„Ég er alinn upp með pabba í neyslu“

Heiðar Logi Elíasson.
Heiðar Logi Elíasson. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Heiðar Logi Elíasson, fyrsti og eini atvinnubrimbrettamaður Íslands, er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Heiðar Logi upplifað margt og lifað fjölbreyttu lífi. Í þættinum segir hann meðal annars sögur af tímabilinu þegar hann ákvað að skipta um takt í lífinu og breyta um lífsstíl.

„Ég hefði náttúrlega bara átt að enda í ruglinu. Ég er alinn upp með pabba í neyslu, sem var inn og út úr meðferðum. Ég upplifði hluti sem krakki sem voru ekki eðlilegir, eins og að þurfa að hringja á sjúkrabíl af því að pabbi „óverdósaði“ og horfa á lækni hnoða í hann lífinu og alls kyns hluti sem fylgja því að vera fíkill á hæsta stigi. Ég er náttúrlega með þessa tilhneigingu í mér. Að fara „overboard“ í öllu sem ég geri, hvort sem það er áfengi, vinna eða brimbretti. En það sem ég held að hafi hjálpað mér er hvað mamma var dugleg að fræða mig um þetta frá því ég var krakki. Þannig að þegar ég byrjaði að drekka mjög ungur, þrettán ára, þá var ég harður á því að ætla aldrei að prófa eiturlyf og stóð alltaf við það. En áfengi fannst mér allt í lagi og ég missti alla stjórn á því. Ég réð mig í vinnu á bar átján ára til að geta drukkið og laug því að ég væri tvítugur. Ég keyrði fullur í tvo mánuði, var alltaf að blanda kokteila og drekka þá og byrjaði vinnudaginn á bjór og keyrði svo heim með nokkra bjóra í viðbót. Það snerist oft allt um að komast í hálfgert „blackout“ af því að mér leið svo illa og vildi bara komast úr því ástandi. Ég vaknaði þó nokkrum sinnum uppi í rúmi í öllum fötunum, búinn að míga á mig og mundi ekkert þegar ég vaknaði. En svo var ég búinn að klúðra það mörgu að ég tók loksins ákvörðun með þáverandi kærustunni minni um að hætta að drekka. Eftir að hafa dottið einu sinni í viðbót í það mjög illa hætti ég alveg og hef ekki drukkið síðan. Ég vissi ekki hvað meðferð væri á þessum tíma, en hefði líklega haft gott af því eftir á að hyggja.“

Heiðar Logi glímdi við gífurlegan athyglisbrest og kvíða sem barn og náði mjög illa að fóta sig í skóla. 

„Mér var búið að líða illa nánast alla mína æsku þar til ég komst fyrst á snjóbretti. Ég man ennþá eftir fyrsta deginum þar sem ég var átta klukkutíma í fjallinu og eftir það náði ég í fyrsta sinn að slaka á og sofa almennilega. Það var rosalega erfitt fyrir mig að sitja í skólanum og reyna að læra án þess að fá útrás. Það er til myndband af mér að hoppa á milli borða í kennslustundum og ég var nánast rekinn út á gang í hverri einustu kennslustund. Þegar það gerðist spretti ég yfirleitt alla gangana í skólanum, af því að það var svo rosaleg orka í mér sem þurfti að komast út.“

Í þættinum ræða Sölvi og Heiðar um brimbrettin, lífsháska, erfiða æsku, sérstaka skólagöngu og margt fleira. 

Hægt að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is