Sölvi Tryggva segist saklaus

Fjölmiðlamaðurinn Sölvi Tryggavson.
Fjölmiðlamaðurinn Sölvi Tryggavson. Ljósmynd/Aðsend

Fjölmiðlamaðurinn Sölvi Tryggvason hefur verið milli tannanna á fólki síðustu daga þar sem hann á að hafa keypt kynlífsþjónustu, gengið í skrokk á vændiskonu og verið handtekinn. Hann neitar þessu í færslu á Instagram og birtir auk þess mynd úr miðlægum gagnagrunni lögreglunnar til sönnunar. 

„Síðustu daga hafa gengið ótrúlega rætnar slúðursögur um mig í þjóðfélaginu sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Þetta gekk meira að segja svo langt að einn fjölmiðill birti frétt um slúðursöguna án þess þó að nafngreina mig. Í frétt fjölmiðilsins kom fram að fyrir um tveimur vikum hefði þjóðþekktur einstaklingur, sem samkvæmt sögunni er ég, keypt sér kynlífsþjónustu, gengið í skrokk á vændiskonunni, verið handtekinn og fluttur í varðhald. Um þetta er bara eitt að segja: málið er þvættingur frá upphafi til enda.

Ég get ekki sagt ykkur hvað þessar sögur hafa haft mikil áhrif á mig, fjölskyldu mína og vini. Ég hef verið sem lamaður síðustu daga og neitaði lengi vel að trúa að fólk tæki þátt í að dreifa slúðursögum sem þessum. Frá því um helgina hefur síminn minn ekki stoppað vegna fyrirspurna frá fjölmiðlum um hvort þessar sögur séu sannar. Þegar málið er komið á það stig verð ég að bregðast við. Niðurbrotinn og svefnlaus leitaði ég í gær til Sögu Ýrar Jónsdóttur hæstaréttarlögmanns til að athuga stöðu mína og hvernig ég ætti að bregðast við. Hún sagði mér að auðvelt væri að afsanna þetta með því að kalla inn málaskrá mína hjá lögreglu undanfarinn mánuð þar sem ljóst væri að ef lögreglan hefði haft einhver afskipti af mér, bein eða óbein, þá kæmu þau fram í málaskránni. Saga kallaði því eftir málaskránni og fengum við hana afhenta fyrir stundu og birti ég hana hér með. Eins og þarna kemur skýrt fram hefur lögreglan ekki haft nein afskipti af mér, bein eða óbein, á þeim tíma sem þessi atvik eiga að hafa átt sér stað. Þetta verður ekki skýrara. Það er ekkert til í þessum slúðursögum.

Ég óska engum að lenda í þeirri hakkavél sem slúðursögur eru. Þær eru mannskemmandi, niðurbrjótandi og hafa valdið mér og mínum meira hugarangri en ég hefði getað ímyndað mér. Ég verð alltaf jafn undrandi á að fólk sé til í að tala illa um náungann; fólk af holdi og blóði með tilfinningar og fjölskyldu. Hættum þessu!

Raunar líður mér svo illa að ég treysti mér ekki til að tjá mig frekar um málið og bið ég fjölmiðla um að virða þá ósk mína,“ skrifar Sölvi. 

mbl.is