Sigmar burðaðist lengi með áföll úr æsku

Sigmar Guðmundsson er fimmtíu og tveggja ára faðir í vísitölufjölskyldu. Þar er þó ekki öll sagan sögð. Andlit hans hefur verið tíður gestur á heimilum landsmanna, þar sem Sigmar hefur unnið í mörg ár í sjónvarpi sem fréttaritari, þáttastjórnandi og ritstjóri svo fátt eitt sé nefnt. Nú í ár hefur Sigmar undið kvæði sínu rækilega í kross, sagt skilið við fjölmiðla og stefnir á framboð til þings á framboðslista Viðreisnar haustið 2021. Sigmar var gestur Snæbjörns Ragnarssonar í hlaðvarpsþættinum Snæbjörn talar við fólk sem kemur úr smiðju Hljóðkirkjunnar. 

Lífið hefur fært Sigmari mörg stórkostleg tækifæri en hefur þó ekki ávallt verið dans á rósum; hann er óvirkur alkóhólisti og hefur þurft að sigrast á sínum djöflum til að komast á þann stað sem hann er á í dag. Þessa dagana er hann spenntur fyrir nýrri áskorun, þakklátur fyrir lífið sem hann hefur byggt sér, heltekinn af náttúruhlaupum og að eigin sögn mjög lánsamur maður.

Sigmar vann lengi á útvarpsstöðinni X-ini, þar sem hann kom að stofnun stöðvarinnar, og lauk þar formlega sinni vinnu þar árið 1998 þegar hann var að verða þrítugur. Eftir það fór hann í síðdegisútvarpið á RÚV og þaðan í sjónvarpið. Upprunalega fór Sigmar á fjölmiðlabraut í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ.

Sú nýlega ákvörðun að færa sig yfir í stjórnmálin kom nokkuð óvænt. Sigmar var í smá naflaskoðun á sama tíma og stjórnmálaflokkurinn Viðreisn hafði samband við hann varðandi mögulegt framboð. Á þessum tíma langaði Sigmar að breyta til og ákvað að taka áskoruninni og hugsanlega geta haft áhrif á samfélagið sem hann hafði eytt svo mörgum árum í að fjalla um.

Aðspurður hvernig hann upplifi að koma inn í dagsdagslega vinnu hjá stjórnmálaflokkunum talar Sigmar mjög fallega um grasrótina.

„Þessi grasrótarhlið sem ég hef ekki kynnst áður hún er alveg rosalega skemmtileg. Það er bara mikið af flottu fólki alls staðar í grasrótum allra flokka sem er örugglega gaman að vera í samskiptum við og vinna með. [...] Þetta er ekki bara það að vera að rífast í þinginu þegar maður fer þangað, þetta er svo margt annað svo að maður tali nú um þetta bara út frá því hvað manni sjálfum finnst spennandi við þetta persónulega. Þannig að ... þetta verður nýtt.“

Féll með „dálitlum látum“

Sigmar er óvirkur alkóhólisti í dag og var búinn að vera edrú lengi þegar eitt sinn hann féll, og þá „með dálitlum látum“ eins og hann orðar það sjálfur. Einna erfiðast þótti honum hvað hann olli sjálfum sér miklum vonbrigðum fyrir að hafa brugðist sínum nánustu. Það tók Sigmar um tvö ár að koma fótunum aftur almennilega undir sig eftir þetta stóra bakslag. Hann veltir einnig fyrir sér hversu miklu maður eigi að deila af sinni reynslu sem opinber persóna; auðvitað sé umræðan mikilvæg en þó sé líka nauðsynlegt að viðhalda friðhelgi eigin einkalífs. Sigmar byrjaði að drekka á unglingsaldri og segir áfengi aldrei hafa farið sér vel. Hann trúir þó á að fólk eigi að hafa frelsi til að neyta áfengis ef það skaðar ekki sig eða aðra.

„Það er erfitt að vera á einhverjum stað þar sem allt gengur vel – bara lífið leikur við þig – og þú finnur að þú ert alveg bara að gera fína hluti, þú ert sáttur við Guð og menn og það eru allir sáttir við þig. Svo einhvern veginn gerist eitthvað hjá þér og þú missir tökin, eins og gerðist hjá mér, það gerðist hratt. Allt í einu snerist bara allt við, skilurðu? Allt í einu í staðinn fyrir að vera gæinn sem er með allt sitt á hreinu og bara lifði sínu lífi nokkuð ágætlega, auðvitað er enginn fullkominn og allt það, þá ertu gæinn sem er að valda vonbrigðum út um allt. [...] þú klárar ekki verkin þín, þú ferð að vanrækja krakkana þína [...] þú ferð að vera svona, draga þig inn í eigin skel og hættir að vera bara í eðlilegum samskiptum við fólk. Bara hálfpartinn breytist í eitthvað sem þú vilt ekki vera. Það er bara ógeðslega sárt. Ég tók það rosalega inn á mig, sko. Það braut mig mjög mikið niður á tímabili og ég var alveg þarna í einhver tvö ár að ströggla áður en ég kom til baka.“

Varð faðir ungur

Sigmar átti erfið ár sem 12-16 ára strákur. Eftir á að hyggja sá hann að hann var að burðast með áföll sem hann hafði ekki getað unnið úr, og kerfið ekki jafn skilvirkt á þeim tíma og það er í dag. Hann setur samasemmerki á milli áfengisvandamála sinna og þessara áfalla sem hann upplifði í æsku, enda margir sem telja að fíknsjúkdómar byggist oft á óuppgerðum áföllum.

Eitt sinn var hann fenginn til að fara í Eurovision sem þulurinn á streymi Íslands. Hans innri rokkara, og sumum vinum af X-inu, fannst þetta ekki sniðug hugmynd þar sem Sigmari þótti heilmikið af Eurovisiontónlistinni hundleiðinlegt. En að lokum fannst honum stórskemmtilegt að dýfa sér í heim Eurovision, kynnast sögunum og hefðunum og öllu því öðru sem finna má í Eurovisionheiminum.

„Þetta er bara svona hliðarveröld sem ferðast á milli landa og er bara í kúlu einhvern veginn. Og maður dettur inn í þann heim og maður bara fer að taka þessu þannig að – jú, 70% af tónlistinni eru bara léleg, en það er samt fullt af lélegu tónlistinni fyndið. [...] En til þess að hafa gaman af þessu þarf maður svolítið að setja – eða ég þurfti að setja mig í þær stellingar og ég veit að þeir gera það margir – að þú ert ekki að taka þetta hátíðlega. [...] Það er fullt af fínni tónlist þarna, hellingur af ágætis lögum, góðum lögum. En það er ekki stabbinn af dótinu. [...] Þetta er bara skemmtun.“

Aðaláhugamál Sigmars þessa dagana er að hlaupa, þá sérstaklega náttúruhlaup. Í sumar fer hann í Jökulsárhlaupið, frá Dettifossi og niður í Ásbyrgi, sem er um 30 kílómetra vegalengd. Áður hefur Sigmar verið í ræktinni til að halda sér við en honum finnst þessi hlaup bæta við einbeittara markmiði.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál