58 ára fljótandi karakter sem veit hvað hún vill

Anna Hildur Hildibrandsdóttir er gestur Snæbjörns Ragnarssonar í þættinum, Snæbjörn …
Anna Hildur Hildibrandsdóttir er gestur Snæbjörns Ragnarssonar í þættinum, Snæbjörn talar við fólk.

Anna Hildur Hildibrandsdóttir er ekki þjóðþekkt andlit en áhrif vinnu hennar á íslenskt menningarlíf eru gífurleg. Hún tók þátt í að koma ÚTÓN, Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, á legg sem opnaði fyrir gífurlega verðmætasköpun í íslenskum tónlistariðnaði, hún var lengi fréttaritari í London og nú nýlega var frumsýnd hennar fyrsta heimildarmynd „A Song Called Hate“ sem fjallar um ferð hljómsveitarinnar Hatara í Eurovision í Ísrael árið 2019. Nú í vetur flutti hún heim til Íslands eftir langa búveru í Bretlandi og hóf kennslu við Háskólann á Bifröst, stofnaði listþróunarfyrirtækið Glimrandi ásamt eiginmanni sínum og er í stjórn sumarnámskeiðsins Tungumálatöfra, en þar fá fjöltyngd börn og unglingar tækifæri til að rækta íslenskuna sína í gegnum listsköpun á Ísafirði. Anna Hildur er hvergi nærri hætt og nýtur þess að takast á við nýjar áskoranir, en nú þegar hún nálgast sextugsaldurinn er hún loksins búin að læra að segja nei. Hún er gestur Snæbjörns Ragnarssonar í hlaðvarpsþættinum, Snæbjörn talar við fólk. 

https://www.mbl.is/smartland/frami/2021/04/13/anna_hildur_fekk_draumastarfid/

Anna og maðurinn hennar Gísli kynntust þegar hún var 18 ára, og segir Anna að það hafi tekið þau um 10 ár að ákveða að vera raunverulegt par. Fjölskyldan flutti til Bretlands með tvö ung börn þegar Gísli hóf þar nám í grafískri miðlun. Fyrst um sinn dreymdi Önnu um að vera heimavinnandi húsmóðir í Bretlandi, en hún gafst upp á því eftir rúmlega þrjá mánuði. Fljótlega varð hún fréttaritari Bylgjunnar og Stöðvar 2 í London, nánast fyrir algjöra rælni.

Eftir vangaveltur keyptu þau Gísli sér hús í London, Gísli fór að vinna við grafíska hönnun og Anna Hildur hélt áfram að starfa sem fréttaritari. Þó fór hún yfir til RÚV. Síðar stofnaði hún leikfélag ásamt Ágústu Skúladóttur og fleirum, sem sýndi leikþætti byggða á íslenskum sagnaarfi fyrir enska áhorfendur. Nokkru síðar sagði hún sig frá því samstarfi, og tók þá að sér að vinna með hljómsveitinni Bellatrix.

Anna Hildur setti sig í samband við útflutningsráð og kom af stað þeirri umræðu að Ísland gæti flutt út eitthvað annað en fisk. Í kjölfarið af því sækir hún um og verður fyrsti framkvæmdastjóri ÚTÓN – Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar. Eftir 5 ár flutti Anna sig um set og varð framkvæmdastjóri Nordic Music Expo. Í dag er Anna Hildur að vinna við Háskólann á Bifröst sem fagstjóri skapandi greina.

Snæbjörn spurði hvort Önnu Hildi liði alltaf eins og verkefni kláruðust bara og það væri gott og þá tæki næsta verkefni við. Anna Hildur svaraði því neitandi og fylgdi eftir með:

„Stundum tekst eitthvað bara glimrandi vel og stundum ekki. En maður er kannski orðinn aðeins markvissari og fókuseraðri núna. Ég var bara dálítið svona fljótandi karakter. „Jájá, af hverju ekki bara að hjálpa Bellatrix?“ og „Jájá, af hverju ekki að gera þetta?“ Greiðvikin manneskja líka. En núna er ég orðin svolítið … ég geri það sem mig langar til að gera og það sem ég brenn fyrir að gera og mér finnst skipta máli núna – ég er orðin 58 ára gömul, að ég sé að senda frá mér [...] það sem hefur einhvern tilgang. Ég var svona oft fljótandi einhver veginn að feigðarósi þegar ég var yngri,“ segir hún. 

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

Snæbjörn Ragnarsson og Anna Hildur Hildibrandsdóttir.
Snæbjörn Ragnarsson og Anna Hildur Hildibrandsdóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál