Rótleysið varð að stjórnlausri drykkju

Hafþór Orri Harðarson eða Blaffi eins og hann er kallaður …
Hafþór Orri Harðarson eða Blaffi eins og hann er kallaður er gestur hlaðvarpsins, Það er von. Ljósmynd/Facebook

Hafþór Orri Harðarson er nýjasti gesturinn í hlaðvarpsþættinum Það er von. Hann gengur einnig undir nafninu Blaffi og talar um uppeldi sitt og rótleysi. Hann átti unga foreldra sem áttu erfitt með að festa rætur.

„Þannig að maður svona hálfpartinn ól sig upp sjálfur,“ segir hann í viðtalinu.

Þegar Hafþór er spurður hvort hann sé alkóhólisti svarar hann:

„Heldur betur og hef alltaf vitað,“ segir hann og bætir því við að allir í fjölskyldunni séu alkóhólistar.

„Ég átti ekki breik.“

Hafþór hefur gengið í gegnum margskonar tímabil í lífi sínu. Einu þeirra lýsir hann á eftirfarandi hátt:

„Ég var búinn að vera að drekka í fjögur ár þegar ég gafst bara upp. Þetta var bara orðið of mikið. Maður var orðinn maðurinn sem maður ætlaði ekki að vera.“

Hann rifjar upp þær hugmyndir sem hann hafði um sjálfan sig og þegar hann áttaði sig á því að hann hafði verið í sjálfsblekkingarleik.

„Þessi grunnskólahetja sem maður var eða sem maður leit á sjálfan sig sem, ég var allt í einu einhver 18 ára gaur að tala um það hvað ég var svalur í grunnskóla og það er ekki kúl sko.“

Tíminn leið og neyslan þróaðist.

„Ég var fangi helgarinnar,“ segir hann og segist hafa þraukað virku dagana í vinnu til að eiga fyrir bleyjum og búsi.

Hann segir okkur frá tímunum þegar hann fór á Vog og síðar meir Staðarfell þar sem hann segir að allt hafi breyst. Þar hafi hann verið með mönnum sem voru þangað komnir til þess að breyta lífi sínu. Hafþór sá og skildi að þessir menn voru flestir eldri en hann en á sama stað og hann í lífinu.

„Ég fékk brjálaða vakningu og áhuga fyrir lífinu.“

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is