árás fyrir um tveimur árum. Kamilla var 17 ára þegar árásin varð og var árásamaður hennar dæmdur í fangelsi í eitt ár. 

Þegar Helga hugsar til baka segist hún aldrei hafa átt von á að dóttir sín yrði beitt ofbeldi vegna þess hve sterkur karakter hún sé.

„Mig grunaði aldrei að nokkur gæti komið svona fram við hana af því hún er með sterka samkennd. Vinmörg og vinsæl. Hann í rauninni drap hana,“ segir Helga.

Helga segist hafa séð breytingar á dóttur sinni fljótlega eftir hún byrjaði í sambandi við ofbeldismanninum.

„Hún byrjaði að draga sig í hlé, loka sig af og ég fattaði það ekki fyrst af því mér fannst bara fínt að hún væri heima, fremur en einhvers staðar úti á djamminu. Þannig að mér fannst ég ekki þurfa að hafa áhyggjur af henni. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að hann var að drepa hana hægt og rólega með andlegu ofbeldi. Af því andlega ofbeldið byrjar alltaf strax, henni voru sett mörk, hvað hún mátti og hvað hún mátti ekki,“ segir Helga og getur þess að þarna hafi dóttir hennar aldrei talað um ofbeldið.

Helga Sæunn Árnadóttir prýðir forsíðu Vikunnar.
Helga Sæunn Árnadóttir prýðir forsíðu Vikunnar.
mbl.is