Sigga Heimis komin í spennandi starf hjá Rannís

Sigga Heimis er farin að vinna hjá Rannís.
Sigga Heimis er farin að vinna hjá Rannís. Ljósmynd/Tinna Stefánsdóttir

Iðnhönnuðurinn Sigga Heimis hefur verið að kenna hönnun í vél- og orkutæknifræði við iðn- og tæknifræðideild Háskólans í Reykjavík. Í náminu kennir hún nemendum hönnun út frá virkni, viðmóti, lögun, framleiðslu, efni og sjálfbærni. Lögð er áhersla á skapandi hugsun og samspil hönnunar og hönnunarhugsunar við öll svið nýsköpunar.

„Við höfum verið með námskeið eða hönnunarkúrs síðustu mánuði þar sem við erum að blanda saman viðmóti, hönnun, umgengni og tækni. Markmiðið er að nemendur leysi flókin og opin hönnunarvandamál sem tengjast vélbúnaði og orkunýtingu og skilji skoranir sem felast í þverfaglegu hönnunarumhverfi,“ segir Sigga.

„Veruleikinn í dag er hreinlega þannig að það er svo mikil orkunotkun og þörf á orku og við erum ekki endilega vön á á Íslandi að þurfa að hugsa mikið um þetta. En þetta er stórt og er að verða stærra vandamál erlendis. Hér erum við sem sagt að virkja orku sem færi annars bara til spillis. Við erum að búa til vörur og við erum að leysa vandamál. Við erum að nálgast þetta verkefni dálítið frá sitt hvorri hliðinni og þetta er alveg frábær samvinna sem á sér stað. Nemendur eru búnir að standa sig alveg ótrúlega vel,“ segir hún.

Hjá IKEA í tvo áratugi

„Mér finnst mjög skemmtilegt að kenna og mér finnst nemendurnir hugrakkir og hugmyndaríkir. Það er mikið til af ungu og hæfileikaríku fólki með óbeislað hugmyndaflug og svo gaman að vinna með því. Grunnurinn af því af hverju ég er að kenna er að ég sá um allt skipulag og samstarf við hönnunarskóla víða um heim fyrir IKEA í fjölda ára. Ég er búinn að kenna út um allan heim og geri enn, til dæmis Rússlandi, Bandaríkjunum, Japan og Suður-Kóreu. Nýsköpun er svo spennandi og mér finnst ótrúlega skemmtilegt að kenna. Hönnun gengur fyrst og fremst út á hugmyndir. Það að vera frjór hugmyndalega séð, kunna að setja hugmyndir fram, útfæra þær og framkvæma. Það skiptir svo miklu máli. Og það er endalaust til af hugmyndum og við Íslendingar erum duglegir og hugmyndaríkir. Og það er í okkar DNA að vera lausnamiðuð.“

Sigga starfaði lengi fyrir IKEA þar sem hún gengdi ýmsum störfum. Fyrst sem hönnuður, svo vörustjóri fyrir hönnunarlínur og að lokum þróunarstjóri allrar smávöru hjá fyrirtækinu. Hún hætti hjá sænska húsgagnarisanum árið 2019 eftir rúmlega 20 ára starf. Þótt Sigga hafi unnið hjá IKEA í tvö áratugi þá hefur hún líka sinnt eigin hönnunarverkefnum og um tíma var hún hönnunarstjóri hjá Fritz Hansen í Danmörku sem framleiðir húsgögn Arne Jacobsen. Þegar Sigga er spurð að því hvort hún muni ekki sakna IKEA segir hún að það sé mikilvægt að hrista upp í hlutunum reglulega. Og þetta hafi verið réttur tímapunktur.

„Ég byrjaði hjá IKEA 1998 og er búin að fylgja því fyrirtæki síðan. IKEA hefur á þeim tíma rúmlega þrefaldast og sá tími fannst mér algjörlega frábær,“ segir hún.

Hönnun skapandi hugsun en svo margt þarf að ganga upp

Kennslan í HR er aukastarf hjá Siggu en aðalstarf hennar er hjá Rannís.

„Það er mjög skemmtilegt og áhugavert að vinna hjá Rannís. Ég starfa þar með áherslu á Tækniþróunarsjóð en einnig með aðra hluti sem styðja íslenska nýsköpun. Þetta nýsköpunarumhverfi er að stækka og þroskast mjög mikið. Nýsköpun er ekki bara hönnun eða markaðssetning heldur fullt af hlutum sem þurfa að ganga upp. Mér finnst gaman að fá að róta og lifa í þessu umhverfi. Hönnun er skapandi hugsun en það þarf svo margt að ganga upp. Það þurfa að vera viss gæði og það þarf að höfða til fólks. Hvaða efni og með hvaða hætti er verið að framleiða vöruna og hvað kostar hún. Það eru margir hlutir sem skipta máli. Þetta kallar á stöðugt samtal, þróun og aðhlynningu.“

Sigga vann talsvert með Háskólanum í Reykjavík meðan hún var hjá IKEA.

„Ég hef alltaf haft gaman að vinna með HR enda finnst mér það frábær skóli sem er gera flotta hluti. Mér finnst til dæmis frábært að sjá hvað HR vinnur mikið og vel með atvinnulífinu. Iðn- og tæknifræðin í HR er mjög spennandi og árangursmiðuð. Ég er sérlega ánægð með það nám þar sem áherslan er mikil á verkefni og margbreytileika. Þar er áherslan á að leysa verkefni og leita lausna eins og atvinnulífið virkar,“ segir hún.

Það er alltaf nóg að gera hjá Siggu.

„Ég var að kenna vinnustofu með ítölskum hönnunar háskóla í vor og það var mjög gaman og áhugavert enda á ég sérstakar rætur á Ítalíu. Ég mun einnig kenna vinnustofu við Háskólann í Lundi síðar í haust en ég hef tengst þeim skóla í tugi ára. Það er gott og hollt að fá reynslu af öðrum skólum og skólaumhverfi. Það opnar sjóndeildarhringinn hjá manni og tengir mann við komandi kynslóðir. Svo ekki sé gert lítið úr því að það heldur manni ferskum á meðan maður vonandi hjálpar nemendum með þekkingu og reynslu.“

mbl.is