Rauða serían er komin á Storytel

Árum saman hafa landsmenn lesið bækur Rauðu seríunnar en bækurnar eru seldar víðs vegar um landið. Sögurnar eru í senn spennandi, rómantískar og, á köflum, dálítið erótískar. 

Nú hafa Ásútgáfan og Storytel tekið höndum saman og verða bækur Rauðu seríunnar aðgengilegar í bæði hljóð- og rafbókarformi hjá Storytel. Bókaflokkar í Rauðu seríunni eru margir og bækurnar enn fleiri - en Ásútgáfan gefur út 72 bækur á ári.

„Við erum mjög spennt fyrir þessu samstarfi með Ásútgáfunni  og fögnum þessu margbreytilega efni í þjónustunni. Við byrjum á því að gefa út 100 rafbækur í dag og svo munu hljóðbækurnar og rafbækurnar halda áfram að koma út, jafnt og þétt,” segir Elísabet Hafsteinsdóttir, útgáfustjóri Storytel. „Á innan við ári verðum við komin með meira en 400 rafbækur og 72  hljóðbækur úr þessari skemmtilegu seríu.”

Rósa Vestfjörð Guðmundsdóttir, stofnandi Ásútgáfunnar, hefur haldið starfseminni gangandi í rúm 35 ár og sér tækifæri í samstarfi með Storytel. 

„Þarna er kominn alveg nýr lesenda- og hlustendahópur sem getur notið Rauðu seríunnar hvar og hvenær sem er. Þetta er frábær leið fyrir þá sem eiga erfitt með að nálgast kiljurnar eða vilja einfaldlega vera með bækurnar í símanum sínum, í spjaldtölvunni eða á lesbrettinu. Einstaklega þægileg leið til að taka bækurnar með í ferðalagið í sumar,” segir Rósa Vestfjörð Guðmundsdóttir.

Elísabet Hafsteinsdóttir, Stefán Hjörleifsson, Rósa Vestfjörð Guðmundsdóttir og Kári Þórðarson.
Elísabet Hafsteinsdóttir, Stefán Hjörleifsson, Rósa Vestfjörð Guðmundsdóttir og Kári Þórðarson.
mbl.is