„Þú ert ljós í mínu lífi, þú lýsir upp daginn“

Katrín Tanja Davíðsdóttir.
Katrín Tanja Davíðsdóttir. Ljósmynd/Instagram

Árlegri fjáröflun Menntunarsjóðs Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur verður hleypt af stokkunum við athöfn að Bessastöðum 5. maí klukkan ellefu, þegar Eliza Reid, forsetafrú og velunnari sjóðsins, tekur við „Mæðrablóminu“ sem líkt og undanfarin ár er í formi leyniskilaboðakertis.

Allur ágóði af sölu Mæðrablómsins rennur óskertur til Menntunarsjóðsins sem styrkir tekjulágar konur til náms í því markmiði að auka möguleika þeirra á að finna störf sem geta tryggt þeim og fjölskyldum þeirra öruggari framtíð. Á síðasta ári veitti sjóðurinn 73 konum styrki til náms en frá upphafi stofnunar hans árið 2012 hefur sjóðurinn veitt rúmlega 300 styrki.

Eliza Reid og Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, hafa verið sérstakir velunnarar sjóðsins undanfarin ár og tekið dyggan þátt í að vekja athygli á honum og því hlutverki hans að styrkja tekjulágar konur til mennta. Líkt og áður bætist nýr velunnari í hópinn í ár, en það er að þessu sinni Katrín Tanja Davíðsdóttir, tvöfaldur heimsmeistari í CrossFit.

Velunnarar sjóðsins velja hver sín skilaboð í kertin tileinkuð konum og mæðrum og hefur Katrín Tanja valið: „Þú ert ljós í mínu lífi, þú lýsir upp daginn.“

Mæðrablómið er Leyniskilaboðakerti sem Þórunn Árnadóttir hannar. Katrín Tanja valdi …
Mæðrablómið er Leyniskilaboðakerti sem Þórunn Árnadóttir hannar. Katrín Tanja valdi textann: „Þú ert ljós í mínu lífi, þú lýsir upp daginn.“

Uppspretta textans er ljóð sem amma Katrínar Tönju samdi og gaf henni rétt áður en hún dó árið 2016. Ljóðið segir Katrín Tanja að hafi verið sér leiðarljós og áminning um þann einstaka eiginleika ömmu sinnar að lýsa upp tilveruna og að „geta látið öllum líða eins og þeir séu mikilvægir.“

Katrín Tanja segist heppin hversu margar konur hafi verið sér ljós í gegnum lífið.

„Nú langar mig að gefa mömmu minni og systur, sem nú er mamma, þetta kerti á mæðradaginn því þær eru þetta í mínu lífi, þær lýsa upp minn dag,“ segir hún. 

Katrín Tanja segir það von sína að allir hafi slíkar konur í sínu lífi og geti gefið þeim kertið í tilefni dagsins og minnt þær á, á hverjum einasta degi, að þær eru ljós í þeirra lífi. 

Kertin eru í postulínsskálum og þegar kveikt er á þeim og vaxið bráðnar koma smátt og smátt í ljós skilaboð á botni skálarinnar. Þórunn Árnadóttir er hönnuður kertisins og gefur hún vinnu sína nú fjórða árið í röð. Alls geta kaupendur valið um fimm mismunandi texta. Kertin eru kjörin tækifærisgjöf, sérstaklega á mæðradaginn, og bjóða upp á óvenjulega og skemmtilega upplifun.

Kertin verða til sölu í verslunum Pennans Eymundssonar á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri, í Epal í Skeifunni og Kringlunni, Snúrunni, Ís-blómi, Netto.is og hjá Heimkaup.is, í tvær vikur, frá 1. maí til 15. maí.

Nánari upplýsingar má finna hér.

mbl.is