Vera Illuga með nýja þætti í bígerð

Vera Illugadóttir.
Vera Illugadóttir. Ljósmynd/RÚV

Útvarpskonan Vera Illugadóttir situr nú við gerð spurninga fyrir spurningaþátt sem verður á dagskrá Rásar 1 síðar í sumar. Vera segist vera temmilegur aðdáandi spurningaþátta, en sjálf stundaði hún spurningakeppnina reglulega á Ölstofunni „í gamla daga“. 

Spurð af hverju hún sé að gera spurningaþátt segir Vera of fáa spurningaþætti í útvarpinu. „Spurningaþættir eru yfirleitt ágæt skemmtun og höfða til breiðs hóps. Hverjum finnst ekki gaman að sitja heima og vita betur en fólkið í sjónvarpinu eða útvarpinu?“

Þáttur Veru ber titilinn Gáfnaljósið og á að vera dálítið „gáfulegur“. „Eins og nafnið bendir til verða örlítið nördalegri og erfiðari spurningar, kannski, en í léttari þáttum. Við höfum líkt þessu við Trivial Pursuit – minna um bleikar spurningar en hina litina í kökunni. En vonandi skemmtilegt,“ segir Vera. 

Vera sjálf segist vera temmilegur aðdáandi spurningaþátta, hennar uppáhaldsþættir eru bresku sjónvarpsþættirnir University Challenge. Þar etja kappi ofurklárir háskólanemar og svara spurningum um stærðfræðiformúlur, óperur og forn ensk sýslumörk. „Þessi efni verða þó ekki fyrirferðarmikil í Gáfnaljósinu.“

Vera hefur ágæta reynslu af því að vera þátttakandi í spurningakeppnum en hún fór reglulega á spurningakeppni á Ölstofunni og keppti með liði Reykjavíkur í Útsvari einn vetur. „Svo hef ég keppt nokkrum sinnum í spurningakeppni fjölmiðlanna fyrir ýmsa vinnustaði, sjaldnast með góðum árangri. Mér finnst samt betra að semja spurningar fyrir aðra því þá veit ég alltaf svörin,“ segir Vera. 

Útvarpsþættirnir Í ljósi sögunnar á Rás 1 eru í umsjón Veru og hafa þeir notið mikilla vinsælda allt frá upphafi. Spurð hvort tilvonandi gáfnaljós geti undirbúið sig með því að hlusta á þættina segir Vera að það gæti hjálpað. 

„Það verða mögulega einhverjar spurningar úr efni þáttanna, hver veit! Þekkingar- og áhugasvið mitt mun svo örugglega lita spurningarnar eitthvað,“ segir Vera.

Áhugasöm gáfnaljós geta sótt um að komast í þættina með því að senda tölvupóst á gafnaljos@ruv.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál