Flutti í bæinn eftir skilnað foreldranna og fékk sjokk

Andri Freyr Viðarsson er gestur vikunnar í hlaðvarpsþættinum, Snæbjörn talar …
Andri Freyr Viðarsson er gestur vikunnar í hlaðvarpsþættinum, Snæbjörn talar við fólk.

Andri Freyr Viðarsson hefur haft ofan af fyrir landsmönnum með þáttagerð sinni í meira en tvo áratugi. Flesta daga vikunnar má finna hann á Rás 2 að fara yfir helstu málefni dagsins og spila tónlist fyrir landann. Það er þó ýmislegt sem margir vita ekki um Andra; til dæmis lærði hann að spila almennilega á gítar á tónleikaferðalagi með Botnleðju og um þessar mundir vinnur hann í hjáverkum að heimildarmynd um kántrítónlistarmanninn Johnny King. Í hlaðvarpsþættinum, Snæbjörn talar við fólk, kemur fram að það er ávallt stutt í bæði sprelligosann og control freak-ið sem býr til frábæran þann ófyrirsjáanleika sem einkennir Andra Frey.

Andri Freyr er að austan en flutti til höfuðborgarinnar í 9. bekk eftir skilnað foreldra sinna. Upplifuninni að flytja í borgina lýsir hann sem erfiðri; á Reyðarfirði var hann svolítið kóngurinn í skólanum en í Reykjavík þurfti hann að berjast fyrir tilveru sinni. Einungis þremur árum síðar fékk Andri fyrsta þáttinn sinn í útvarpi. 

„Þetta byrjar bara mjög brösuglega, sko. Svona til að orða það pent, sko. [...] Það er rosalega auðvelt að vera kóngurinn í skólanum og bekknum, skilurðu, og eiga alla þína vini því að þú ert búinn að vera með þessum krökkum á leikskóla og alveg upp í 9. bekk [...] en við flytjum svo í bæinn, og ég flyt í bæinn basically þegar ég er að fara í 10. bekk. [...] Við sem sagt flytjum í bæinn og það er helvíti hart. Ég verð að viðurkenna það. Að koma sem einhver „Prins Reyðarfjarðar“ skilurðu, eins og ég upplifði mig þar og koma hingað í bæinn og þurfa að finna út úr hlutunum, og koma í nýjan skóla og hugsa „ókei, ég er nýi gæinn núna.“

„Ég var mjög bjartsýnn. Ég hélt að allir í Reykjavík væru eins og liðið sem maður var að lesa um þegar maður var að lesa blöðin og hvernig tónlist hljómsveitirnar spiluðu í Músíktilraunum. Ég hélt að það væru allir í skólanum svona og ég gæti bara farið inn í nýjan skóla og þar yrði bara fullt borð af þungarokkurum sem væru bara – „Þú þarna í Sepultura-peysunni! Komdu hingað og sestu hjá okkur!“

Árið 1997 stofnar Andri Freyr hljómsveitina Bisund ásamt bróður sínum og vinum, þá 17 ára að aldri. Fram að þeim tíma hafði hann aldrei spilað á hljóðfæri og tók það hann nokkuð langan tíma að ná tökum á því og læra undirstöðurnar, eins og að stilla gítarinn sinn sjálfur. Hljómsveitin tók síðan þátt í Músíktilraunum árið seinna. Því miður varðveitast lög Bisundar flest ekki þar sem hljómsveitin tók aldrei upp plötu.

Eitt skipti bauðst Andra að ferðast sem auka gítarleikari Botnleðju á Bretlandstúr hljómsveitarinnar. Fyrst reyndi hann að telja þá af því að ráða sig, enda kunni hann mjög lítið á gítar. Sú varð þó raunin að eftir miklar æfingar fór hann með þeim á tónleikaferðalagið. Löngu síðar spurði Andri Freyr hann Ragga (Ragnar Steinsson) í Botnleðju af hverju þeir völdu hann, og var svarið bara „af því þú lúkkaðir vel.“ Eftir þennan túr vann Andri með þeim í nokkurn tíma og fór með þeim á ýmsar tónlistarhátíðir og tónleikaferðalög.

Frá árinu 2016 hafa Andri Freyr og Árni Sveinsson unnið að heimildarmynd um kántrítónlistarmanninn Johnny King. Andra finnst mikilvægt að taka slík áhættuverkefni eins og hann kallar þau meðfram tryggu vinnunni sinni sem útvarpsþáttagerðin er. Hann segir að fyrsta heimsóknin hafi verið rosaleg. 

„Það opnaðist bara einhver flóðgátt, skilurðu. Hann bara tók hjartað sitt og setti bara á borðið og bara „svona er ég, take it or leave it.“ Það var mjög hörð heimsókn og sögurnar sem við fengum frá honum þar – við bjuggumst ekki alveg við því. Og vorum bara pínu slegnir, sko. Það er svona ýmislegt mjög dark stuff sem Johnny King hefur lent í.“

Andri Freyr segist sjálfur vera með stuttan þráð og að hann eigi til að hoppa upp á nef sér. Margir muna kannski eftir atviki þar sem hann hreytti fúkyrðum í samstarfskonu sína Guðrúnu Sóley í beinni útsendingu í útvarpi þar sem grín þeirrar síðarnefndu féllu ekki í kramið hjá Andra. Það mál var útkljáð strax daginn eftir með afsökunarbeiðni og brauði sem Andri bakaði handa Guðrúnu Sóleyju, og viðurkennir Andri að hann hafi verið „rangstæður“ í þessu tilviki. Stundum kemur þessi stutti þráður Andra í klandur og hann er orðinn býsna sjóaður í að grafa öxina og biðjast afsökunar.

Snæbjörn Ragnarsson og Andri Freyr Viðarsson.
Snæbjörn Ragnarsson og Andri Freyr Viðarsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál