Þjóðþekktir menn komist upp með að beita ofbeldi

Thelma Dögg Guðmundsen sagði sína sögu á Instagram í vikunni.
Thelma Dögg Guðmundsen sagði sína sögu á Instagram í vikunni.

Áhrifavaldurinn Thelma Dögg Guðmundsen segir það blákaldan sannleika að þjóðþekktir einstaklingar hafi komist upp með að beita konur kynferðisofbeldi án afleiðinga. Thelma opnaði sig um tvö atvik á Instagram í vikunni þar sem hún segir frá því að hún hafi verið beitt kynferðisofbeldi af þjóðþekktum mönnum.

Annars vegar voru það þjóðþekktur íþróttafréttamaður á Rúv, sem Thelma segir að hafi nauðgað sér, og hins vegar eigandi fréttamiðils sem Thelma segir að hafi áreitt sig kynferðislega í starfi.

„Ég er lengi búin að sitja á þessu og ég var ekki tilbúin fyrr en núna til að stíga fram og segja frá ofbeldinu. Eftir að hafa margsinnis heyrt sögusagnir af þjóðþekktum Íslendingum í gegnum tíðina sem komast upp með slíkt ákvað ég að stíga fram með mína sögu, enda orðin mun sterkari núna en þá. Það er búið að vera mjög lengi samþykkt í samfélaginu að menn sem eru þjóðþekktir komist upp með svona lagað. Einfaldlega af því þeir eru þekktir, hvað þeir starfa við og vegna þeirra valda sem þeir telja sig búa yfir, þar af leiðandi eru mál þögguð niður. Eins og ég kom inn á í umræðunni hjá mér á Instagram þá eru þessir einstaklingar oftar en ekki samþykktir af samfélaginu og svo virðist sem fólk trúi ekki að þeir geti gert svona lagað,“ segir Thelma í samtali við Smartland.

Thelma segir að fyrra atvikið hafi átt sér stað árið 2012 og það seinna 2014. Thelma lagði fram kæru í hvorugu málinu.

„Ég einfaldlega þorði það ekki. Að fara á móti mönnum sem eru vel liðnir í samfélaginu er miklu meira en að segja það. Það eitt og sér að verða fyrir ofbeldi er ofboðslega erfitt, að lifa það af og síðan læra að lifa með því tekur rosalega á og tekur langan tíma. Það að ætla að kæra viðkomandi er síðan allt annar handleggur og vita það allir sem hafa farið í gegnum það ferli hversu erfitt það er.

Ég held að mjög margir sem hafa ekki upplifað slíkt átti sig ekki á hvað felst í því og hvað það getur verið langt og strembið. Ég tala nú ekki um réttarkerfið og hvaða séns brotaþoli hefur í þeim málum, enda margir sem leggja ekki í það því þeir vita að kerfið mun bregðast þeim. Hvað þá þegar viðkomandi sem er ákærður er þjóðþekktur einstaklingur, með góð sambönd og telur þér trú um að þú munir aldrei geta gert neitt í þessu, eins og ég lenti í. Hann sagði mér að ég þyrfti að stunda kynlíf með honum. Ef ég gerði það ekki myndi ég ekki halda vinnunni, ég yrði aldrei að neinu ef ég gerði ekki eins og hann segði og ég gæti ekki starfað við það sem ég vildi ef ég færi ekki eftir hans óskum, hann myndi sjá til þess. Þetta er ekkert annað en bein kúgun,“ segir Thelma.

Thelma Dögg Guðmundsen.
Thelma Dögg Guðmundsen.

Maðurinn sem Thelma segir að hafi beitt sig kynferðislegri áreitni var eigandi vefmiðilsins sem hún starfaði á, var yfirmaður hennar, er þjóðþekktur og hefur verið í stjórnmálum.

„Ég var svo ofboðslega veikburða eftir að hafa lent í ofbeldi og eftir þessar hótanir. Að stíga fram og segja frá er erfitt og hvað þá ef það er brotið á þér af þjóðþekktum einstaklingi. Fólk einfaldlega trúir ekki svona löguðu upp á viðkomandi þrátt fyrir að þekkja ekki manneskjuna. Við höfum mörgum sinnum séð þetta, að þjóðþekktir menn hafa verið sakaðir um ofbeldi og fólk er ekki lengi að taka upp hanskann fyrir þá, án þess að vera með einhverja sýn inn í málið,“ segir Thelma.

„Annað í þessu sem virðist gleymast þegar maður lendir í ofbeldi frá slíkum aðilum. Það er að það er rosalegur „trigger“ að sjá viðkomandi reglulega, til dæmis kemur einn af þeim sem brutu á mér heim í stofuna mína og flytur íþróttafréttir,“ segir Thelma. Hann lýsti einnig leikjum þegar landsliðið í fótbolta spilaði á stórmótum úti.

„Á meðan allir horfðu á leikina treysti ég mér ekki að horfa á þá og þurfa að hlusta á þann sem nauðgaði mér lýsa leikjunum í 90 mínútur. Að heyra röddina hans heima hjá sér og geta ekki stjórnað því hvort hann sé inni á heimilinu manns af því hann kemur fram í sjónvarpi er ömurlegt, þótt það sé í stafrænu formi,“ segir Thelma.

Thelma hefur ekki nafngreint mennina sem beittu hana ofbeldi en hún segist vera hætt að fara í felur með hvaða menn þetta séu. Fólk geti lesið á milli línanna.

„Ég hef talað opinskátt um að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og komið fram í verkefnum hjá Stígamótum með það, en ekki farið ítarlega út í að þeir sem brutu á mér séu þjóðþekktir einstaklingar. Ég hef heldur ekki farið í þau smáatriði sem ég ákvað að opna á núna en ég fann það með sjálfri mér að það var orðið tímabært. Ég vildi með því opna á umræðuna, auk þess sem það er ekki mitt að verja svona menn. Ég er löngu komin með nóg af þessari þöggun gagnvart samfélagslega samþykktum einstaklingum sem beita ofbeldi og komast upp með það.“

Thelma leitaði sér hjálpar á Stígamótum árið 2015 þegar hún var komin í andlegt og líkamlegt þrot. Hún segir samtökin hafa hjálpað sér mikið við að takast á við afleiðingar ofbeldisins og að hún gæti ekki sagt sína sögu ef hún hefði ekki leitað sér hjálpar hjá Stígamótum. „Það að ég leitaði mér aðstoðar á Stígamótum varð til þess að ég gat unnið úr ofbeldinu sem ég varð fyrir og náði þar af leiðandi að rjúfa mína eigin þöggun.“

Þolendur kynferðisofbeldis og aðstandendur þeirra geta leitað sér hjálpar hjá Stígamótum. Hægt er að hafa samband í síma 562-6868 eða senda tölvupóst á stigamot@stigamot.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina