Svanhildur keypti straujárn þegar Ísland hrundi

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.
Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Svanhildur Hólm Valsdóttir er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar. Svanhildur var um langa hríð aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar en er nú framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Þegar hrunið skall á var hún ritstjóri þáttarins Ísland í dag á Stöð 2. Hún segir í þættinum frá því furðulega andrúmslofti sem þá var uppi:

„Viðbrögð manns við svona hlutum geta verið furðuleg. Þegar Geir Haarde hélt „Guð blessi Ísland” ávarpið sitt fór ég ég í Byko og keypti mér straujárn. Straujárnið sem við áttum hafði lent í slysi ári áður, en einhverra hluta vegna fannst mér mjög mikilvægt að kaupa straujárn þennan dag, áður en allar birgðir í landinu myndu klárast. Það héldu allir að landið myndi lokast og andrúmsloftið var rosalega skrýtið. Ég man hvað það var hljótt alls staðar. Það var eins og fólk héldi niðri í sér andanum og fólk talaði saman í hálfum hljóðum. Ég keypti dýrasta straujárnið í búðinni af því að ég var sannfærð um að það kæmu aldrei aftur svona góð straujárn til landsins. Svo fór ég heim og setti það upp í skáp, þar sem mamma fann það ónotað tveimur árum seinna. Það er auðvelt að hlæja að þessu núna, en andrúmsloftið var mjög furðulegt. Til dæmis náði orðið fæðuöryggi fótfestu strax eftir hrunið, sem ég man ekki eftir að hafa heyrt mikið notað áður. Fólk var raunverulega hrætt um að landið myndi lokast alveg.“

Svanhildur segir í þættinum frá því að eftir hrun hafi andrúmsloftið markast af mikilli reiði og það hafi ekki heillað hana hvernig horft var á hlutverk fjölmiðla á þessum tíma:

„Ég sagði einhvern tíma að andrúmsloftið hafi verið orðið þannig að ef maður væri ekki að lemja fólk með naglaspýtu í beinni væri maður ekki að vinna vinnuna sína. Mér var farið að líða þannig að krafan væri að maður yrði að vera að kaghýða einhvern í beinni útsendingu, annars væri bara ekkert vit í því. Ég held að það sé sjaldnast leiðin til að ná fram upplýstri umræðu að leiða fólk á aftökustokkinn. Auðvitað getur verið gaman að taka viðtöl þar sem maður er harður, en það er ekki þannig að sá sem æpi hæst sé mesti töffarinn og líklegastur til að leiða fram sannleikann í málinu. Ég man bara eftir því að hafa farið í gegnum svona viðtöl og hugsað „Er þetta ekki bara komið gott?“ Svo ég ákvað að hætta og fara að skrifa ritgerð í lögfræði sem ég hafði ýtt á undan mér í mörg ár. Maður verður stundum að setja sjálfan sig í forgang og andlega líðan. Ég var búin að hugsa þetta í talsverðan tíma, en þessi hrunstemmning hjálpaði mér að taka þessa ákvörðun.”

Svanhildur tók síðar við sem aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, sem hún segir að hafi verið skemmtilegt starf:

„Ef þú myndir spyrja Bjarna myndi hann segja þér að ég væri alls ekki mikil „Já-manneskja”. Ég deildi ákveðinni sýn með honum, en við horfum ekki alltaf á hlutina með sömu augum og það er mjög gott að vera með fólk með sér sem er óhrætt við að segja þér hvað því finnst. Mér fannst mjög skemmtilegt að vinna við ráðgjafahlutverk í stjórnmálum. Það er mjög gaman að geta haft áhrif á það hvert hlutirnir fara. Flestir sem eru í stjórnmálum eru þar af því að þeir eru með hugsjónir og vilja bæta samfélagið. Það er tækifærið sem maður fær þegar maður er í þessu starfi.“

Í þættinum ræða Sölvi og Svanhildur um árin á Stöð 2, fjölmiðlaferilinn, athyglisbrest og margt fleira

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is og horfa á hann á YouTube: 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál