Saman í vaktafríi um páskana

Haukur Smári og Guðrún Ingibjörg verða saman í vaktafríi um …
Haukur Smári og Guðrún Ingibjörg verða saman í vaktafríi um páskana.

Guðrún Ingibjörg Þorgeirsdóttir, læknir á bráðamóttökunni, er með áhugaverða síðu á Instagram sem heitir Dr. Lady Reykjavík og segir hún ástæðuna fyrir því meðal annars vera til að breyta staðalímynd samfélagsins um lækna. 

„Allt frá því ég hóf störf á spítalanum á fjórða ári mínu í læknisfræði hef ég haft áhuga á því að starfa á bráðamóttökunni. Fyrstu þrjú árin í læknisfræðinni eru byggð á bóklegu námi, næstu þrjú árin eru svo bóklegt nám ásamt vinnu á spítala.“

Guðrún Ingibjörg segir vaktalífsstílinn henta sér vel þótt kostulegt sé hversu oft hún og unnusti hennar Haukur Smári Hlynsson sem er hjúkrunarfræðingur eru yfir hátíðisdaga hvort á sinni vaktinni.

„Um jólin var ég að vinna og hann í vaktafríi, síðan á páskunum í fyrra var hann að vinna og ég í fríi. Þess vegna hlakka ég mikið til páskanna, þar sem við erum bæði í fyrsta skipulagða vaktafríinu okkar saman.“

Það sem hún kann hvað mest að meta við bráðadeildinda er að þar fær hún að vera fyrsta manneskjan til að hitta sjúklinginn og það er bráðateymisins að komast að því hvað er að.

„Á öðrum deildum sjúkrahússins er oftast vitað nokkurn veginn hvað er að þeim sem koma á deildina. Frumgreining og fyrsta meðferð er alltaf ákveðin ráðgáta sem heillar mig.“

Konur eiga erindi í læknisfræðina

Guðrún Ingibjörg segir mikilvægt að samfélagið átti sig á að læknar eru eins og annað fólk, með langanir og væntingar og líf utan vinnunnar.

„Ég held meira að segja að ótti margra lækna sé að veikjast sjálfir enda hafa læknar löngum verið taldir erfiðustu sjúklingarnir.“

Hana langar sérstaklega að hvetja ungar konur til að skoða það að fara í læknisfræði enda eigi konur jafngóða möguleika á því að verða góðir læknar og eignast fjölskyldu, maka og börn eins og karlmenn, ef löngunin er fyrir hendi.

„Staðalímyndin af læknum var áður svolítið þannig að læknar væru dag sem nótt á spítalanum og sinntu varla fjölskyldu eða áhugamálum. Vissulega koma tímabil þar sem maður vinnur langar tarnir en almennt ætti enginn að þurfa að fórna einkalífinu til að vera góður læknir. Ég held að flestum, séstaklega yngra fólki, finnist gott að sjá að læknar og heilbrigðisstarfsfólk eiga sér líf utan læknisfræðinnar líka.“

Þótt Guðrún Ingibjörg sé spennt fyrir páskunum þá er hrekkjavaka uppáhaldshátíðin hennar.

Þá klæðir hún sig upp, gerir alls konar ógeðslegar veitingar og hræðir sjálfa sig og aðra með alls konar uppátækjum.

Á instagramsíðunni má sjá fallegan texta við ljósmyndirnar. Hvaðan kemur áhugi þinn á að skrifa?

„Ég hef haft ástríðu fyrir því að skrifa svo lengi sem ég man eftir mér. Ég vann einmitt á Morgunblaðinu um tíma, á sunnudagsblaðinu, með námi mínu í læknisfræði fyrstu árin. Þá fékk ég útrás fyrir að skrifa og kunni einstaklega vel við það. Mér finnst mjög gaman að segja sögur og finnst þægilegt að tjá mig í rituðu máli. Ég er frekar róleg í eigin persónu en þegar ég skrifa get ég látið gamminn geisa!“

Hún trúir því að hið mannlega sameini okkur öll og fyrst þegar maður hitti lækninn sinn á spítalanum sé mikilvægt að vita að maður er í góðum höndum, en einnig að læknirinn skilji að þótt verkefnið sé auðvelt fyrir fagfólk að leysa, þá sé það oft óþægilegt fyrir sjúklinginn.

„Mér finnst faglega fjallað um þennan mannlega hluta í grunnnáminu okkar í læknisfræði. Að hver einstaklingur er persóna og alveg óendanlega dýrmætur. Það má ekki gleyma því að það sem við heilbrigðisstarfsfólk sjáum oft á dag og finnst orðið lítið mál er oft stórt og erfitt augnablik í lífi sjúklingsins.“

Allt er gott í hófi

Hvað mælirðu með að landsmenn geri til að huga að heilsunni á páskunum?

„Ég er talskona þess að fara meðalveginn í öllu og hef ekki mikla trú á fanatík í eina átt frekar en aðra. Að því sögðu mæli ég með að fólk finni jafnvægi í mat og drykk. Fari út að ganga og fái sér súkkulaði en finni sitt eigið jafnvægi.“

Hver er uppáhaldsmálshátturinn þinn?

„Hann er þessi: Margur sér flísina í augum náungans en ekki bjálkann í sínum eigin. Það finnst mér góð skilaboð fyrir okkur öll. Þessi málsháttur kom upp í páskaeggi sem ég fékk mér um daginn  ég er nú þegar búin að fá mér nokkur. Svona aðeins til að taka forskot á sæluna.“

Guðrún og Haukur eru trúlofuð.
Guðrún og Haukur eru trúlofuð.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál