„Þeim fannst kossinn í kirkjunni heldur langur“

Arnar Haraldsson og Anna Lilja Sigurðardóttir giftu sig þann 26. …
Arnar Haraldsson og Anna Lilja Sigurðardóttir giftu sig þann 26. september í fyrra. Ljósmynd/Blik Studio

Anna Lilja Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur og Arnar Haraldsson, sérfræðingur hjá HLH Ráðgjöf, voru búin að skipuleggja brúðkaup í ágúst í fyrra en þurftu svo að fresta veislunni vegna kórónuveirunnar. Þeim tókst þó að lokum að halda lítið brúðkaup.  

Anna Lilja og Arnar kynntust fyrst árið 2016 og hafa verið saman frá fyrsta stefnumóti. 

„Það var í maí sem við hittumst fyrst á Tinder. Hvort það hafi verið ást við fyrstu sín er ég ekki viss um en við höfum verið saman frá því við kynntumst fyrst og ástin hefur vaxið okkar á milli,“ segir Anna Lilja.

Arnar segir að upphaflega hafi planið verið að þau myndu gifta sig þann 15. ágúst í fyrra.

„Það var allt skipulagt og tilbúið. Þá skall á seinni bylgja kórónuveirunnar nokkrum dögum áður. Við frestuðum því brúðkaupinu og giftum okkur þann 26. september í fyrra og virtum allar takmarkanir þess tíma.

Við vildum ekki fresta þessu lengur en ákváðum að hafa litla veislu með okkar nánasta fólki og bíða með stærri veisluna,“ segir Arnar.

Það var rok og rigning á brúðkaupsdaginn en það kom ekki að sök.

„Það truflaði okkur ekkert en það er talað um að rigning sé fyrir frjósemi. Sem er kannski ekki það besta því við eigum nú þegar þrjú börn. Hjörtur Magni sóknarprestur gifti okkur í Fríkirkjunni í Reykjavík og gerði athöfnina persónulega og skemmtilega þar sem börnin okkar gátu verið þátttakendur í athöfninni.

Eftir athöfnina héldum við í myndatöku með ljósmyndurunum Kim Klöru og Daníel hjá Blik studio. Þau voru alveg frábær bæði í athöfninni, í ljósmyndartökunni og í veislunni,“ segja þau.

Anna Lilja og Arnar kynntust fyrst árið 2016 og hafa …
Anna Lilja og Arnar kynntust fyrst árið 2016 og hafa verið saman frá fyrsta stefnumóti. Ljósmynd/Blik Studio

Ljósmyndirnar skipta miklu máli

Anna Lilja mælir með því fyrir alla að hafa tvo ljósmyndara til að ná réttu augnablikunum.

„Eftir myndatökuna héldum við svo í veisluna sem við héldum í Vox Club-salnum á Hilton Reykjavík Nordica. Við erum svo enn að bíða eftir tækifærinu til að halda stærri veislu með öllu okkar fólki en að okkar mati finnst okkur bara skemmtilegt að eiga eitthvað eftir af þessari gleði. Kannski verður veislan á eins árs brúðkaupsafmæli okkar,“ segir Arnar.

Anna Lilja var í kjól frá versluninni Loforð og Arnar var í fallegum jakkafötum frá Suitup.

Þau segja kórónuveiruna hafa komið aftan að þeim enda hafi ekki örlað á veirunni þegar þau byrjuðu að undirbúa stóra daginn.

„Kórónuveiran kom óvænt upp og höfðum við ekki tekið hana með í reikninginn en það sem við lærðum af þessu í fyrra var að hafa plönin meira opin í tengslum við brúðkaupið.

