Mörg íþróttafélög eru orðin „porn-klúbbar“

Brynjar Karl Sigurðsson er umdeildasti körfuknattleiksþjálfari landsins.
Brynjar Karl Sigurðsson er umdeildasti körfuknattleiksþjálfari landsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Körfuknattleiksþjálfarinn Brynjar Karl Sigurðsson er nýjasti gesturinn í Podcasti Sölva Tryggvasonar. Hann hefur undanfarin ár þjálfað ungar stúlkur í körfubolta, sem spila nú með íþróttafélaginu Aþenu. Kvikmyndin Hækkum rána, sem nýverið kom út og fjallar um ferðalag Brynjars og stúlknanna, hefur vakið gífurlegt umtal í samfélaginu. Í þættinum fer hann yfir söguna alla og gagnrýnina sem hann hefur fengið.

„Hjá okkur í Aþenu fær enginn borgað fyrir að þjálfa, hvorki ég né aðrir. Það er enginn í þessu fyrir peninginn. Mér finnst gott að ég sé ekki að fá borgað, þó ekki nema bara til að ég sé smá fyrirmynd þar. Þegar ég var að þjálfa FSU setti ég milljónir í liðið sjálfur úr eigin vasa og ég er líka að borga með mér í þessu núna í Aþenu. Ég vil láta gott af mér leiða og hafa góð áhrif og þetta er það sem ég kann best. Að þjálfa. Á öllum mínum 32 ára ferli sem þjálfari hef ég aldrei verið jafnstoltur af neinu liði sem ég hef þjálfað. Fólk verður aðeins að fara að kúpla sig inn á það hversu magnaðar þessar gellur eru. Þær eru algjörlega magnaðar og ég veit ekki hvað ég þarf að gera til að þjálfa aftur svona lið. Þetta var ótrúlegt lið,“ segir Brynjar og getur ekki haldið aftur af tárunum þegar hann talar um stelpurnar.

„Þessar stelpur eru svo miklar fyrirmyndir og það eiginlega breytti heilastarfseminni hjá fólki að mæta á æfingar. Það er svo rosalega uppörvandi að horfa á þetta. En svo var hópnum tvístrað eftir að þær létu medalíurnar falla … ég man að ég hugsaði þá að minn tími væri bara liðinn og ég yrði að hætta og vonandi myndi eitthvað gott sitja eftir hjá þessum stelpum. Svo kom dóttir mín til mín og sagði: „Pabbi, flytjum bara til útlanda“ og ég hugsaði með mér að það væri bara góð hugmynd, en mér fannst samt ömurlegt að það væri verið að gengisfella það sem þessar stelpur væru búnar að gera.

Þú verður að átta þig á því að þetta er toppurinn á mínum þjálfaraferli. Ég mun aldrei toppa það sem gerðist þegar þær létu medalíurnar falla. Þetta var fullkomið. Ég var búinn að hugsa frá byrjun að ég vildi að þessar stelpur tækju pláss, létu í sér heyra, væru óhræddar við að gera mistök og settu sinn eigin standard. Svo ákveða þær þetta sjálfar, æfa þetta og gera þetta svo. Pældu í hvað þú þarft mikið af vitund til að vera 13 ára og fá þessa hugmynd og framkvæma hana. En svo átti bara að moka þessu undir teppið og ofan í skúffu og hvorki KKÍ né íþróttafélögin ætluðu að tala um þetta við stelpurnar. [...] Á einhverjum punkti hugsaði ég að ég ætlaði aldrei að vera gæinn sem væri búinn að standa á bak við þær allan þennan tíma og svo myndi ég bara hætta. Ég fann að ég yrði að halda þessu áfram og þetta mætti ekki deyja.“

Brynjar á langan feril sem þjálfari, en hrífst ekki af þeirri menningu sem er við lýði hjá mörgum félögum:

„Ég hef aldrei þorað að segja þetta, en mér var boðið starf í þjálfarateyminu hjá Memphis Grizzlies í NBA-deildinni. Það var „character defining“ augnablik hjá mér að segja nei við því. Ég hef bara ekki áhuga á því að vera innan um alla þessa peninga af því að þá er þetta allt orðið svo skakkt. Þessi stóru íþróttafélög eru oft bara orðin „porn-klúbbar“ þar sem er verið að klæmast á gildum íþróttanna. Það er ekkert rými fyrir að fá að skora sig á hólm og prófa nýja hluti þó að það komi ekkert út úr því. Mér hefur aldrei verið boðið starf í efstu deild á Íslandi, þó að ég hafi komið menntaskólaliði FSU upp í úrvalsdeild þegar ég var upp úr þrítugu. Það varð yngsta félagið í sögunni og með yngsta leikmannahópinn til að spila í úrvalsdeild í boltagrein á Íslandi.

Mér finnst eiginlega fyndið að ég hafi ekki fengið nein símtöl með starfstilboðum eftir það. En kannski er það bara það að menn skynja mjög sterkt að ég hafi ekki áhuga á þeim kúltúr sem er í gangi og þess vegna vilja þeir ekki snerta á mér með priki. Höldum okkur við þá skýringu.“

Í þættinum ræða Sölvi og Brynjar um allt ferlið í kringum kvikmyndina og þjálfunina, feril Brynjars og aðferðir hans og ótal margt fleira.

Þáttinn má nálgast á hlaðvarpsvef mbl.is og í spilaranum hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál