Kynntist Sævari upp á nýtt þegar hann hætti að drekka

Lögmaðurinn Lárus Sigurðsson kynntist eiginmanni sínum, Sævari Þór Jónssyni, upp á nýtt þegar sá síðarnefndi kvaddi bakkus 2018. Í kjölfarið fór Sævar að vinna úr áföllum sem hann hafði orðið fyrir í æsku. Á dögunum kom bókin Barnið í garðinum út. Þótt bókin fjalli um Sævar og hans lífshlaup skrifuðu þeir bókina saman. Lárus og Sævar hafa verið áberandi í fjölmiðlum síðustu ár en þeir reka lögmannsstofuna Sævar Þór og Parterns. 

Eftir lestur bókarinnar Barnið í garðinum vöknuðu fjölmargar spurningar. Mig langaði að vita hver hefði verið aðdragandinn að því að bókin var skrifuð. Lárus segir að sagan hafi legið þungt á Sævari. 

„Þessi saga hvíldi þungt á honum Sævari og hann þurfti að losna undan þeirri byrði eða skila henni af sér með einhverjum hætti. Hugmyndin kviknaði hjá honum árið 2018 að skrifa söguna niður og hann fór á fund með Agli Erni Jóhannssyni hjá Forlaginu sem sagði honum að byrja að skrifa. Hann byrjaði strax að pára eitthvað niður. Þá var alls óvíst hvort þetta yrði bók til útgáfu. Árið 2019 fór Sævar í stórt viðtal hjá Orra Páli Ormarssyni á Morgunblaðinu þar sem hann sagði þessa sögu opinberlega í fyrsta sinn. Þrátt fyrir þá opinberun hélt sagan áfram að sækja á hug hans og hann hélt áfram að skrifa eins og til að losna frá þessu, skrifa sig frá þessu öllu saman. Þannig fór þetta af stað og handritið óx og óx með tímanum þar til ég fékk það í mínar hendur,“ segir Lárus. 

Úr hvernig umhverfi kemur þú? Þekktir þú alkóhólisma áður en þið Sævar kynntust?

„Ég er úr stórri fjölskyldu, við erum fimm systkinin og það var mikill samgangur við frændfólk þannig að ég ólst upp við samheldni og stóran frændgarð. Ég var líka mikið hjá frændfólki mínu í sveit á Snæfellsnesi og naut þess tíma. Sveitin og náttúran hafa alltaf heillað mig og ég var mikill útivistarmaður. Ég þekkti auðvitað alkóhólisma, eins og flestir Íslendingar ef ekki allir. Alkóhólismi er því miður landlægur sjúkdómur sem er ekki alltaf augljós og sjaldnast á yfirborðinu. Ég held að hann finnist innan flestra fjölskyldna.“

Þegar fólk les bókina kemur í ljós að það hefur ekki alltaf verið dans á rósum að vera þú í sambandinu. Hvernig náðir þú að sigla í gegnum sambúðina án þess að gefast upp?

„Ég ólst upp við sterk fjölskyldugildi og samheldni. Þessi gildi eru innréttuð í mig. Það felst í því mikið öryggi að eiga traust bakland. Það er alls ekki sjálfgefið og ætti ekki að taka sem sjálfsagðan hlut. Skilnaður var mér mjög fjarlægt hugtak enda hafði ég ekki haft nein kynni af slíku í mínu uppeldi eða nærumhverfi. Þessi bakgrunnur og þessi sterku gildi hafa mótað mína afstöðu til hjónabandsins og fjölskyldunnar. Ég vildi ekki gefast upp og var ekki reiðubúinn til þess. Svo lengi sem ástin var til staðar þá var von. Það má heldur ekki líta á mig sem einhvern þolanda í þessu hjónabandi, alls ekki. Við vorum báðir týndir á tíma og leituðum báðir að huggun annars staðar. Það sem máli skiptir er að við náðum aftur saman og höfum saman náð að vinna okkur í gegnum erfiðleikana. Ástin hefur alltaf verið til staðar á milli okkar, það þurfti bara að finna henni réttan farveg.“

Hvernig varð þér við þegar Sævar sagði þér sína sögu?

„Mér varð auðvitað mikið um að heyra af hans lífsreynslu og því ofbeldi sem hann varð fyrir í æsku. Ég vildi fyrst og fremst vera til staða fyrir manninn minn og veita honum þá ást og stuðning sem hann þurfti á að halda. Það var ekki alltaf auðvelt því hann þurfti að stýra ferðinni hvað hann treysti sér til þess að ræða og hversu djúpt hann var tilbúinn að kafa í fortíðina í það og það skiptið. Aðalatriðið var að vera til staðar fyrir hann þegar hann þurfti. Auðvitað var það ákveðið áfall líka fyrir mig að heyra að lífsförunautur minn hefði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.“

Hvenær í sambandinu fékkstu að heyra hvað Sævar hafði gengið í gegnum? Fékkstu söguna í smáskömmtum eða sagði hann þér alla sólarsöguna í einu?

„Sævar talaði aldrei um ofbeldið sem hann varð fyrir sem barn fyrr en um það leyti sem hann fór í meðferð. Það er um það fjallað í bókinni þegar leyndarmálið vaknaði og hann horfðist í augu við fortíð sína. Þá fyrst gat hann talað um þetta við nokkurn mann, þar á meðal mig. Frásögnin kom í brotakenndum skömmtum eftir því sem hann treysti sér til að segja frá. Heildarmyndina fékk ég ekki í raun fyrr en með handritinu að bókinni þegar ég tók við því.“

Hvað hefur þú lært af hjónabandi þínu með Sævari?

„Það hefur oft gefið á bátinn í þessu hjónabandi og eins og svo oft þegar svo háttar til lærir maður eitt og annað, bæði um sjálfan sig en einnig um lífið og fólkið í kringum sig. Það sem ber hæst í þessu held ég að sé þrautseigjan. Það er alltaf von. Við vorum oft á vondum stað og sáum ekki alltaf fram úr vandamálunum en tókst samt að vinna okkur út úr þeim. Það er aðallexían; ef maður leggur sig fram og er heiðarlegur við maka sinn þá er hægt að bjarga svo miklu.“

Varstu alltaf 200% viss um að það væri gott að segja söguna?

„Það hafa allir gott af því að skrifa sig frá sínum áföllum, um það er ég sannfærður. En ég var ekki alltaf sannfærður um að það ætti að gefa þessa sögu út á bók. Mín fyrstu viðbrögð við þeirri hugmynd voru neikvæð, ég var óttasleginn. Ég sá aftur á móti hvað það var Sævari mikilvægt að geta skilað þessari sögu frá sér, senda hana út í kosmosið og losna undan henni. Þá sannfærðist ég og í dag veit ég að þetta var mjög gott fyrir hann og var skrifað í skýin eins og maður segir.“

Rithöfundar skilja oft ekki hvernig tveir geta skrifað saman. Hvernig skrifuðuð þið bókina?

„Sævar byrjaði að skrifa niður söguna. Þetta voru hamfaraskrif hjá honum. Hann hellti úr sér, fyrst komu nokkrir tugir blaðsíðna, svo meira og meira uns hann treysti sér ekki lengra. Þá tók ég við. Þá fyrst kynntist ég allri sögunni í heild. Það var mikill lærdómur og má segja að ég hafi kynnst Sævari upp á nýtt. Sumt endurskrifaði ég frá grunni, annað lagaði ég bara, ég bætti inn stílbrögðum og lagfærði texann. Ég gætti þess alltaf að sagan væri hans, bókin átti að vera hans frásögn, hans rödd að tala. Ég bætti ekki minni rödd í söguna eða mínu sjónarhorni, ég hélt í þennan einfalda og hráa frásagnarstíl sem er áhrifamikill, sérstaklega í svona sögu. Margt var tekið út og aðeins haldið í það sem skipti máli fyrir þroskasögu Sævars því þetta er fyrst og fremst saga hans.“

Hvernig breyttist sambandið eftir að Sævar hætti að drekka?

„Það er óhætt að segja að Sævar hafi fyrst og fremst breyst eftir að hann kvaddi Bakkus. Hann er ekki sami maður og hann var. Hann lærði að hemja sig og það skilaði sér líka í okkar samskipti. Góð samskipti hafa bjargað okkur og eru undirstaðan í hjónabandinu.“

Hvað getur þú ráðlagt fólki sem er í svipaðri stöðu og þú sjálfur?

„Ég get svo sannarlega mælt með því að skrifa sögu maka síns. Ég kynntist Sævari upp á nýtt í gegnum þessa bók, bæði að lesa söguna sem hann skrifaði og svo samtölin sem við áttum meðan á vinnunni stóð. Á stöku stað fannst mér vanta eitthvað í frásögnina og þá settumst við niður og ég lagði fyrir hann spurningar um atvik, um persónur og söguþráðinn. Annað sem ég ráðlegg fólki er að leita sér handleiðslu. Það er hægt að gera hjá sálfræðingum eða fara á námskeið eins og meðvirkninámskeið og aðstandendanámskeið SÁÁ. Svo er ómetanlegt að eiga góða að, vini og vandamenn, til að leita til.“

Hvernig hafa viðbrögðin við bókinni verið?

„Viðbrögðin hafa verið vonum framar. Við höfum fengið mikið af kveðjum og skilaboðum úr öllum áttum og margir sem segjast hafa lesið bókina í einum rykk; það hafi ekki verið hægt að leggja hana frá sér. Hún lenti á metsölulista bæði hjá Eymundsson og Forlaginu, sem er auðvitað mikill árangur og heiður út af fyrir sig. En þessi bók er bara að byrja líf sitt. Það hafa samt líka verið neikvæð viðbrögð og þá innan fjölskyldunnar. Þar hafa sumir lokað á okkur og það hryggir mig mikið.“

Hyggur þú á meiri bókaskrif?

„Það hefur blundað lengi í mér að skrifa og ég er líklega það sem kallað er skúffuskáld. Eftir að við skiluðum af okkur þessari bók hef ég hafist handa við að stilla upp nýju handriti að bók. Sjáum til hvernig vinnst úr því.“

Hvernig verður sumarið hjá ykkur?

„Vonandi sólríkt. Við veiðum mikið á sumrin og það er fastur liður í tilverunni hjá okkur. Langá á Mýrum er okkar uppáhaldsveiðiá og við eyðum alltaf tíma þar á hverju sumri. Svo auðvitað munum við litla fjölskyldan ferðast um landið okkar í sumar. Við höfum farið hringinn um landið undanfarin ár með nýjum útúrdúrum og stefnum á það í ár aftur.“  

Lárus og Sævar Þór með soninn.
Lárus og Sævar Þór með soninn. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is