„Þegar augu okkar mættust varð ekki aftur snúið“

Sigríður Eva Magnúsdóttir og Árni Gunnarsson á brúðkaupsdaginn sinn.
Sigríður Eva Magnúsdóttir og Árni Gunnarsson á brúðkaupsdaginn sinn.

Sigríður Eva Magnúsdóttir og Árni Gunnarsson giftu sig óvænt í fyrra. Undirbúningurinn gekk vel og fengu þau Sæmund Sigmundsson, einn þekktasta bílstjóra þjóðarinnar, til að keyra sig um á gullfallegum Ford Fairlane af árgerðinni 1957. 

Sigríður Eva Magnúsdóttir hjúkrunarfræðingur og Árni Gunnarsson heilbrigðisfulltrúi eru búsett í Borgarnesi. Þau eiga þrjú börn og tvo hunda.

Sigríður Eva og Árni giftu sig hinn 30. október í fyrra í Borgarneskirkju á Borg á Mýrum. Ástarsaga þeirra hófst 2006.

„Þegar augu okkar mættust varð ekki aftur snúið. Árni fór að tala um giftingu og barneignir á innan við tveimur vikum. Ég var að sjálfsögðu djúpt snortin að hafa verið valin úr 250 fögrum fljóðum í þessari ferð. Bónorðið kom hins vegar ekki fyrr en á nýársdag árið 2020,“ segir Sigríður Eva.

Rómantíkin lá í loftinu þennan dag

Hún segir að tilviljun ein hafi ráðið því að þau giftu sig hinn 30.10. 2020. Hún sá sá dagsetninguna 20.10. 2020 einn dag í vinnunni þegar hún var að kvitta á bólusetningarskírteini.

„Ég byrjaði að tala við vinnufélagana um að ég tryði því ekki að þessi dagsetning væri og ég ekki að fara að gifta mig! Umræðurnar héldu áfram í vinnunni í hádeginu.

Veðrið var svo fallegt og rómantíkin lá í loftinu þannig að ég hringdi í Árna eftir hádegismatinn og spurði hann hvort við ættum ekki að gifta okkur seinna um daginn. Árni hringdi í prestinn okkar, Þorbjörn Hlyn Árnason, en við þekkjum hann ágætlega.

Árni komst fljótt að því að planið okkar myndi ekki ganga upp þar sem það þyrfti að sækja um ýmis vottorð og leyfi til að allt færi löglega fram. Þetta sýnir bara hversu óundirbúin við vorum fyrir brúðkaupið en mögulega líka hversu hvatvís við getum verið.

Um leið og þeir kvöddust í símanum reið jarðskjálfti yfir af stærðinni 5,6. Eitt leiddi af öðru og þá fundum við dagsetninguna 30.10. 2020 sem okkur þótti góð dagsetning líka.

Þannig að á mánudegi tókum við ákvörðunina endanlega um að gifta okkur.

Tengdamamma, Steinunn Árnadóttir, organisti í Borgarfirði spilaði undir og sá einnig alveg um að bóka tónlistaratriði fyrir okkur og hafði samband við Evu Margréti Jónudóttur sem söng fyrir okkur og Halldór Hólm Kristjánsson spilaði undir. Þau tóku tvö lög og gerðu það algjörlega stórkostlega. Annað lagið valdi ég til Árna og hitt valdi Árni til mín. Ég valdi Ást við fyrstu sýn eftir Magnús Þór Sigmundsson og Árni valdi lagið Með þér eftir Bubba Morthens.

Móðir mín, Hrafnhildur Kristjánsdóttir, lét mig vita á miðvikudagskvöldi að hún ætlaði að drífa sig í að koma austan af fjörðum en daginn eftir brúðkaupið átti að herða sóttvarnaaðgerðir þannig að fjöldatakmarkanir yrðu 10 manns, sem var það minnsta sem hafði verið til þessa. Hún ákvað samt sem áður að koma og fylgdi dóttur sinni upp að altarinu.

Ég hafði spurt Margréti Gunnarsdóttur mágkonu mína hvort hún væri til í að vera með myndavél og taka nokkrar myndir. Hún sagðist þá þekkja stelpu sem tæki mjög skemmtilegar myndir sem endaði á því að hún sá alveg um öll samskipti við Gunnhildi Lind, sem var algjörlega stórkostleg og skemmtileg að vera í kringum. Ég hefði ekki viljað sleppa því að hafa góðan ljósmyndara. Við höfðum hugmyndir um skemmtilega staði til að taka myndir á og hún kom með sínar hugmyndir og útkoman var alveg frábær.

Eftir athöfnina fórum við á rúntinn með Sæmundi Sigmundssyni og í myndatöku á nokkrum stöðum, í dýrindisveðri. Eftir það fórum við heim til okkar þar sem fólkið okkar tók á móti okkur á tröppunum með freyðivíni og skálaði með okkur. Ég hafði bakað tvær kökur og brauðtertu sem við gæddum okkur á. Árni bauð mér svo óvænt í svítuna á Hótel B59 í lok dagsins. Þar var tekið vel á móti okkur með freyðivíni og kokteilum. Það er nauðsynlegt að mínu mati að enda daginn ekki heima.“

Var með haustlegan krans í hárinu

Sigríður var með fallegan krans í hárinu í brúðkaupinu sem Sólrún Fjóla Káradóttir vinkona hennar valdi blómin í og gerði.

„Ég sagði henni bara að ég vildi haustþema og hún kom með hann til mín að morgni brúðkaupsdagsins.“

Brúðarkjólinn fékk Sigríður Eva að láni hjá Kristínu Birgisdóttur.

„Hún er jafnframt eigandi Felds verkstæðis. Ég hafði samband við hana til að forvitnast um hvort hún ætti eitthvað yfir annan kjól sem ég var búin að fá lánaðan og ætlaði að vera í. Það var fjólublár frekar stuttur kjóll. Ég fór þá að tala um að mig hefði alltaf dreymt um að gifta mig í hvítu en ekki fundið þann rétta.

Þá kom upp úr dúrnum að hún ætti ennþá sinn brúðarkjól frá því 20 árum áður. Ég fór tveimur dögum fyrir athöfnina til hennar og fékk að máta. Dressið var ákveðið á innan við fimm mínútum. Allt smellpassaði og þurfti ekki að breyta neinu. Jóhanna Marín Björnsdóttir vinkona mín hér í Borgarnesi lánaði mér svo gömlu fermingarskóna sína, sem voru alveg dásamlegir við.“

Brúðguminn var einnig glæsilega klæddur. Hann fann glæsileg jakkaföt og brúna Lloyd-skó í Herragarðinum.

Með þekktasta bílstjóra landsins í för

Hvaðan kom bíllinn sem er á ljósmyndunum ykkar?

„Gunnar tengdafaðir minn er í Fornbílafjelagi Borgarfjarðar og Árni hafði samband við hann hvort hann vissi um góðan bíl sem við gætum verið í á brúðkaupsdaginn.

Úr varð að Sæmundur Sigmundsson, einn þekktasti bílstjóri sem þjóðin hefur alið, er góðkunningi tengdapabba, hann á þennan gullfallega Ford Fairlane árgerð 1957. Þremur dögum fyrir brúðkaupið hafði tendapabbi samband við Sæmund og þá kom í ljós að bíllinn var grafinn innst inni í geymslu og þónokkurt mál að ná honum út. Það hafðist þó og bíllinn var klár fyrir stóra daginn á réttum tíma og Sæmundur sjálfur var einkabílstjórinn okkar þennan dag. Hann mætti prúðbúinn á svæðið.“

Hvað mælið þið með að brúðhjón geri í þessu árferði?

„Þegar allt kemur til alls snýst þetta fyrst og fremst um að játast hvort öðru þannig að það er allt í lagi að hafa þetta lítið en auðvitað söknuðum við þess mikið að hafa ekki allt okkar nánasta fólk með okkur. Brúðkaupsdagurinn var bara okkar tími og því vildum við ekki bíða með að gifta okkur. Það hafði líka vafist mikið fyrir okkur nákvæmlega hvernig við ættum að útfæra brúðkaupið og hafa það í okkar anda. Þótt við söknuðum fjölskyldu okkar og vina einbeittum við okkur bara hvort að öðru þennan dag. Þegar réttur tími kemur munum við geta einbeitt okkur að því að halda veisluna.“

Sigríður og Árni eru mjög góðir vinir og vega hvort annað upp í styrkleikum sínum og veikleikum.

„Vináttan skiptir miklu máli og síðan það að geta séð sinn hlut í málunum, bakkað og sagt fyrirgefðu. Eins er mikilvægt að geta sagt hvað maður þarf. Að vera ekki of alvarlegur og hafa gaman af ferðalaginu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »