Ætlar að flæða í baði um páskana

Unnur Valdís Kristjánsdóttir kann betur en margir aðrir að taka …
Unnur Valdís Kristjánsdóttir kann betur en margir aðrir að taka hlutunum af æðruleysi. mbl.is/Helga Ingunn Sturlaugsdóttir

Unnur Valdís Kristjánsdóttir hönnuður og hugmyndasmiðurinn á bak við vatnaveröld Flothettu hefur frá árinu 2012 starfað að uppbyggingu fyrirtækis síns sem sérhæfir sig í vörum tengdum vatnavellíðan. 

„Flotmeðferðir Flothettu hafa notið mikilla vinsælda síðastliðin ár. Flotmeðferð er djúpslakandi vatnsmeðferð þar sem þátttakendur þiggja meðhöndlun á meðan flotið er. Flotmeðferðin var tilnefnd til Hönnunarverðlauna Íslands 2020 og er ég þakklát fyrir það jákvæða viðmót sem við höfum fengið. 

Hugmyndafræði Flothettu gengur mikið út á nærandi samveru í vatninu og því hefur að sjálfsögðu verið áskorun að fara í gegnum kórónuveirutímann. Flothettuteymið hefur engu að síður nýtt tímann vel í að styrkja innviðina og mun á næstunni kynna ýmsar spennandi vörur og áhugaverðar námskeiðshelgar.“

Á páskunum ætlaði Unnur að fljóta líkt og vanalega og fara út á land til þess. 

„Páskarnir voru fráteknir fyrir endurnærandi slökunardaga með Flothettu á Hótel Húsafelli. Þar var planið að bjóða upp á lúxus vatnavellíðunar- og slökunardagskrá. Eðlilega varð að fresta því og þá stendur maður frammi fyrir þeirri skemmtilegu stöðu að vera með engin plön, autt blað og fram undan er frí. Tilhlökkunin um góða daga í Húsafelli og svekkelsið við að fara á mis við það víkur fyrir því að sjá að engin plön eru stór gjöf í lífi fullorðinnar manneskju. Við erum svo upptekin við að skipuleggja okkur og tíma okkar í þaula. Við pössum upp á að aðgerðalistinn okkar (e. to do list) tæmist aldrei og enginn tími fari til spillis. Því kýs ég að þiggja þessa gjöf sem býðst núna í formi frídaga og engra plana með því að sleppa mér fullkomlega inn í það flæði. Leyfa stemningu dagsins að ráða för og gera það sem mér dettur í hug þá stundina. Eina reglan hjá mér verður um páskana: Engin plön!“

Unnur Valdís elskar að vera í vatni.
Unnur Valdís elskar að vera í vatni.

Páskarnir eru yndislegur tími að mati Unnar. 

„Vorið boðar nýtt upphaf. Náttúran og mannfólkið eru að vakna til lífsins og hrista af sér vetrardvalann. Því er þetta svo dásamlegur tími til að hvílast og nærast. Að undirbúa sig fyrir íslenska sumarið sem er svo stutt og spennandi að maður tímir varla að sofa á þeim tíma.“

Hvað eigum við að gera sem erum vön að vera í sundi um páskana? 

„Vatnavellíðan páskanna verður að vera í formi góðra baðstunda. Í fyrstu kórónuveirubylgjunni komum við hjá Flothettu með afar slakandi og góða jurtablöndu á markað sem kallast Makindabað. Þetta hefur verið hið mesta dekur og bjargráð á meðan sundlaugarnar okkar góðu eru lokaðar. Gott heimabað í fullkominni núvitund með sjálfri þér er því það sem ég mæli með um páskana. Þannig verða mínir páskar þetta árið.“

Makindabað eru jurtir sem settar eru í pressukönnu og látnar …
Makindabað eru jurtir sem settar eru í pressukönnu og látnar liggja að bleyti í 15 mínútur. Síðan er Jurtaseyðinu hellt út í baðið. mbl.is/Flothetta
mbl.is
Loka