Edda Falak gagnrýnir Sölva

Edda Falak gagnrýnir Sölva Tryggvason harðlega.
Edda Falak gagnrýnir Sölva Tryggvason harðlega. Samsett mynd

Íþróttakonan og hlaðvarpsstjórnandinn Edda Falak gagnrýnir fjölmiðlamanninn Sölva Tryggvason harðlega í skrifum sínum á Twitter. Hún segir Sölva hafa flýtt sér að birta viðtalið við sjálfan sig til að vera á undan þolandanum að segja sögu sína. 

Tvær konur tilkynntu Sölva til lögreglu í gær vegna meintra ofbeldisbrota. Degi áður birti Sölvi viðtal við sjálfan sig með fulltingi lögmanns síns, Sögu Ýrar Jónsdóttur, þar sem hann neitaði sögusögnum um meint ofbeldi. 

Edda hefur tekið þátt í þjóðfélagsumræðunni um ofbeldi gegn konum undanfarna mánuði. Hún heldur úti hlaðvarpsþáttunum Eigin konur ásamt Fjólu Sigurðardóttur en þar hafa þær rætt við konur sem hafa verið beittar ofbeldi. Í síðustu viku ræddu þær við Steinunni Gyðu- og Guðjónsdóttur, talskonu Stígamóta. 

„Ég hef bara aldrei orðið vitni að jafn rætinni herferð gegn þolanda. Það er mikil áhersla í viðtalinu á að hann sé góður strákur og þess vegna geri hann ekkert rangt. Hann talar um að hann sé ekki reiður við konuna og segir að hún sé ósátt við sambandsslitin. Líklega til að undirbúa að geta lýst henni seinna sem geðveikri. Þarna er hann að spila sig sem svo góðan að hann sjái það góða í öllum. Samt gerir hann þetta öfgafulla viðtal við sjálfan sig og ræðst á þolandann af fullum þunga,“ skrifar Edda á Twitter. 

„Hann flýtir sér að birta þetta viðtal til að vera á undan frásögn þolandans og fá fólk á sitt band sem fyrst,“ skrifar Edda.

Hún bendir á að á einum stað í viðtalinu komi fram mjög mikil reiði gagnvart vefnum Mannlífi fyrir að hafa ekki tekið fréttina út, en annars staðar segist hann ekki vera reiður út í neinn. Edda segir þetta vera taktík, að spila sig svo góðan að hann reiðist engum, svo gleymi hann sér.

Mikil viðbrögð voru við viðtali Sölva á þriðjudag og hafa margir fylkt sér að baki honum. Edda bendir á að ef hann væri kona hefðu viðbrögðin ekki verið þau sömu.

mbl.is