Eins mælum við með að fólk sé undirbúið fyrir að fresta eða breyta. Okkur fannst erfiðast að breyta öllu sem viðkom athöfninni. Þá þarf kirkjan að vera laus, presturinn, tónlistin, ljósmyndarar, hárgreiðsla, förðun og fleira. Það var líka búið að kaupa föt á börnin sem þau auðvitað vaxa upp úr svo það voru ótal lítil atriði sem þurfi að hugsa út í. Þess vegna ákváðum við að fresta því ekki oftar heldur halda því plani og fresta frekar veislunni. Það var líka auðveldara að halda fjarlægð milli gesta í kirkju heldur en í veislusal.“

Börnin voru ánægð með brúðkaupið en fannst brúðarkossinn helst til …
Börnin voru ánægð með brúðkaupið en fannst brúðarkossinn helst til langur. Ljósmynd/Blik Studio

Börnin tóku þátt í að skipuleggja brúðkaupið

Hvað kom á óvart varðandi brúðkaupið?

„Það kom sennilega mest á óvart hvað það er gaman að eiga stóru veisluna eftir og líka hvað þetta var allt saman frábær upplifun þrátt fyrir erfiðan undirbúning. Eftir á að hyggja hefðum við ekki viljað hafa þetta neitt öðruvísi.“

Hverju getið þið mælt með fyrir brúðhjón sem eru að gifta sig á þessu ári?

„Við mælum með ljósmyndurunum Kim Klöru og Daníel hjá Blik Studio. Þau voru með rosalega persónulega þjónustu og lögðu mikið á sig til að átta sig á hvernig myndir við vildum og hvaða augnablik og aðilar í kirkjunni skiptu máli að næðust á mynd. Við mælum líka með að eiga góða stund saman daginn eftir. Við gistum á hótelinu þar sem veislan var og fórum svo daginn eftir í spa-ið og fengum okkur hádegismat áður en við fórum svo heim.“

Þau segja fjölskylduna og vini skipta miklu máli á brúðkaupsdaginn.

„Foreldrar eru stór hluti af þessu og í okkar tilfelli voru börnin okkar líka mikill hluti af skipulagningunni. Tvö eldri börnin höfðu miklar skoðanir á mörgu sem viðkom þessum degi. Dóttir okkar Sara Björk var hringaberi og Bæringur sonur okkar leiddi mömmu sína inn kirkjugólfið. Þau völdu fötin sín sjálf og sáu til þess að allir væru með hugann á réttum stað. Þeim fannst kossinn í kirkjunni heldur langur að þeirra mati og við höfum fengið að heyra það nokkrum sinnum. Vinir okkar gerðu daginn líka ógleymanlegan með óvæntri uppákomu um kvöldið sem mun aldrei gleymast!“

Anna Lilja og Arnar ásamt börnum sínum þremur.
Anna Lilja og Arnar ásamt börnum sínum þremur. Ljósmynd/Blik Studio

Brúðhjónin voru ekki með gjafalista heldur óskuðu eftir gjöfum í formi peninga.

„Þar sem við vorum að safna okkur fyrir málverki. Gjafir urðu mikið aukaatriði þennan dag þar sem við áttum líka ekki von á gjöfum fyrr en veislan yrði haldin. Það var mismunandi hvort gestir vildu færa okkur gjöf á brúðkaupsdaginn eða þegar veislan verður haldin.“

Hvað gerðuð þið varðandi brúðkaupsferðina?

„Við gleymdum alveg að hugsa út í hana. Okkur fannst nóg að þurfa að fresta búðkaupi og veisluhöldum svo brúðkaupsferð færi ekki líka að vera erfiður undirbúningur. Hún bíður því betri kórónuveirulausra tíma.“

Dagurinn heppnaðist einstaklega vel og fengu þau Kim Klöru og …
Dagurinn heppnaðist einstaklega vel og fengu þau Kim Klöru og Daníel hjá Blik Studio að taka ljósmyndir á brúðkaupsdaginn. Ljósmynd/Blik Studio
Arnar og Anna Lilja eru góðir vinir sem náðu að …
Arnar og Anna Lilja eru góðir vinir sem náðu að gera það besta sem þau gátu á tímum kórónuveirunnar. Þau ætla að halda stóra veislu fyrir vini og vandamenn þegar rétti tíminn kemur. Ljósmynd/Blik Studio
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »