„Ég er alveg svona dálítill djúpulaugarmaður“

Óttarr Proppé.
Óttarr Proppé.

Óttarr Proppé hefur marga fjöruna sopið og erfitt að segja hvort landsmenn þekki hann frekar sem tónlistarmann eða stjórnmálamann. Hann bjó ungur í Bandaríkjunum sem virðist hafa mótað skoðun hans á lífinu, náunganum og möguleikum lífsins, sem og gefið honum innsýn í tísku og tónlist 8. áratugarins sem heillar hann enn í dag. Óttarr er sjálftitlaður „djúpulaugarmaður“ sem finnst fátt betra en að ráðast á garðinn þar sem hann er vel hár. Hann er til dæmis líklega eini Íslendingurinn sem hefur bæði verið ráðherra og keppt fyrir hönd Íslands í Eurovision. Í gegnum sinn margslungna feril hefur sjóndeildarhringurinn vaxið og hugmyndirnar um hvað er kúl breyst með tímanum. Til dæmis þykir Óttari bæði Paul Newman og Arnold Schwarzenegger töff – bara hvor á sinn hátt. Hann er gestur Snæbjörns Ragnarssonar í þættinum Snæbjörn talar við fólk. 

„Ég er alveg svona dálítill djúpulaugarmaður og ef ég fæ ekki að hoppa í einhverja djúpa laug … Það er kannski það sem ég er að tala um með „gatið“ 2020. Maður […] fór aldrei í neina djúpa laug. […] Kannski einhver sjálfstortímingarhvöt líka, en ég er alveg til í að „crash and burn“ ef það er eitthvað nógu mikið undir. […] Þannig að, þú veist, eins og það að vakna og vera orðinn heilbrigðisráðherra það var bara svona … jæja, nú verðum við að gera eitthvað úr þessu. Og þá er bara eins gott að læra allt um það mjög hratt, skilurðu, og koma niður hlaupandi,“ segir hann í þættinum. 

Óttar ræðir um það í viðtalinu hvernig hann hafi náð að fanga athygli fólks meðan hann sat á þingi. 

„Ef þú vilt að fólk hafi tilfinningu fyrir því að þú sért að gera eitthvað þá þarf fólk að taka eftir þér. Þá þarftu að vera í aðstöðu til þess að fólk taki eftir þér og það gerirðu með því að vera nógu krassandi til þess að einhver nenni að endursegja það sem þú sagðir. […] Og ég gerði tilraun með þetta, að það var eitthvert málefni sem var svo mikilvægt […] og ég var búinn að fara upp nokkrar vikur í röð og vekja athygli á því í þinginu. Halda rosalega gáfulega ræðu með einhverjum skemmtilegum brandara. […] Og það heyrði það enginn nema þessir þrír sem sátu í salnum. Og svo gerði ég tilraun, að fara og segja nákvæmlega sama hlutinn nema bölva. Ég bölvaði í ræðustól. „Það verður að gera eitthvað í þessu helvítis […] og bévítans og djöfulsins!“ og eitthvað svoleiðis. Beint í fréttir!“

Snæbjörn Ragnarsson og Óttarr Proppé.
Snæbjörn Ragnarsson og Óttarr Proppé.mbl.is