Var hættur að leita þegar hann fann Eyju í Eyjum

Eyja Bryn­geirs­dótt­ir og Kristján Þór Jónsson, eða Kidda Big Foot, …
Eyja Bryn­geirs­dótt­ir og Kristján Þór Jónsson, eða Kidda Big Foot, halda alltaf upp á brúðkaupsafmæli sitt um verslunarmannahelgina. Ljósmynd/Sigurjón Ragnar

Kristján Þór Jónsson, eða Kiddi Big Foot eins og hann er oft kallaður, var í óðaönn að undirbúa brúðkaupsafmæli sitt og Eyju Bryngeirsdóttur í Vestmannaeyjum þegar blaðamaður náði í hann á föstudaginn. Kiddi og Eyja halda upp á brúðkaupsafmæli sitt á hverju ári í hvítu tjaldi um verslunarmannahelgi. Líkt og í fyrra stendur tjaldið í garðinum heima hjá þeim en ekki í Herjólfsdal. 

Kiddi, sem er ofan af landi, kynntist Eyjastúlkunni Eyju á Þjóðhátíð árið 2013 og þau giftu sig árið 2017. Nú er það orðið hluti af lífi hans að vera um verslunarmannahelgi í Vestmannaeyjum. „Við búum í bænum en eigum lítið fallegt hús hérna í Eyjum,“ segir Kiddi.

„Við erum með hvítt tjald. Við gerum það sama og við gerðum í fyrra. Við tjöldum bara úti í garði. Við erum alltaf með brúðkaupsveislu úti í tjaldi á föstudeginum á Þjóðhátíð,“ segir Kiddi. Dagurinn lendir ekki alltaf á sama mánaðardegi en það breytir engu. Viðmið veisluhalda er Þjóðhátíð en ekki mánaðardagurinn. Fyrir utan stemninguna sem myndast segir Kiddi engar líkur á að hann gleymi brúðkaupsafmælinu með þessu fyrirkomulagi.  

Svona leit hvíta tjaldið þeirra Kidda og Eyju út á …
Svona leit hvíta tjaldið þeirra Kidda og Eyju út á föstudaginn.

„Eftir setningu Þjóðhátíðar bjóðum við upp á köku, kampavín, snittur og svoleiðis í tjaldinu okkar. Við setjum upp götuheiti, við erum í Skvísusundi,“ segir Kiddi. Kiddi er með myndvarpa þar sem horft verður á streymi af brekkusöngnum í garðinum í lítilli brekku. Hann gerir ekki ráð fyrir öðru en tekið verði vel undir. Kiddi er auðvitað landsþekktur plötusnúður og tónlistin því aldrei langt undan í tjaldinu. Fleiri hefðbundnir dagskrárliðir voru á dagskrá fyrir helgina. Eiginkona hans hélt hátíðarræðu á föstudaginn og tengdafaðir blessaði tjaldið og gesti. 

Eigi þið von á mörgum gestum í hvíta tjaldið?

„Það verða aldrei 200. Við eigum mikið af vinum í Eyjum. Þar að auki eru einhverjir vinir sem hættu ekki við að koma sem eru uppi á tjaldsvæði og hér og þar. Þeir koma til okkar og fagna með okkur.“

Kiddi átti ekki endilega von á því að finna framtíðareiginkonu sína þegar hann fór á Þjóðhátíð árið 2013. „Ég fann hana hér í dalnum. Ég var á þannig stað í lífinu að ég var hættur að leita. Ég var rosa sáttur með lífið, sáttur við að vera einn. Ég átti tvö frábær börn, var á mjög góðum stað í lífinu og var ekkert að leita. Svo var mér boðið í minnsta tjaldið í dalnum og þar settist ég inn og fékk þetta bros á móti mér, það varð ekki aftur snúið eftir það.“

Frá þjóðhátíð 2020. Tjaldið er í Skvísusundi en þó í …
Frá þjóðhátíð 2020. Tjaldið er í Skvísusundi en þó í garðinum.

Er það ekki oft þannig að þegar fólk er ekki að leita þá gerist þetta?

„Ég hafði heyrt það en fannst það ekki málið og hélt það myndi ekki koma fyrir mig en fann þarna bara manneskjuna sem ég vissi ekki einu sinni að ég væri að leita að.“

Mörg íslensk pör eiga það sameiginlegt með Kidda og Eyju að hafa kynnst á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Það finna ekki margir ástina í dalnum í ár frekar en í fyrra. Kiddi segir að hann væri örugglega bara einn enn þá ef það hefði verið kórónuveirufaraldur árið 2013 og Þjóðhátíð fallið niður. „Það eru örugglega mörg sambönd sem verða ekki til af því það er Covid en þannig er bara veruleikinn í dag,“ segir Kiddi. 

„Lífið er yndislegt,“ segir Kiddi að lokum og vitnar í frægt þjóðhátíðarlag sem verður ásamt mörgum öðrum spilað í garðinum í kvöld.

Mikil stemning myndaðist í brekkunni í garðinum í fyrra. Það …
Mikil stemning myndaðist í brekkunni í garðinum í fyrra. Það sama gerist líklega í ár.
mbl.is