Þú veist þegar þú veist

Marta María Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is.
Marta María Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is. Ljósmynd/Kári Sverriss

Vegir ástarinnar eru flóknir. Það að tvær manneskjur geti hnotið hvor um aðra og upplifað það mikla hrifningu og ástríðu að viðkomandi vilji eyða lífinu saman á varla að vera hægt. Töfrarnir gerast þó enn og við sem lifum í vestrænu samfélagi eigum að vera þakklát fyrir að geta valið okkur maka með hjartanu. Okkur sé ekki bara úthlutað aðila til að giftast út frá hagsmunum fólksins í kringum okkur.

Þótt við séum heppin að geta ráðið sjálf hverjum við verjum lífinu með þá getur verið flókið að finna rétta aðilann. Þegar þú telur þig hafa fundið rétta aðilann, hvernig veistu hvort viðkomandi er sá rétti?

Í raun getur þú ekki vitað það. Þú verður bara að taka sénsinn enda er ekki til nein trygging fyrir því að sá sem þú bindur trúss þitt við muni vera með þér ævina á enda. Ég held þó að sambönd sem ganga hnökralaust frá fyrstu stundu séu líklegri til að endast heldur en þau sem þarf að hafa mikið fyrir að klambra saman. Fólk þarf líka að vera tilbúið til að gera málamiðlanir og vilja leggja eitthvað á sig til þess að láta hlutina ganga. Fólk gerir það ekki nema ástin sé það mikil að það telji að það sé þess virði.

Við kærastinn minn, sem verður formlega eiginmaður minn í sumar, hittumst eftir að hafa talað saman á netinu í nokkrar vikur. Hann hafði óskað eftir því að vera vinur minn á félagsmiðli nokkrum og þegar ég var fyrst manna til að „líka“ við ljósmynd af honum og afkvæmum hans hélt hann að ég væri að senda honum skýr skilaboð um að ég væri sjúk í hann. Það var löngu áður en hann áttaði sig á að ég „líka“ stundum við tugi mynda á degi hverjum þegar ég er mjög andlega fjarverandi.

Þegar við kærastinn minn vorum búin að hittast einu sinni á formlegu deiti þá tábrotnaði ég. Mín fyrstu viðbrögð voru að hringja í hann. Hann tilkynnti mér að hann væri á leiðinni og færi með mig á bráðamóttökuna. Ég hafði nú ekki séð það alveg þannig því ég var vön að bjarga mér sjálf ef eitthvað bjátaði á. Á bráðamóttökunni vorum við í um það bil átta klukkustundir. Riddarinn á svörtu Volvo-bifreiðinni stimplaði sig rækilega inn þegar hann tók stjórnina í samtali við bæklunarsérfræðing og tók ákvörðun um að láta ekki taka af mér tánöglina. Ég sá að ég gæti treyst manni sem væri svona umhugað um velferð mína. Okkur leiddist heldur ekkert þessa átta klukkutíma. Hann sagði mér sögur og sannfærði mig um að þetta yrði allt í lagi. Á meðan hann sagði mér sögur hugsaði ég með mér að mér myndi aldrei leiðast með þessum manni.

Daginn eftir hringdi hann í mig til þess að athuga hvernig ég væri í tánni. Ég bar mig mannalega og eftir langt samtal spurði ég hann hvort við værum byrjuð saman eða? Hann svaraði því játandi. Síðan þá eru liðin nokkuð mörg ár og enn erum við ekki uppiskroppa með umræðuefni og mér leiðist aldrei (sem er lykilatriði).

Þótt við höfum vitað að við vildum eyða lífinu saman þá hefur það ekki alltaf verið auðvelt. Oft er talað um að fólk þurfi að vera hæfilega ólíkt en hafa þannig eiginleika að það geti funkerað saman. Við erum eins og dagurinn og nóttin og hefur okkar helsta áskorun verið að takast á við frekjuna hvort í öðru. Fólk sem er vant að ráða för í leik og starfi og er komið yfir fertugt þarf að vera mjög ástfangið til að vera tilbúið að gefa eftir. Tíminn hefur hjálpað okkur að tempra frekjuna og takast á við lífið saman. Þess vegna ætla ég að segja já uppi við altarið í sumar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »