„Hann bað einhvern Jóhann Frímannsson að giftast sér“

Jóhann Frímann Rúnarsson ásamt eiginmanni sínum Axel Inga Árnasyni á …
Jóhann Frímann Rúnarsson ásamt eiginmanni sínum Axel Inga Árnasyni á brúðkaupsdaginn. Ljósmynd/Ása Egilsdóttir

Jóhann Frímann Rúnarsson vísindamaður hjá Alvotech og Axel Ingi Árnason tónskáld og kórstjóri eru báðir utan af landi. Þeir giftu sig árið 2018 en Axel bað Jóhanns Frímanns á Pallaballi. Hann bar reyndar upp rangt nafn en fór rétt með bónorðið daginn eftir. 

Jóhann Frímann og Axel Ingi eru skemmtilegir karlmenn sem vega hvor annan upp.

Þeir eru báðir utan af landi; annar að vestan og hinn að norðan, en eru nú búsettir í Kópavogi með fóstursyni sínum sem verður þriggja ára í sumar.

Þeir giftu sig hinn 7. júlí árið 2018 og völdu dagsetninguna þar sem hún er mitt á milli afmælisdaga þeirra; 2. júlí og 16. júlí. Sonur þeirra fæddist 21. júní svo það er haldið upp á mörg afmæli á sumrin á heimilinu.

„Restin af árinu fer svo bara í að bíða,“ segja þeir.

Bónorðið var borið fram tvisvar

Sagan um hvernig þeir kynntust er góð fyrir barnabörnin að þeirra mati. „Við kynntumst á hinu rómantíska stefnumótaappi Grindr. Það er líklega hin klassíska ástarsaga nútímans. Til að bæta á rómantíkina var fyrsta stefnumótið mjög fyndið. Við fórum út að borða á veitingastað sem Axel valdi. Hann hafði áður unnið á barnum á þessum ágæta stað og þekkti því alla sem þar unnu. Hann var duglegur að panta drykki og mat fyrir okkur. Svo þegar kom að því að borga þá hafði hann gleymt veskinu sínu heima. Sem var án efa góð leið til að tryggja næsta stefnumót þar sem hann þyrfti að borga næst,“ segir Jóhann.

Hver bar fram bónorðið?

„Það var Axel. Hann fer alla leið í því sem hann tekur sér fyrir hendur. Bónorðið var engin undantekning á því,“ segir Jóhann.

Jóhann er frá Bolungarvík og vörðu þeir páskunum árið 2017 fyrir vestan. Á föstudaginn langa fóru þeir á ball með Páli Óskari. Axel var búinn að fá Palla með sér í lið og slökkti hann skyndilega á tónlistinni og kallaði þá báða upp á svið.

„Hann rétti Axel hljóðnema og hann fór svo niður á annað hnéð og bar upp bónorðið. Hvort sem það var stressinu að kenna eða áfengismagnið í blóðinu þá sagði Axel vitlaust nafn og bað einhvern Jóhann Frímannsson að giftast sér! Það þurfti því að endurtaka bónorðið morguninn eftir með réttu nafni,“ segir Jóhann.

Voruð þið búnir að vera lengi saman?

„Nei, í rauninni ekki. Við fórum á fyrsta stefnumótið ári áður þannig að þetta gerðist allt frekar hratt en okkur fannst það aldrei of hratt. Fjórum mánuðum eftir að við kynntumst fórum við norður í sveitina hans Axels, þar sem hann ólst upp, þar sem hann sýndi mér umhverfið og tilkynnti mér að þarna ætlaði hann að gifta sig. Hverjum svo sem hann myndi giftast,“ segir Jóhann og bætir við að hann sé sannfærður um að Axel hafi borið upp bónorðið fyrir vestan til þess að réttlæta að veislan yrði haldin fyrir norðan.

Lofa hvor öðrum að vera til staðar

Hvaða máli skiptir fyrir ykkur að vera í heilögu hjónabandi?

„Fyrir okkur var það aðallega staðfesting á ástinni. Það hefur minna að gera með trúarbrögð fyrir okkur, þetta snýst meira um loforðið að vera alltaf til staðar. Svo langaði okkur bara að fagna lífinu með öllu fólkinu okkar, borða góðan mat og halda dúndurpartí,“ segja þeir.

Tók undirbúningurinn langan tíma?

„Undirbúningurinn tók rúmt ár. Við byrjuðum að skipuleggja brúðkaupið fljótlega eftir bónorðið og giftum okkur 15 mánuðum síðar. Það kom sér vel að Axel getur misst sig í skipulagi og varð hann eiginlega algjör „bridezilla“ í undirbúningnum. Hann var með litla stílabók þar sem hann skrifaði niður mjög nákvæmt tímaplan fyrir brúðkaupsvikuna og alls konar lista,“ segir Jóhann.

Jóhann Frímann og Axel Ingi láta ekkert stoppa sig í …
Jóhann Frímann og Axel Ingi láta ekkert stoppa sig í að upplifa ástina og lífið saman. Ljósmynd/Ása Egilsdóttir

Hvar var brúðkaupið haldið og hvernig var í kirkjunni?

„Brúðkaupið var haldið þar sem Axel ólst upp, á Ásum í Eyjafjarðarsveit. Hvorugur okkar er í þjóðkirkjunni en Axel er skráður í Ásatrúarfélagið. Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði gaf okkur saman en þeir Axel eru góðir vinir. Athöfnin fór fram úti í garði við Ása. Faðir Axels smíðaði sérstaklega pall við suðurenda hússins. Veðrið var fallegt á brúðkaupsdaginn en auðvitað rigndi meðan athöfnin fór fram en það á að vera heillamerki svo við kvörtuðum ekki. Svo stuttu síðar stytti upp og það var heiðskírt það sem eftir lifði kvölds.

Við fengum vinkonu okkar Örnu Rún Ómarsdóttur til að syngja þrjú lög við athöfnina. Inngöngulagið var „Can You Feel the Love Tonight“ úr Lion King en Axel er mikill Elton John-aðdáandi. Þegar við kveiktum saman í litlu báli að ásatrúarsið söng Arna lagið „All of Me“ með John Legend. Útgöngulagið var svo „We Found Love“ með Rihönnu en það er skondin tilvísun í hvernig við kynntumst.“

Brúðkaupið var haldið þar sem Axel ólst upp á Ásum …
Brúðkaupið var haldið þar sem Axel ólst upp á Ásum í Eyjafjarðarsveit. Ljósmynd/Ása Egilsdóttir

Alls konar hæfileikar í tveimur fjölskyldum

Þeir eru þakklátir fyrir fjölskyldurnar sínar.

„Fjarlægðin við foreldra okkar er oft erfið, sérstaklega eftir að við eignuðumst son okkar. Foreldrar Axels búa fyrir norðan en móðir mín og stjúpfaðir búa í Bolungarvík yfir sumarmánuðina og á Kanarí á veturna. Systur okkar beggja hafa þess vegna verið okkar helsta bakland, en þær eru í miklu uppáhaldi hjá syninum. Svo erum við svo heppnir að eiga góða vini að sem eru eins og fjölskyldan okkar.“

Hvorugur þeirra er í þjóðkirkjunni en Axel er skráður í …
Hvorugur þeirra er í þjóðkirkjunni en Axel er skráður í Ásatrúarfélagið. Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði gaf þá saman. Ljósmynd/Ása Egilsdóttir

Hvað gerðuð þið til að hafa brúðkaupið skemmtilegt?

„Til að byrja með eyddum við miklum tíma í að klára borðaskipulagið. Það er ákveðin list að raða fólki til borðs þannig að hópar blandist saman en samt passa að enginn sitji einn með fólki sem hann þekkir lítið.

Við fengum góðar vinkonur okkar þær Birnu og Grétu Kristínu til að vera veislustýrur. Þær eru báðar sviðsvanar konur sem láta verkin tala. Vikurnar fyrir brúðkaupið hafði Axel miklar áhyggjur af því að það yrðu engin skemmtiatriði og að fólkið okkar myndi bara ekki vilja halda ræður. Ég var afslappaðri með þetta en Axel bað veislustýrurnar til vonar og vara að undirbúa nokkur skemmtiatriði þar sem ef til vill yrði vöntun á þeim.

Það kom á daginn að það var svo þétt dagskrá af fólki og vinahópum sem vildu vera með atriði eða ræður að veislustýrurnar komust varla að. Vegna fjölda skemmtiatriða teygðist borðhaldið fram yfir miðnætti, þó án þess að það væri komin einhver þreyta í mannskapinn.

Þá var kveikt upp í kolunum og gestum boðið upp á grillaðar pylsur meðan Siggi Gunnars, drauma-DJ hommanna, kom sér fyrir á sviðinu. Það er algert lykilatriði að gefa fólkinu smá aukanæringu áður en það á að fara að dansa. Við gerðum ráð fyrir að eitthvað af fólkinu yrði farið að tínast í burtu um miðnættið en það var ekki fararsnið á neinum svo pylsurnar kláruðust hratt og örugglega. Svo var dansað inn í nóttina. Klukkan hálfsjö um morguninn þurftum við að reka síðustu gestina heim svo við gætum sofið smá eftir langan en frábæran dag. Það var kostulegt að sjá taxaröð myndast í heimreiðinni lengst úti í sveit þegar við vorum að fara að sofa,“ segja þeir.

Hamingjusamlega nýgiftir og tilbúnir í borðhaldið.
Hamingjusamlega nýgiftir og tilbúnir í borðhaldið. Ljósmynd/Ása Egilsdóttir

Brúðkaupið var samvinnuverkefni

Upphaflega voru þeir ekki á sömu blaðsíðu með hvernig brúðkaup þeir vildu.

„Við vorum sammála um að hafa veisluna í sveitinni, en á meðan Axel vildi hafa sveitabrúðkaup með lopapeysuþema vildi ég hafa fína spariveislu. Niðurstaðan var því fínt

sveitabrúðkaup. Við reistum stærðarinnar veislutjald með gólfi, sviði og hljóðkerfi. Auk þess leigðum við borð, stóla og leirtau frá Akureyri. Í raun má segja að við höfum sett upp sal fyrir 180 manna brúðkaup úti í sveit.

Þegar kom að borðaskipan fóru þeir frekar óhefðbunda leiðir og …
Þegar kom að borðaskipan fóru þeir frekar óhefðbunda leiðir og nefndu borðin eftir dragdottningum úr „Rupaul's Drag Race“. Ljósmynd/Ása Egilsdóttir

Þetta var mikil vinna en við eigum svo ótrúlega gott fólk að sem hjálpaði okkur við undirbúninginn og hefðum ekki getað gert þetta án þess. Eftir á að hyggja var þessi framkvæmd smá brjálæði en algjörlega þess virði og við hefðum aldrei viljað hafa þetta öðruvísi.

Skreytingarnar voru náttúrulegar; hvítdúkuð borð og við notuðumst aðallega við plöntur úr umhverfinu. Við vorum einnig með krukkur með kertum. Tvær föðursystur Axels eru garðyrkjufræðingar og höfðu þær yfirumsjón með skreytingunum en með þeirra hjálp breyttist tjaldið í hlýlegan veislusal. Svo leigðum við seríur sem við hengdum í loftið á tjaldinu. Það fullkomnaði sveitasjarmann,“ segir Jóhann og Axel tekur við:

„Okkur fannst mikilvægt að fá færan ljósmyndara til að festa daginn á filmu og völdum hina hæfileikaríku Ásu Egilsdóttur í verkið. Við náðum strax vel saman, sem skipti máli þar sem við eyddum miklum tíma með henni.

Í aðdragandanum sagði Ása að hún myndi líklega vera á svæðinu að taka myndir fram undir miðnætti. Hún skemmti sér svo vel að hún fór ekki heim fyrr en um miðja nótt. Því uppskárum við frábærar partímyndir í bland við fallegar veislumyndir.

Brúðhjónin skemmtu sér vel í eigin brúðkaupi.
Brúðhjónin skemmtu sér vel í eigin brúðkaupi. Ljósmynd/Ása Egilsdóttir

Þegar kom að borðaskipan fórum við frekar óhefðbundna leið. Við höfum báðir lengi verið miklir aðdáendur hins stórkostlega sjónvarpsþáttar „Rupaul's Drag Race“ og dragdrottninga yfirhöfuð. Því ákváðum við að merkja borðin eftir okkar uppáhaldsdrottningum úr þáttunum. Svo var planið að sýna stutt myndbrot þar sem hver og ein drottning væri kynnt til leiks svo allir; hvort sem það væri amma mín eða föðurbróðir Jóhanns, gætu kynnst sinni drottningu. En svo fór rafmagnið nokkrum sinnum þar sem við vorum úti í sveit þannig að sú kynning náði nú frekar stutt. Við erum samt á því að áhorf á þættina hafi aukist töluvert eftir 7. júlí árið 2018. Sérstaklega hjá frænkum Jóhanns á öllum aldri.“

Það var mikið um gleði og hlátur í borðhaldinu.
Það var mikið um gleði og hlátur í borðhaldinu. Ljósmynd/Ása Egilsdóttir

Þeir buðu upp á holugrillað lambalæri og meðlæti í aðalrétt sem foreldrar Axels höfðu veg og vanda af.

„Ég ákvað að spreyta mig á að baka brúðkaupskökuna. Fyrir brúðkaupið hafði ég aðallega bakað skúffukökur og múffur. Kakan heppnaðist vel og síðan þá hef ég verið síbakandi,“ segir Jóhann.

Fólkið þeirra sá svo til þess að dagskráin væri fjölbreytt og skemmtileg.

Það voru tónlistaratriði og drepfyndnar ræður að ógleymdu hláturjóga, sem mamma Jóhanns stóð fyrir, sem sló í gegn.

Seinna um kvöldið birtist Siggi Gunnars sem þeir segja drauma-DJ …
Seinna um kvöldið birtist Siggi Gunnars sem þeir segja drauma-DJ hommanna. Ljósmynd/Ása Egilsdóttir

Vega hvor annan upp

Hver er grunnurinn að góðu hjónabandi?

„Það má kalla það klisju en við höfum alltaf haft það sem reglu að fara aldrei ósáttir að sofa. Ef það eru einhver ágreiningsmál er alltaf best að útkljá þau strax. Það hefur verið styrkleiki í okkar sambandi hversu ólíkir við erum. Við vegum hvor annan upp,“ segja þeir.

Þegar Axel langar að kaupa dýrustu og fínustu Dyson-ryksuguna spyr Jóhann hvort þörf sé á því.

„Sérstaklega þar sem Axel hefur ryksugað svona þrisvar í allri sambúðinni,“ segir Jóhann.

„Svo þegar Jóhann fer að ofhugsa hlutina þá nær kærulausi eiginmaðurinn að róa hann niður,“ segir Axel.

Þeir eru sammála um að brúðkaupsdagurinn þeirra sé besti dagur sem þeir hafa upplifað.

„Besta ráðið sem við getum gefið varðandi undirbúninginn er að vera vel skipulagður. Vera tilbúinn að gera málamiðlanir en umfram allt hafa gaman af undirbúningnum. Svo er líka gott að fá pottþétta veislustjóra sem maður treystir til að takast á við hluti sem koma upp í veislunni. Þetta er ykkar dagur. Þið viljið geta notið hans áhyggjulaus!“

Gestirnir skemmtu sér langt fram á nótt í brúðkaupinu sem …
Gestirnir skemmtu sér langt fram á nótt í brúðkaupinu sem var einstaklega skemmtilegt fyrir alla. Ljósmynd/Ása Egilsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál