Ætlaði í megrun en endaði sem listamaður

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir er gestur Snæbjörns Ragnarssonar í þættinum Snæbjörn …
Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir er gestur Snæbjörns Ragnarssonar í þættinum Snæbjörn talar við fólk.

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir er listakona. Hún er sennilega myndlistarkona fyrst og fremst en hún er líka forkólfur og stofnandi hljómsveitarinnar FM Belfast. Hún segist vera intróvert með lærða extróvert-hegðun, finnst hlutirnir fyndnari eftir því sem þeir eru meira óviðeigandi og skilur ekki hversdagslega hluti á borð við kaffivélarspjall og vangaveltur um líðandi stund. Hún var frekar undarlegt barn og unglingur, fór erfiðu leiðina í gegnum skóla og reyndi oftar en ekki að passa inn í hólf sem hentuðu henni ekki. Í dag hefur hún slakað á emó-hugsununum, hefur óbilandi húmor fyrir sjálfri sér og kemur honum til skila í gegnum teiknimyndasögur. Þið skuluð öll skoða www.loaboratorium.com, Lóaboratoríum og alla samfélagsmiðla sem hún kemur nálægt. Lóa er viðbjóðslega fyndin og ein af þessum manneskjum sem raunverulega bera þann titil að vera snillingur. Hún er gestur Snæbjörns Ragnarssonar í hlaðvarpinu, Snæbjörn talar við fólk. 

Hún segir frá því í viðtalinu að það hefði munað litlu að hún hefði ekki orðið listamaður því hún ætlaði í megrun. 

„Ég hætti reyndar í myndmennt þegar maður mátti velja í 10. bekk því ég var í fýlu út í kennarann. […] Ég fór í þróttafræði. […] Ég held að ég hafi ætlað að fara í mergun og þótt sniðugt að fara í íþróttafræði.”

Snæbjörn Ragnarsson og Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir.
Snæbjörn Ragnarsson og Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir.


Hún passar einhvern veginn aldrei inn í listamannalaun og fær almennt ekki.

„Ég finn alveg þegar ég er að sækja um listamannalaun að ég veit ekki hvar ég á að sækja um af því að þetta er allt flokkað eftir geirum, og ég veit ekkert hvort það sem ég er að gera sé myndlist eða ritlist. […] og líður alltaf eins og ég hafi sótt um í vitlausan sjóð. Í stað þess að þetta væri bara listamannasjóðurinn og þú sæktir bara um með verkefnin þín og þyrftir ekki að flokka þau.“

mbl.is