Þú getur gefið út bók þótt þú sért með stóran rass

Birna Pétursdóttir er gestur Snæbjörns Ragnarssonar í þessari viku.
Birna Pétursdóttir er gestur Snæbjörns Ragnarssonar í þessari viku.

Birna Pétursdóttir fer ekki endilega troðnar slóðir. Hún er leikari, leikskáld,  dagskrárgerðarmaður og einn stofnenda Flugu hugmyndahúss. Bernskudraumurinn var ávallt að verða leikkona og fór hún beint til London í leiklistarnám að loknu stúdentsprófi við MA. Það er þó ekki alltaf tekið út með sældinni að vera leikari og á köflum hefur neyðin kennt Birnu að spinna: hún hefur meðal annars komið að stofnun leikhópsins Umskiptinga, unnið í dagskrárgerð hjá N4 og RÚV, skrifað leikrit og er í dag í fullri vinnu við leiklist. Það reynist henni þó ekki nóg og hún er í mastersnámi í hagnýtri þjóðfræði í hjáverkum, þegar tími leyfir. Birna hefur þurft að etja við lágt sjálfsmat og í þessu viðtali heyrum við hennar reynslu af því að vinna sig út úr þeim þrálátu hugsunum – og hugsanlega hvernig hún breytti þeim í verkfæri í leiklistarkistunni sinni. Hún er gestur Snæbjörns Ragnarssonar í hlaðvarpsþættinum Snæbjörn talar við fólk. 

Birna upplifði mikla höfnun þegar hún kom heim úr leiklistarnámskeiði í London og gafst í einhvern tíma upp á leiklist í kjölfarið. Beint úr skóla bauðst henni hlutverk í bíómynd sem tekin var upp í Berlín, en framleiðendur reyndu að fá hana til að gera hluti utan samnings og handrits. Þegar hún hafði orð á einhverri óánægju var hún látin taka pokann sinn, og hafði það þónokkur áhrif á hana sem nýútskrifaðan leikara.

Eftir að hún flutti heim eftir nám fékk hún ekki strax leiklistarstörf. Í einhvern tíma bjó hún í lítilli stúdíóíbúð með tveimur vinkonum sínum og vann við allt og ekkert. Með hennar orðum: „ekki góður tími.“ Flutti loks norður til Akureyrar til að kenna leiklist og hætti í raun að leika í þónokkurn tíma.

Birna hefur þurft að eiga við kvíða, sem oft byggist á lágu sjálfsmati og að finnast erfitt að vera á mannamótum. Sem leikari finnst henni ekkert mál að vera á sviði, en að hitta fólk eftir sýningu olli henni kvíða.

„Ég hef til dæmis alltaf ferðast rosalega mikið – ein. Það stressar mig ekki neitt. Það væri alveg eitthvað sem ætti kannski að triggera kvíða hjá einhverjum [...] ég fór ein á bakpokaferðalag um Íran fyrir nokkrum árum. Það stressaði mig ekki neitt. En svo bara þurfti ég að [...] klára leiksýningu og labba upp og heilsa einhverju fólki sem ég þekkti ekki og þá var ég bara með, þú veist, svitaskegg og bara... [másandi] Bara ógeðslega stressuð af því ég þurfti einhvern veginn að ... vera ég.“

Úti í Brasilíu kynntist hún stéttaskiptingu og rasisma á eigin skinni, þegar hún átti svartan kærasta: „Og svo eignaðist ég einhvern kærasta sem var trommari í svona sambahljómsveit. […] Við vorum saman, sátum saman á torginu og það var hrækt á okkur og sagt bara að þetta væri engin leið fyrir evrópska læknisdóttur að haga sér.“

Birna talar lengi í viðtalinu um þá upplifun að hafa þurft að takast á við óréttlætið sem hún varð vitni að í Brasilíu, sambandið við fjölskylduna sem hún bjó hjá úti og það að horfa til baka á hvernig hún sem unglingur tókst á við misskiptinguna í Brasilíu. Einnig talar hún um hvað hún er ánægð með að hafa gert þetta sem ung og óreynd manneskja.

„Það var líka einmitt eitt sem ég var að hugsa með henni Hrefnu minni. Hvað það fór ógeðslega mikill tími í að hugsa um allt þetta, þegar ég hafði getað verið að gera eitthvað geggjað. Hefði getað verið að búa eitthvað til en ég var bara eitthvað: „Eru brjóstin á mér nær gólfinu í dag en þau voru í gær?“ [...] Bara raunverulegur tími sem fer í að gagnrýna sig og rífa sig niður, og hafa áhyggjur af einhverju sem er ekki í þínum höndum og er ekki eitthvað sem ætti að hamla þér í þínu daglega lífi. [...] Þú getur alveg skrifað skáldsögu þó að þú sért með stóran rass eða skakkt nef.“

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

Snæbjörn Ragnarsson og Birna Pétursdóttir.
Snæbjörn Ragnarsson og Birna Pétursdóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál