Sólborg er að lifa drauminn

Sólborg stefnir langt í tónlistinni.
Sólborg stefnir langt í tónlistinni. Ljósmynd/Aðsend

Tónlistarkonan og aðgerðasinninn Sólborg Guðbrandsdóttir gefur út lagið Adios undir listamannsnafninu SUNCITY í dag, föstudag. Sólborg hefur vakið mikla athygli undanfarin ár fyrir baráttu gegn kynferðisofbeldi undir hattinum Fávitar. Fyrir áramót ákvað hún að kveðja verkefnið sem var erfitt en á sama tíma frelsandi.

„Lagið heitir Adios og er annað lagið sem ég gef út sem SUNCITY. Það er samið af Klöru Elias, Ölmu Goodman, Aaron Max Zuckerman og La Melo, sem syngur einmitt hluta af því með mér. Adios er latin-popplag á bæði ensku og spænsku og er áminning um það að hlusta á gjörðir fólks en ekki einungis fögru orðin þess.“

Sólborg er búin að vinna í laginu síðan árið 2019 og segir ansi ljúft að gefa það loksins út. Lagið kemur út á vegum tónlistarrisans Sony. 

„Sony aðstoðar mig við alls kyns hluti í tengslum við tónlistina mína, meðal annars markaðssetningu. Það er dýrmætt að hafa svona frábært og reynt fólk að vinna með sér og á sama tíma algjör heiður. Mig hefur dreymt um þessa stöðu frá því ég var lítill krakki.“

Er SUNCITY einhvers konar hliðarsjálf? 

„Mér fannst eitthvað fallegt við það að fá að aðgreina þetta tvennt, tónlistina mína og svo mig sjálfa, þótt þetta haldist auðvitað alltaf í hendur. Annars fannst mér SUNCITY bara töff, það er bein þýðing á nafninu mínu og auðveldara fyrir útlendinga að bera fram en Sólborg. Stefnan er tekin út í heim svo þetta var ákvörðun sem ég tók, hugsandi lengra fram í tímann,“ segir Sólborg.

Er meiri tími fyrir tónlistina eftir að þú ákvaðst að kveðja verkefnið Fávita?

„Já, alveg klárlega. Ég er reyndar algjört fiðrildi og oftast snögg að troða mér í alltof mörg verkefni samtímis og það á svo sannarlega við um líf mitt þessa dagana. Það eru auðvitað algjör forréttindi að geta bara kvatt aktívisma og snúið sér að öðru þar sem það eru alls ekki allir í þeirri stöðu. Ég fann það hins vegar, eftir fimm ára baráttu, að mig vantaði að einblína á fallega hluti í lífi mínu og skipta um stefnu.“

Var það frelsandi? 

„Það var mjög frelsandi, erfitt en gott á sama tíma. Ég brotnaði eiginlega bara niður en sem betur fer er ég með gott fólk í kringum mig. Áður en ég hætti var ég skipuð formaður í starfshópi menntamálaráðuneytisins sem snýr að því að bæta kynfræðsluna í grunn- og framhaldsskólum landsins. Við erum á fullu að vinna að tillögum þar. Ég flyt svo annað slagið fyrirlestra ennþá, þegar veður og veirur leyfa. Þar fyrir utan er ég hætt með síðuna.

Þú ert vön að halda mörgum boltum á lofti. Hvernig verður framtíðin? 

„Ég er að vinna að EP-plötu með frábæru tónlistarfólki og vinum mínum sem fær að líta dagsins ljós á þessu ári. Allt annað er sirkabát óráðið en allt fallegt og gott er velkomið.“

Hefur kórónuveiran haft áhrif á þig?

„Ég held þetta hafi haft áhrif á okkur öll, bæði neikvæð og jákvæð, og hafi enn. Ég þarf bara að gjöra svo vel að vera æðrulaus og reyna að halda mínu striki. Það eru allir að gera sitt besta og við munum komast í gegnum þetta.“

Sólborg Guðbrandsdóttir eða SUNCITY er að gefa út nýtt lag. …
Sólborg Guðbrandsdóttir eða SUNCITY er að gefa út nýtt lag. Tónlistarmaðurinn La Melo syngur með henni í laginu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál