Þjóðin fór í gegnum veiruna með meira kynlífi

Gerður Huld Arinbjarnardóttir eigandi Blush fyrir framan kirsuberjatréð.
Gerður Huld Arinbjarnardóttir eigandi Blush fyrir framan kirsuberjatréð. mbl.is/Árni Sæberg

Gerður Huld Arinbjarnardóttir eigandi Blush stendur í stórræðum þessa dagana. Í síðustu viku opnaði hún 400 fm verslun með risastóru kirsuberjatré í miðri verslun. Hún segir augljóst að fólk hafi farið í gegnum veiruna með því að stunda kynlíf. 

„Þegar við fórum af stað í þetta verkefni þá vissi ég strax að ég vildi opna verslun sem væri frábrugðin því sem fólk hefur séð áður. Ég fór inn í þetta verkefni með nokkur svona stikkorð, sem eru ævintýralegt, fágað, aðgengilegt, praktískt. Það má segja að þessi orð endurspegli mjög vel hvernig ég myndi lýsa versluninni. Verslunin er eins og einn stór ævintýraheimur fyrir fullorðna. Í miðri búðinni er risastórt kirsuberjatré sem setur mjög skemmtilegan svip á búðina. Allar innréttingar fá innblástur frá merki fyrirtækisins og eru smíðaðar af Fimm ásum. Verslunin sjálf er rúmlega 400 fm svo það er nóg af plássi og gott aðgengi fyrir alla,“ segir Gerður. 

Fyrri verslun Blush var 160 fm með lager og skrifstofu og þetta því mikil breyting. Nýja verslunin er 860 fm sem skiptist í vöruhús, skrifstofur, verslun og svo sal þar sem Gerður Huld ætlar að taka á móti hópum og vera með námskeið og fyrirlestra. 

„Þetta er algjör bylting fyrir okkur, en áður vorum við með lagerinn okkar á fimm stöðum um allan bæ og starfsmann sem keyrði á milli staða með vörur, núna er allt á einum stað,“ segir hún. 

Þegar Gerður Huld er spurð að því hvers vegna hún hafi farið út í þessa stækkun núna segir hún að fyrirtækið hafi verið í allt of litlu húsnæði. 

„Við opnuðum gömlu verslunina fyrir rúmlega tveimur árum síðan og strax á fyrsta mánuðinum sprengdum við það húsnæði. Síðustu tvö árin hefur fyrirtækið vaxið mikið. Við reyndum samt að þrauka þar eins lengi og við gátum áður en við fórum að skoða nýtt húsnæði, en svo var orðið dýrara fyrir okkur að leigja húsnæði um allan bæ og vera með starfsmann í því starfi að keyra á milli heldur en að finna okkur stærra húsnæði svo úr varð að flytja á Dalveginn.“

Gerður Huld segist hafa fundið mikið fyrir að landsmenn hafi verið heima hjá sér að stunda kynlíf á meðan veiran geisaði. 

„Við fundum mikla aukningu í sölu í fyrstu bylgjunni og það hefur ekkert dottið niður síðan. Fólk er almennt meira heima svo ætli það spili ekki eitthvað inn í að það sé aukning í sölu á kynlífstækjum. Kynlífstæki eru alltaf að verða minna og minna tabú og fólk er að átta sig á því hvað kynlíf er mikilvægur partur af lífinu. Hvort sem það er með sjálfum okkur eða öðrum.“

Brynhildur Sólveigardóttir, arkitekt hjá Akkur arkitektum, hannaði verslunina. Gerður Huld segist vera mjög ánægð með hennar störf. 

„Samstarfið gekk rosalega vel og hún kom með hugmyndir sem pössuðu vel við þá hugmyndir sem ég hafði séð fyrir mér.“

Hvernig muntu fagna þessum áfanga?

„Við vonandi fáum tækifæri til þess að fara út að borða fljótlega með öllu starfsfólkinu okkar, sem hefur unnið dag og nótt síðustu daga til að fagna þessu skemmtilega verkefni.“

Þú ert ekki bara framkvæmdaglöð í vinnunni heldur líka heima. Myndir þú skella þér í svona verkefni aftur?  

„Já klárlega! Þetta er búið að vera ofboðslega skemmtilegt og lærdómsríkt verkefni. Núna þegar maður er búinn að finna svona flottan hóp af kláru fólki, smiðunum hjá Fimm ásum, sem bókstaflega sýndu það að þeir geti smíðað allt, Brynhildur arkitekt sem er ofboðslega gott að vinna með og kemur með æðislegar hugmyndir og nytsamleg ráð, og ekki má gleyma rafvirkjunum okkar hjá Straumneti sem eru að ég held jákvæðustu rafvirkjar sem þú finnur og veittu líka mikla ráðgjöf og aðstoð í hvernig best væri að útfæra hlutina.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál