Notaði amfetamín til að kötta sig fyrir mót

Hlynur Kristinn Rúnarsson.
Hlynur Kristinn Rúnarsson. K100

Hlynur Kristinn Rúnarsson er nýjasti gestur hlaðvarpsins Þvottahúsið. Þar fór hann yfir sögu sína frá unglingsárum og til dagsins í dag. Hann talar um vaxtarræktina þar sem hann byrjaði að nota stera sem svo í tíð og tíma dró hann í harða fíkniefnaneyslu. Í dag er hann búin að vera edrú í tvö ár og hefur tekið lífið föstum tökum og öðlast stjórn. Hann er í forsvari fyrir góðgerðarfélagið Það er von, þar sem hann leitast eftir að hjálpa öðrum í neyð, sömu neyð og hann fann sig í fyrir aðeins tveim árum síðan.

„Ég er maður í bataferli, er að gera mitt besta, er að reyna að láta gott af mér leiða, ég er heiðarlegur og einlægur,“ segir hann og bætir við: 

„Í grunninn er ég maður með drauma, mig hefur alltaf langað til að skara fram úr, ef ég væri íþróttamaður þá væri ég gæinn sem sem væri geðveikt tapsár og langaði geðveikt að vera bestur og þegar ég rek sögu mína þá er þetta það sem er alveg áberandi öllu því sem ég geri.“

Hann rifjar upp hvernig líkamsræktin hafi orðið hluti af lífi hans. 

„Ég fékk dellu fyrir þessu og pabbi spottaði þetta og skoraði á mig hvort við ættum að æfa saman og ég hafði alltaf þráð samþykki föður míns. Ég þráði alltaf hans viðurkenningu og hans ást og ég þráði hana á minn hátt. Ég var með ákveðnar hugmyndir um hvernig hann ætti að elska mig,“ segir Hlynur í lýsingum sínum á aðdragandanum inn í vaxtarrækt sem svo fóru með hann inn í steraneysluna sem í raun má skilgreina sem byrjun á hans neyslu.

„Allt í einu gat ég bara staðið með sjálfum mér, allt í einu fékk ég smá meira sjálfstraust og ég gat bara verið ég. Ég fæ meira ego, ég fer að líta stærra á sjálfan mig,“ segir hann um líðanina sem fylgdi fylgdi steraneyslunni til að byrja með, svo bætir hann við:

„Ég var með minnimáttarkennd, sterar fixuðu það.“

Hlynur lýsir steraneyslu sinni og hvernig svo amfetamín kemur inn í myndina sem svo endaði með því að hann fór að nota fleiri efni. 

„Fram líða stundir og þá prófa ég amfetamín til að kötta fyrir mót sem er alls ekkert mælt með.“

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is og horfa á hann á YouTube: 

mbl.is