Hélt hún myndi aldrei finna ástina aftur

Þórunn Erna Clausen er gestur Snæbjörns Ragnarssonar í þættinum, Snæbjörn …
Þórunn Erna Clausen er gestur Snæbjörns Ragnarssonar í þættinum, Snæbjörn talar við fólk.

Þórunn Erna Clausen er gestur Snæbjörns Ragnarssonar í hlaðvarpsþættinum, Snæbjörn talar við fólk. Hún trúir á að ekki gefast upp og hlusta á innsæið, þótt það hafi ekki endilega alltaf rétt fyrir sér. Í dag býr hún til flest sín verkefni sjálf og var einmitt að gefa út plötuna „My Darkest Place“ í byrjun febrúar 2021. Þórunn hefur alla tíð samið tónlist en tók ekki að vinna sín eigin lög til enda fyrr en eftir að eiginmaður hennar, Sigurjón Brink, lést árið 2011. Í viðtalinu gefur Þórunn okkur persónulega innsýn í upplifun sína af sorginni og hvernig lífið verður að halda áfram. Eftir missinn sagði hún já við öllum tækifærum sem buðust og deyfði ekki sársaukann með neinu – nema kannski vinnu. En þegar öllu er á botninn hvolft finnst Þórunni Ernu hún hafa verið mjög heppin í lífinu.

Hún var í mikilli sorgarkrísu um ári eftir að Sjonni lést og fann þá fyrir algjöra tilviljun demó af lagi sem Sjonni var að vinna í áður en hann lést. Lagið, sem heitir „Days Gone By“ kláraði Þórunn sjálf og er það að finna á nýju plötunni.


„Ég náttúrulega fór í brjálaða vinnu strax á eftir. Það var náttúrulega engin pása, það var bara strax. Og það var allt í hans minningu, allt fyrir hann. Leyfa tónlistinni hans að heyrast sem víðast, búa til disk sem innihélt fullt af ‘Flavours’ lögunum, hans […] sköpun og sýna hvað hann var frábær listamaður og það gaf manni rosa svona kraft í að standa í lappirnar, að vera að gera þetta fyrir hann sem hann gæti ekki gert. Leyfa heiminum að sjá hvað hann var stórkostlegur. Og svo að eiga þessa litlu gullmola að sjá um […] eins og það komu nú oft moment – og það var alveg oft sem ég hélt ég myndi ekki lifa þetta af – en þá var það ekki af því mig langaði ekki að lifa þetta af. Það var ekki þannig. Aldrei. Það var meira bara að ég hélt actually að ég myndi bara deyja úr sorg,“ segir Þórunn í viðtalinu. 

Hún segir frá því að eftir andlát Sjonna hafi hún verið hrædd um að enginn myndi framar reyna við hana og hennar ástartímabili væri lokið. 

„Maður hugsaði bara „ókei, ég mun aldrei upplifa þetta aftur“ en það er alveg þannig. Auðvitað upplifir maður aldrei aftur […] ást sem verður svona sterk snemma. Svo hvort sem maður skilur eða missir eða hvað, þá er maður alltaf með þessa reynslu og fer ný manneskja inn í næsta. Maður er aldrei sama manneska og maður var 10 árum áður. Lífsreynslan breytir okkur svo mikið og gerir okkur í rauninni að öðru fólki.“

Þú getur hlustað á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is