„Ég er bara Elín“

Elín leggur áherslu á hreinskilni á sínum samfélagsmiðlum.
Elín leggur áherslu á hreinskilni á sínum samfélagsmiðlum. Ljósmynd/Aðsend

Elín Erna Stefánsdóttir er 27 ára förðunarfræðingur með fjölda fylgjenda á samfélagsmiðlum. Hún leggur áherslu á að vera hreinskilin og er til að mynda opin hvað varðar geðheilsu sína. Elín er mótfallin þeirri glansmynd sem margir búa til á Instagram og hefur sjálf þurft að taka sér hlé frá miðlinum og endurskoða hverjum hún fylgir. 

„Ég er fædd og alin upp á Vestfjörðum og við bjuggum í Mjólká þangað til við fluttum á Selfoss þegar ég var að fara í fimmta bekk, en ég held að tíminn minn í sveitinni eigi stóran þátt í því að ég er sjálfstæð og frjálsleg ung dama,“ segir Elín, sem segist eiga heimsins bestu fjölskyldu sem hafi alltaf staðið á bak við hana og hvatt hana áfram.

Elín heldur úti hlaðvarpsþáttunum Við vitum ekkert með vinkonu sinni …
Elín heldur úti hlaðvarpsþáttunum Við vitum ekkert með vinkonu sinni Völu Fanney. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er tossi sem hætti í framhaldsskóla vegna geðheilsuvanda en skellti mér í förðunarnám fyrir tíu árum og byrjaði að finna mig betur eftir það,“ segir Elín sem nýtir einmitt Instagram til þess að birta förðunarmyndir og -myndbönd. 

Fer mikill tími í að búa til efni fyrir samfélagsmiðla?

„Já, alveg ótrúlega mikill. Það að gera story, taka upp förðunarefni og taka ákveðnar umræður fyrir tekur mikinn tíma. Ég held að fólk almennt átti sig engan veginn á því hvað þetta er tímafrekt, en ég hef ótrúlega gaman af þessu þannig að ég kvarta ekki.“

Elín á kærasta sem styður hana í því sem hún birtir á samfélagsmiðlum en er ekki áberandi á instagramsíðu hennar. „Ég var byrjuð í þessu öllu saman löngu áður en við kynntumst. Hann er kannski ekkert alltaf til í að vera í mynd en styður mig þó alltaf í því sem ég er að gera, sem mér þykir ótrúlega vænt um.“

Elín fór í förðunarnám fyrir 10 árum og hefur fylgst …
Elín fór í förðunarnám fyrir 10 árum og hefur fylgst með förðunarheiminum breytast síðastliðin ár. Ljósmynd/Aðsend

Elín er í hefðbundinni vinnu ásamt því að búa til efni fyrir samfélagsmiðla. „Auðvitað eru mjög margir sem vinna sem áhrifavaldar en ég er ekki á þeim stað, kannski einn daginn! Ég hef síðustu ár auk samfélagsmiðla starfað sjálfstætt sem förðunarfræðingur. Síðustu tvö ár hef ég unnið hjá NPA sem aðstoðarkona fyrir fatlaðan einstakling sem ég hef mjög gaman af.“

Er einhver hluti af einkalífinu sem þú deilir ekki með fylgjendum?

„Ég deili flestöllu á samfélagsmiðlum, þó auðvitað upp að ákveðnu marki. Ég hef alltaf verið mjög opin og hreinskilin manneskja og ég vil koma þannig fram á netinu. Ég hef aldrei búið til netpersónu. Ég er bara Elín hvort sem ég er heima hjá mér eða á Instagram.

Ég persónulega er ekki hrifin af þessari glansmynd sem margir setja fram á samfélagsmiðlum og auðvitað er stór hluti af þessu mjög gervilegur. Ég átti eitt sinn mjög erfitt með samfélagsmiðla og hef tekið langar pásur frá Instagram. Síðustu ár hef ég alveg breytt hegðun minni þar, ég hef það að reglu að takmarka minn tíma þar og fylgja einungis fólki sem veitir mér innblástur eða gleði. Eftir að ég gerði það fór ég að njóta mín aftur á Instagram og finnst það að mörgu leyti frábært miðill.

Ég vil alltaf að minn miðill sé staður þar sem ég kem til dyranna eins og ég er klædd. Ég vil ekki þykjast búa í einhverri draumakúlu þar sem allt er fullkomið og hef ég til dæmis verið mjög opin varðandi geðheilsu mína, en ég er mikill kvíðasjúklingur og hef talað um mínar upplifanir varðandi kvíðann og þunglyndi.“

Auk þess að vera mjög virk á samfélagsmiðlum er Elín með hlaðvarpsþáttinn Við vitum ekkert með Völu vinkonu sinni. 

„Nafnið skýrir þættina örlítið en við vitum ekki allt og erum óhræddar við að tala um það að við vitum kannski ekki nákvæmlega hvað framtíðin ber í skauti sér eða hvernig við eigum að haga okkur sem fullorðnar skvísur. Við höfum fjallað um allt milli himins og jarðar en myndi þó segja að lykilinnihaldsefni hvers þáttar væri „girl power“. Það er mjög skemmtilegt hvað fólk hefur tekið vel í þættina og okkur finnst við hafa búið til smá skvísusamfélag!“

Talandi um að vita ekki alveg hvað framtíðin ber í skauti sér er Elín þó nokkuð viss um að hamingjan skipti máli. „Það eina sem ég vona er að ég verði hamingjusöm og umvafin góðu fólki – þá er ég bara góð,“ segir Elín að lokum spurð út í framtíðina.  

Það er tímafrekt að skapa efni fyrir samfélagsmiðla að sögn …
Það er tímafrekt að skapa efni fyrir samfélagsmiðla að sögn Elínar en hún kvartar ekki því henni finnst vinnan skemmtileg. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is