Selma yfir sig ástfangin af Kolbeini á afmælisdaginn

Kærustuparið Kolbeinn Tumi og Selma Björnsdóttir.
Kærustuparið Kolbeinn Tumi og Selma Björnsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Söngkonan Selma Björnsdóttir fór fögrum orðum um kærasta sinn, Kolbein Tuma Daðason, fréttastjóra á Vísi, á Instagram í morgun. Kolbeinn Tumi fagnar 39 ára afmæli sínu í dag. 

„Þegar þessi Tumi fer á fætur í fyrramálið verður hann árinu eldri og vitrari,“ skrifaði Selma í story í gærkvöldi. Svo fylgdu myndir af fréttastjóranum á hinum ýmsu stöðum. Selma segir hann til dæmis frábæran í París, fallegan í Flatey, sjóðheitan í Geldingadölum og besta félagann á Laugaveginum. „Og ég á hann og elskann,“ skrifar Selma undir lok afmæliskveðjunnar.

Selma og Kolbeinn Tumi tóku fyrst saman árið 2018 en leiðir þeirra skildi í lok 2020. Þau tóku svo aftur saman á vormánuðum 2021. 

Afmælisdrengurinn virðist hafa tekið daginn snemma og náði tindi Helgafells fyrir klukkan sjö í morgun í veðurblíðunni sem höfuðborgarbúar njóta í dag. 

mbl.is