Missti mömmu sína aðeins tólf ára gömul

Embla Sigurgeirsdóttir listamaður var aðeins tólf ára barn þegar móðir hennar og báðar ömmur féllu frá með nokkurra mánaða millibili. Síðar eignaðist hún verulega fjölfatlaða dóttur með öllum þeim áskorunum sem því fylgja og þegar sonur hennar steig fram sem hinsegin tóku við flóknir erfiðleikar sem hún átti aldrei von á. Þrátt fyrir alla stormana hefur þessari fallegu og öflugu einstæðu mömmu tekist að hasla sér völl meðal vinsælustu hönnuða landsins í gegnum listsköpunina sem hún segir algerlega hafa bjargað lífi sínu. 

Embla fæddist árið 1978 í Uppsala í Svíþjóð og var yngst fjögurra systkina en faðir hennar, Sigurgeir Steingrímsson, starfaði þar sem lektor í íslensku við Uppsala-háskóla og móðir hennar, Helga Gunnarsdóttir, var í framhaldsnámi í tónmennt. Þegar Embla var þriggja ára flutti fjölskyldan aftur til Íslands, nánar tiltekið í fallegt blátt bárujárnshús við Brekkustíg í gamla Vesturbænum í Reykjavík en þetta fallega ættaróðal hefur verið í eigu fjölskyldu hennar í fjórar kynslóðir. Nú býr hún í þessu sama húsi ásamt börnum sínum Kolbrúnu og Þór, kátum hundi og einum önugum ketti.

Æska Emblu í húsinu á Brekkustíg var góð og henni leið vel í Vesturbæjarskóla þar sem krakkarnir voru verndaðir og ljúfur andi ríkti í skólanum. Öðru máli gilti þó um Hagaskóla þar sem ríkti vargöld upp úr 1990. Hana óaði við því að skipta um skóla enda hafði hún upplifað sig mjög verndaða og örugga í umhverfi sem einkenndist af sveigjanlegu og nýstárlegu viðhorfi til náms.

„Til dæmis þá trúðu kennararnir í Vesturbæjarskóla ekkert á próf og við nemendurnir fengum bara að velja okkur verkefni eftir því hvernig lá á okkur eða hverju við höfðum áhuga á. „Viltu læra stærðfræði eða prjóna í dag?“ var spurt. Svo bara gerði maður það sem mann langaði í það og það skiptið,“ segir Embla sem var ekki bara stressuð yfir því að mæta gangsterum á göngum Hagaskóla heldur var hún líka yfirgengilega kvíðin yfir því að þurfa að taka sitt fyrsta próf á ævinni.

„Ég held að ég hafi aldrei svitnað jafn mikið!“ segir hún og hlær að minningunni. Hún segir að átökin milli nemenda og gengja á göngum Hagaskóla hafi verið það svæsin að skólanum hafi verið skipt upp í hólf sem aðskildu árgangana.

„Þetta var gert til að krakkarnir í áttunda bekk þyrftu ekki að hitta brjálæðingana í níunda og tíunda bekk og það var alltaf öryggisvörður á svæðinu,“ segir Embla og skellir upp úr við að rifja ástandið upp.

Vorið áður en hún byrjaði í Hagaskóla, árið 1991, lést móðir hennar úr krabbameini aðeins 48 ára. Þá var Embla 12 ára. Á sama tíu mánaða tímabili ákvað svo almættið að taka báðar ömmur hennar líka en þær voru mjög stór hluti af lífi fjölskyldunnar og gegndu veigamiklum hlutverkum innan hennar.

„Móðuramma mín fer fyrir jól 1990, mamma í maí 1991 og föðuramma haustið 1991. Pabbi stóð þá einn eftir með fjögur börn, búinn að missa allar konurnar í lífi sínu. Eiginkonu, mömmu og tengdamömmu. Mamma var mjög ákveðin og kraftmikil. Hún hélt heimilinu gangandi ásamt ömmum mínum sem voru báðar ekkjur. Þær þrjár voru konurnar sem héldu utan um allt sem tilheyrði heimili og fjölskyldu. Þær létu hlutina ganga upp og þegar þær voru farnar þá stóð hann frammi fyrir því að kunna ekkert af því sem þær höfðu áður sinnt. Hann hafði einfaldlega alltaf þurft mjög mikið á þessum konum að halda og skyndilega eru þær allar farnar og hann stendur eftir ráðalaus með sorgina kraumandi undir yfirborðinu. Það var nefnilega aldrei talað um neitt og ekki tekið á hlutunum með neinum hætti. Svoleiðis var þetta bara hér áður. Fólk talaði bara ekkert um það hvernig því leið.“

Uppeldið heyrði sögunni til

Embla segir að eftir því sem árin hafa liðið hafi hún náð að sýna pabba sínum meiri og meiri skilning en staðan var önnur þegar hún var yngri. „Ég var mjög reið út í hann þegar ég var unglingur, og það er engin lygi að hann gerði ótal mistök, en eftir því sem ég eldist, og tala nú ekki um eftir að ég varð sjálf foreldri, þá skil ég hann mikið betur – án þess þó að geta algerlega sett mig í hans spor.“ Hið innra rótleysi sem tók við eftir að mamma Emblu og ömmur hennar féllu frá hafði slæm áhrif á Emblu. Þau systkin höfðu oft fengið að heyra það að uppeldi þeirra væri strangt og bæði foreldrar og ömmur sáu til þess að allir héldu sig innan girðingar og innan marka.

„En þegar mamma deyr, og ömmur mínar, þá heyrði eiginlega allt uppeldi sögunni til. Skiljanlega hafði elsku pabbi minn bara enga orku til að ala mig upp og setja mér mörk en ég sá það ekki þá. Hann var eflaust í svo miklu áfalli að hann gat það ekki og kunni það eflaust ekki heldur,“ segir hún og bætir við að sér hafi þótt þetta frjálslega líf mjög þægilegt eins og gefur að skilja hjá unglingi.

„Ég gat talað hann í allt, fengið hann til að kaupa hitt og þetta fyrir mig og skutla mér þangað sem ég þurfti að fara. Hann lúffaði alltaf af því hann vildi ekki særa mig og halda öllu góðu,“ segir hún lágt og tár læðast fram á hvarmana. „Maður er alltaf að sjá æsku sína og fortíð í nýju og nýju ljósi,“ segir hún. „Alltaf að upplifa nýja sýn á hluti og fólk sem maður var búinn að mynda sér einhverja skoðun á, góða eða slæma. Til dæmis myndar maður sér skoðun á foreldrum, systkinum og því hvaða ákvarðanir voru teknar og hvernig hlutirnir voru sagðir og gerðir en svo eldist maður og lífið tekur við. Maður eignast börn, lendir í áföllum, vinnur í þeim og þroskast og allt þetta og þá gerist það kannski af sjálfu sér að maður fer að meta alla hluti upp á nýtt. Vissulega getum við lagt okkur fram um að reyna að setja okkur í spor annarra þegar yfirþyrmandi atburðir eiga sér stað, en ég vil meina að það sé ekki hægt að skilja annað fólk og viðbrögð þess til fulls nema maður hafi sjálfur verið í sömu, eða mjög svipuðum sporum.“

Svo kom ný stjúpa inn á heimilið

Fjórum árum eftir að móðir Emblu lést, þegar Embla er að byrja í Kvennó, kynntist pabbi hennar Ragnheiði Jónsdóttur presti og fann ástina á ný. Til að byrja með náðu Embla og stjúpa hennar ekki vel saman en í dag eru þær miklar og nánar vinkonur. Fyrst um sinn gekk Emblu ágætlega í náminu. Hún var á fullu í félagslífinu og öllu sem tilheyrir þessum skemmtilega tíma, en strax á öðru ári fór að halla undan fæti. Embla segist ekki alveg átta sig á því hvað varð til þess að allt umturnaðist en mögulega hafi þetta verið sorgin sem fann sér leið til að brjótast upp á yfirborðið.

„Ég fór einhvern veginn alveg út af sporinu þegar pabbi fór að vera með stjúpu minni. Hún flutti líka heim til okkar eftir stutt kynni þeirra pabba og ég var aldrei spurð hvernig mér litist á það. Við systkini mín vissum satt best að segja ekkert hver þessi manneskja var. Hún var bara allt í einu mætt og skyndilega snerist ekki allt í kringum mig lengur. Mér fannst þessi tími mjög sérstakur því mér fannst ég ekki þekkja þessa konu en samt bjó hún á heimili mínu. Mér fannst ég ekki vita neitt um hana. Vissi bara að hún hét Ragnheiður. Þegar ég lít um öxl þá hugsa ég stundum hvernig pabba hafi dottið í hug að fá bara einhverja konu inn á heimilið eftir örstutt kynni en ég skildi hann mikið betur eftir á. Pabbi minn átti bara alltaf erfitt með að takast á við erfiðar tilfinningar og leysa úr þeim. Hann sökkti sér í vinnu og verkefni og faldi sig einhvern veginn þannig. Hann flutti til dæmis með mig til Cambridge í Englandi ári eftir að mamma dó og hin systkinin urðu eftir á Íslandi, en það hefði eflaust verið betra fyrir okkur að vera öll saman til að takast á við sorgina og missinn,“ segir hún hugsi um leið og hún hellir svörtu tei úr bláum tekatli í fallegan keramíkbolla úr sinni eigin smiðju.

„Í minningunni finnst mér eins og ég hafi oft verið ein á þessum árum. Pabbi var oft erlendis vegna vinnunnar og unglingurinn ég lék bara lausum hala heima. Ég hélt mjög oft partí og aldrei þurfti ég að taka afleiðingum af neinu. Það skipti ekki máli hvað ég gerði.“

Bar sig saman við systkini sín og leið eins og aumingja

Líf Emblu varð erfiðara og erfiðara með tímanum. Hún rásaði hindrunarlaust og reyndi að halda áfram uppteknum hætti eftir að Ragnheiður flutti inn á heimilið en þar mætti hún skiljanlega mótstöðu.

„Þegar ég varð aðeins eldri helltist yfir mig samviskubit yfir því hvernig ég hafði hagað mér á þessum árum. Ég áttaði mig á því að ég hafði bókstaflega engan skilning á því hvaða tilfinningar pabbi var að fara í gegnum og ég sá líka að ég hafði svo sannarlega ekki gert líf hans neitt auðveldara. Það situr enn í mér og tekur mig sárt. Pabbi minn og stjúpa hafa verið mér stoð og stytta í lífinu ásamt elstu systur minni sem kom mér nánast í móðurstað og ég sé ekki að ég hefði komist í gegnum lífið án þeirra,“ segir hún einlæglega. Eftir að Embla flosnaði upp úr náminu fór hún að vinna hina og þessa vinnu. Hún segir að samviskubitið yfir því að hafa ekki staðið sig í skóla hafi stöðugt nagað hana að innan. Henni fannst hún hvorki standa undir eigin væntingum né fjölskyldunnar og bar sig um leið saman við foreldra sína og systkini sem öll eru hámenntuð.

„En svo dreif ég mig í förðunarnám og það gekk alveg rosalega vel. Ég var fljótlega byrjuð að kenna og ég tók að mér allskonar verkefni sem gáfu vel af sér. Loksins fann ég að ég gat verið virkilega góð í einhverju en mér fannst þetta starf aldrei nógu gott eða fínt. Mér fannst ekki nógu gott að vera „bara“ förðunarfræðingur og fékk algera þráhyggju fyrir því að klára stúdentsprófið svo ég gæti komið mér í meira nám. Mér fannst allir klárir nema ég og systkini mín setti ég í guðatölu. Mér leið eins og ég væri bara lítill og vitlaus kjáni og mér leið eins og fjölskyldu minni þætti það líka, þrátt fyrir að ég stæði mig mjög vel í því sem ég var að gera. Þetta var vond tilfinning sem erfitt var að losna við.“

Þráhyggjan yfir því að vera ekki með stúdentspróf

Skömmin yfir því að skorta almennilega menntun og þráhyggjan fyrir stúdentsprófinu urðu til þess að Embla skráði sig í Öldungadeildina í MH til að safna einingum í stúdentsprófið. Það var árið 2003 og hún ólétt að eldra barninu en barnsföður sínum hafði hún kynnst í partíi í næsta húsi þegar hún var sautján ára og það samband stóð í fjórtán ár.

„Svo kemur barnið í heiminn og ég skrái mig á hönnunarbraut í Iðnskólanum í Hafnarfirði og þar kviknaði loksins á mér! Ég fann mig rosalega vel í náminu og fékk mikinn áhuga á því sem ég var að gera. Samt var eina markmiðið bara að kaupa stúdentshúfu og taka mynd af mér með hana á höfðinu til að sanna fyrir öllum að ég væri að standa mig í lífinu. Það komst bara ekkert annað að,“ segir hún og hristir kollinn.

Hér er Embla með börnunum sínum tveimur.
Hér er Embla með börnunum sínum tveimur.

Lét sannfærast af ljósmóður um að allt væri í lagi

Embla fæddi heilbrigt barn og átti stutt í að smella af sér mynd með stúdentshúfuna á kollinum þegar hún varð ólétt í annað sinn en eftir tuttugu vikur fór að bera á frávikum í fóstrinu.

„Ég á aldrei eftir að gleyma síðustu sónarskoðuninni sem ég fór í áður en barnið fæddist. Ljósmóðirin sannfærði mig um að það væru alltaf að mælast einhver smá frávik í fóstrum en að í fæstum tilfellum væru þau alvarleg. Kannski að börn fæddust með stærri eyru eða eitthvað en yfirleitt væru þessi frávik ekkert sem skipti máli. Hún reyndi svo innilega að sannfæra mig um að þetta yrði ekkert mál svo ég trúði henni en nokkrum dögum síðar fæddi ég mjög fjölfatlað barn og sjokkið var gríðarlegt.“

Kolbrún, sem er fjórtán ára nemandi í Klettaskóla, glímir við sjaldgæfa fötlun sem stafar af Saethre Chotzen-heilkenninu. Henni fylgja margskonar erfiðleikar sem hafa stundum kallað á flóknar skurðaðgerðir og fleira.

„Þegar hún var bara níu mánaða var höfuðkúpan á henni klippt upp til að koma mætti í veg fyrir samgróninga. Hún fæddist með klumbufót og mestan part ævinnar hefur hún verið í spengingarferli vegna baksins,“ útskýrir Embla og bætir við að það sé einungis brot af því sem barnið hefur þurft að ganga í gegnum.

„Andlegur þroski hennar er kannski á við þriggja, fjögurra ára stelpu en hún hefur dásamlega skapgerð. Ég á fatlað barn en ég á rosalega hamingjusamt fatlað barn. Henni líður ekki illa þar sem hún er bókstaflega alltaf í góðu skapi og elskar alla sem hún hittir. Svo finnst henni hún sjálf alveg langflottasta pían í bænum, skortir ekkert á sjálfsöryggið og knúsar alla. Hún skammast sín ekki fyrir nokkurn skapaðan hlut og er bara alveg yndisleg,“ segir Embla og bætir því við að Kolbrún hafi líka kennt henni, og aukið með henni, eiginleika á borð við þolinmæði og samkennd með öðru fólki. „Hún tekur samt á. Hún tekur á alla daga. Þegar þú átt fatlað barn þá ferðu inn í annan heim þar sem meirihluti fólks skilur þig ekki. Hverjar hindranirnar eru og hvað daglegt líf og áhyggjur ganga út á,“ segir Embla og tekur dæmi um kunningjakonu sína sem missti fjölfatlað barn. „Hún talaði um hversu fáir virtust skilja hana þegar hún ákvað að halda upp á andlát dóttur sinnar með eins fallegum hætti og henni var unnt því á sama tíma og fráfall barnsins olli henni sorg, þá upplifði hún einnig mikið frelsi og létti. Fólk skildi ekki af hverju hún var ekki harmi slegin á leiðinni að stökkva út í sjó en það er ekki hægt að smána fólk eða dæma það fyrir hluti sem maður hefur bara ekki hundsvit á. Það gengur bara ekki upp. Eitt af því sem lífið hefur kennt mér er að maður verður að taka öllum nákvæmlega eins og þeir eru. Maður veit ekkert hvaðan fólk er að koma, hvert það er að fara, hvað það hefur upplifað eða hvað það hefur gengið í gegnum. Það eiga allir sína sögu og það er rangt að dæma.“

Embla ásamt föður sínum.
Embla ásamt föður sínum.

„Svo ég stóð bara þarna með þriggja ára fatlað barn, annað sex ára og fimmtíu þúsund krónur í vasanum.“

Eftir að Kolbrún kom í heiminn árið 2007 sá Embla ekkert annað í stöðunni en að vera heimavinnandi með börnin. „Þetta stöðvaði mig í flestu sem ég var byrjuð á en ég náði samt að klára bévítans stúdentinn og má alveg eiga það, en ég hefði samt aldrei nokkurn tíma getað það án pabba. Hann var rosalega góður að hjálpa mér með Kolbrúnu og námið og ég verð ævinlega þakklát honum fyrir það. Hann var og er mín stoð og stytta.“

Embla hafði alltaf hugsað sér að halda áfram í námi að stúdentsprófi loknu en þar sem Kolbrún þarf aðstoð við allt sem tengist daglegu lífi varð lítið úr því.

„Það tóku við endalausar skoðanir, læknatímar, endurhæfing, aðgerðir og fleira og fleira sem fylgir þessu. Þetta var bara mitt starf. En svo heldur enginn venjulegri vinnu þegar aðstæður eru svona. Það er enginn að fara að ráða manneskju í vinnu sem er með fjölfatlað barn á heimilinu og annað þriggja ára. Ég reyndi það ekki einu sinni. Ég bara ákvað að vera heima með börnin og hugsaði að svona væri bara líf mitt. Þetta yrði mitt hlutskipti.“

Árið 2010 skilja Embla og barnsfaðir hennar. Þá er eldra barnið sex ára og yngra þriggja. „Allir í kringum okkur sáu að sambandið okkar myndi aldrei lifa af að vera með fatlað barn. Við áttum ekki séns en ég vissi samt ekkert hvað ég átti að fara að gera. Ég var jú búin að vera að sinna börnunum í þrjú ár og var komin út af kortinu hvað varðar öll réttindi. Fékk ekki atvinnuleysisbætur eða annað slíkt og þar fyrir utan þá misstum við húsnæðið okkar í hruninu. Fengum sitt hvorn fimmtíuþúsundkallinn og það er það sem ég labbaði út með. Svo ég stóð bara þarna með þriggja ára fatlað barn, aðra sex ára stelpu og fimmtíuþúsundkall í vasanum. Ég vissi ekkert hvað í andskotanum ég átti að gera. Ég var jú með þessa stúdentshúfu en ég kunni voða lítið. Kunni ekkert að búa ein og fannst framtíðin mjög ógnvekjandi.“

Embla segir að þrátt fyrir að hafa staðið þarna frammi fyrir tekjuleysi og mikilli óvissu hafi það aldrei komið til greina fyrir hana að fara út á hefðbundinn vinnumarkað.

„Mögulega hefði ég getað það þar sem Kolbrún var komin á leikskóla og svona en ég sá það bara ekki sem valkost í stöðunni. Að fara bara að vinna einhverja tilfallandi vinnu hefði aldrei komið mér neitt. Það hefði aldrei orðið neitt úr mér. Ég varð að mennta mig og gera eitthvað. Sálin í mér var eins og tóm blaðra af því ég hugsaði ekkert um sjálfa mig enda hafði ég bara lifað fyrir börnin. Ég vissi hvorki hver ég var né hvað ég vildi. Ég vissi reyndar alveg hver ég var sem móðir, en annað vissi ég ekki um sjálfa mig. Svo fór ég að leita mér að einhverju til að læra. Ég leitaði og leitaði og ekkert kallaði á mig fyrr en haustið 2011. Þá fann ég mótunarnám í keramík í Myndlistarskólanum í Reykjavík. Ég hafði verið þar sem krakki og fannst mjög næs að fara eitthvað þar sem ég kannaðist við mig og leið vel. Þar fyrir utan vissi ég einhvern veginn innra með mér að það að fara í listnám og takast á við eitthvað verklegt og skapandi myndi koma mér á betri stað andlega.“

Endurfæddist á Englandi og langaði ekkert heim

Embla var í tvö ár í myndlistarskólanum og hélt svo út í framhaldsnám til Englands árið 2013. Eldra barnið Þór, sem var mjög hændur að mömmu sinni, krafðist þess að fá að fara með og Embla tók risastórt námslán til að hlutirnir gengju upp.

„Ég réð meira að segja átján ára systurdóttur mína sem au-pair en þremur mánuðum síðar var Þór kominn með ógeð á Englandi og varð að komast heim. Þó var ekki þar með sagt að ég væri orðin barnlaus því unglingurinn frænka mín var auðvitað búin að skrá sig í nám,“ segir Embla og hlær. Hún segir að árið sem hún var í náminu á Englandi hafi verið dýrmætasti tími sem hún hafi lifað. „Þetta varð bara „omvent“. Ég kom ekki heim sama manneskjan. Engan veginn. Það var óörugg og feimin móðir sem fór út og allt önnur manneskja sem kom heim. Ég hafði rosalega gott af því að losa aðeins þessi bönd við börnin mín og vera einhvers staðar þar sem ég var ekki móðir í umönnunarhlutverki. Ég gat verið kærulaus og réð mér sjálfri í einu og öllu. Labbaði heim, fékk mér vínglas þar eða fór að hitta einhvern... svo neitaði ég bara að koma til baka. Mig langaði ekkert heim. Ég var í algerri afneitun og keypti ekki einu sinni flugmiða fyrr en daginn áður en við fórum til baka til Íslands. Í huga mínum verður þetta alltaf alveg svakalega dýrmætur tími því þarna fæddist ég upp á nýtt.“

Eftir heimkomuna leigði Embla sér vinnuaðstöðu í Íshúsinu í Hafnarfirði. Þar hefur hún unnið síðan og haldið margar sýningar. Hún fór markvisst í að byggja vörumerkið sitt upp og skapaði sér sérstöðu með slíkum árangri að upp úr 2017 gat hún séð fyrir sér og börnum sínum með listsköpun, og geri þá aðrir betur eins og sagt er. Hún segir velgengni sína fyrst og fremst hafa stafað af sérstöðunni sem vörurnar hennar hafa á markaði og einnig vinnuseminni og öllum klukkutímunum sem hún hefur helgað sinni sköpun. Hún segist enn eiga það til að vinna allt, allt of mikið og ganga þannig fram af sjálfri sér en nú snýst þetta allt um að finna jafnvægið milli einkalífs, vinnu og hvíldar og það kannast auðvitað allflestir vi ð.

Kom út úr skápnum en lokaði sig inni

Eins og áður hefur komið fram í viðtalinu eignaðist Embla fyrra barn sitt, Þór, árið 2004 en hann er á sautjánda ári núna og stundar nám í MH. Skömmu fyrir fermingu fór að bera talsvert á breytingum í hegðun hans og háttum.

„Til dæmis fór hann að skilja eftir miða og bréf hingað og þangað um húsið þar sem hann þóttist gleyma þeim en í raun voru þetta skilaboð til mín um að hann væri í raun hinsegin eins og það kallast. Svo tilkynnir hann mér þetta formlega. Ég hlustaði á hann og reyndi að sýna skilning en svo fór ég niður í þvottahús, brotnaði saman og fór að hágráta. Það gerðist bara.“

Þór vandi komur sínar í Samtökin 78, fékk þar mikinn stuðning og fannst hann tilheyra. Hann blómstraði, var elskaður af öllum og eignaðist ótal vini. Ekki leið svo á löngu þar til hann steig skrefið stóra og kom út úr skápnum með stæl á sjálfu Gay Pride og Embla birti flottan status á Facebook svo að það þyrfti ekki að tilkynna þetta fyrir öllum frænkum og frændum fjölskyldunnar aftur og aftur. Svo fóru þau mæðgin í ráðgjöf hjá samtökunum og þar er Emblu tjáð að stuðningur foreldra skeri alltaf úr um hvort hinsegin krakkarnir villist af leið eða hvort þeim vegni vel í lífinu. Yfirleitt væru líkurnar 50/50 á því hvort þau færu í dópið og flosnuðu upp úr skóla eða eignuðust maka og fjölskyldu og fyndu hæfileikum sínum farveg. Embla tók þá ákvörðun að styðja Þór í öllu sem hann var að ganga í gegnum, en þar með voru vandamálin ekki úr sögunni.

„Til að undirstrika þennan viðsnúning í lífinu lokaði hann vini og fleira sem tengdist gamla lífinu og þegar hann byrjaði í níunda bekk um haustið fór að halla verulega undan fæti. Hann þróaði með sér mikinn kvíða og depurð og byrjaði að stunda sjálfsskaðandi hegðun, til dæmis með því að skera sig á handleggjum og lærum. Lengi vel tókst honum að fela hversu alvarlegt ástandið var en svo ágerðist það mikið. Þór var byrjað að líða svo illa að við héldum að hann gæti kannski ekki komist til baka. Hann var byrjaður að heyra einhverjar raddir og varð mjög vænisjúkur og viðkvæmur. Mér fannst ég svo vanmáttug því ég kunni engin ráð og vissi ekki hvernig ég átti að bregðast við. Hann lokaði sig inni og vildi ekkert við okkur tala. Seinna kom svo í ljós að ofheyrnirnar stöfuðu af svefnleysi því barnið hafði varla sofið í marga mánuði. Svo frétti ég af námskeiði á BUGL fyrir krakka sem stunda sjálfsskaða og við komumst inn þegar það losnaði allt í einu pláss. Og þó ég hafi ekki verið vongóð um árangur þá breytti þetta tólf vikna námskeið öllu, bæði fyrir hann og okkur. Lífið snerist smátt og smátt til betri vegar og hann varð mjög flottur um sumarið. Hættur öllum sjálfsskaða og tekinn að blómstra.“

„Örin eru órjúfanlegur hluti af hans sögu og því sem hann hefur mótast af“

Þór lokaði sig áfram inni í herberginu en nú var það ekki vegna þess að hann væri að fela eitthvað heldur gaf hann sig algerlega að listsköpuninni á vald. Hann málaði, skrifaði, teiknaði, söng og samdi tónlist allan liðlangan daginn. Kom ekki fram nema rétt til að borða og skreppa á klósett.

„Þetta var það eina sem hann gerði í heilt ár. Sköpunarkraftur sprettur oft upp úr sársauka og Þór heilaði sig og vann úr hlutunum með því að skapa. Hann er með stór og áberandi ör á bæði handleggjum og fótum og mun ávallt bera þau en ég hef alltaf lagt áherslu á það við hann að fela þau ekki. Hann ber sín ör. Þau eru einn hluti af því hver hann er sem manneskja og núna er hann orðinn snillingur í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur. Örin eru órjúfanlegur hluti af hans sögu og því sem hann hefur mótast af. Hann á ekki að þurfa að fela þau því það má segja frá því hvað gerðist og hvernig honum leið. Listin hans og allt sem hann hefur skapað sprettur úr því og þessi sköpun er oft áleitin og ansi mögnuð. Það tekur bæði tíma, þjáningu og fórn að komast á betri stað. Hann fann sína leið úr sársaukanum með því að skapa og það er það sem máli skiptir. Myndirnar sem komu frá honum voru oft mjög dimmar og ógnvekjandi. Hann átti erfitt með að tjá sig í orðum en hann kom tilfinningunum út og það er það sem máli skiptir,“ segir Embla með mikilli sannfæringu.

„Ætlar maður að láta áföllin buga sig eða ætlar maður að reyna að standa í lappirnar og láta þau efla sig?“

„Það er alveg ótrúlegt hvað maður þekkir marga sem hafa farið í gegnum rosaleg áföll og erfiðleika. Stundum er þetta eins og áföllin dynji bara endalaust á fólki. En veistu að ég verð samt að segja að þetta er áhugaverðasta fólkið sem ég þekki. Maður veit það bara sjálfur. Ég þroskaðist til dæmis ekkert fyrr en eftir að ég varð 35 ára. Eða mér finnst það. Mér finnst ég hafa verið hálfgerður krakki fram að því. Þroskinn kemur ekki fyrr en maður vinnur úr og lærir af áföllum lífsins, nýtir þau til að fá aðra sýn á lífið, aukinn skilning og meiri samkennd og æðruleysi. Þá fyrst getur maður litið á það sem blessun að lífið hafi látið mann fá erfið verkefni. Þegar maður verður fyrir svona þá er tvennt í stöðunni: Ætlar maður að láta áföllin buga sig eða ætlar maður að reyna að standa í lappirnar og láta þau efla sig? Einhver sagði við mig að sama hversu ljótur, grimmur eða erfiður atburðurinn er... til að láta hann ekki buga sig þá verður maður að reyna að sjá eitthvað jákvætt við hann. Þú verður að finna út hvernig erfiðir atburðir geta gefið þér styrk. Það er hægt að sjá og finna styrk í öllu sem hefur komið fyrir mann. Stundum líða reyndar mörg ár þar til maður áttar sig á því að hann leynist þarna í öllum erfiðleikunum en það gerist þegar maður er tilbúinn til að sjá það.“

Embla segir að öll árin frá því hún var að vinna sig upp í stúdentinn og þar til hún eignaðist Þór og síðar Kolbrúnu, þá hafi hún ekki gert annað en að smána sjálfa sig og tala sig niður.

„Mér fannst áföllin hafa veikt mig og gert mig að ómenntuðum svörtum sauði. Ég var aldrei nógu góð í eigin huga og var með mikla fullkomnunaráráttu. Þurfti að vera mest og best í öllu og fá hæstu einkunnirnar. Ég var heltekin af þessum tilfinningum sem breyttust ekki fyrr en ég átti börnin mín og fór út í nám. Nú eru átta ár liðin frá því ég kom aftur til baka úr náminu og mér hefur tekist að sjá fyrir sjálfri mér og börnum mínum með því sem mér finnst skemmtilegast að gera. Ég er orðin 42 ára og mér finnst ég fyrst núna vera byrjuð að blómstra, en ég er sannfærð um að þessi innri blóm hefðu aldrei sprottið hefði ég ekki fundið mína leið úr myrkrinu í gegnum listina mína,“ segir þessi kraftmikla, heillandi og hugrakka kona að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »