Kristjana S. Williams lifir drauminn

Kristjana S. Williams er stödd hérlendis vegna sýningar sinnar sem …
Kristjana S. Williams er stödd hérlendis vegna sýningar sinnar sem opnar á morgun í Gallerí Fold. mbl.is/Marta María

Verk íslenska listamannsins, Kristjönu S. Williams, eru engu lík. Hún skapar ævintýraheim sem gleður augað, sogar fólk til sín og hreyfir við því um leið. Á morgun opnar Kristjana sýningu á verkum sínum í Gallerí Fold en sýningin er sérstök að því leitinu til að verkin eru innblásin af Íslandi. 

Kristjana býr í Bretlandi en er stödd á Íslandi vegna sýningarinnar. Hún er klædd í marglitan kjól með naglalakk í mörgum litum, einn litur á hverri nögl, þegar við hittumst í Gallerí Fold. Hún flutti til Bretlands fyrir 27 árum og síðasta áratuginn hefur hún notið mikillar velgengni eða frá því hún opnaði hönnunarfyrirtæki sitt árið 2012. Hún hefur unnið fyrir merki eins og Christian Louboutin, Liberty of London, Fortnum & Mason og listasafnið The Victoria and Albert Museum. 

Þegar hún flutti út var hún tvítug og vissi ekki alveg hvað hún vildi verða þegar hún yrði stór. Hún hafði lært rafeindatækni við Iðnskólann því það var praktískt og sniðugt nám en kannski ekki alveg það sem gaf henni raunverulega lífsfyllingu. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og hún er lifandi sönnun þess að draumar geta ræst.

mbl.is/Marta María

„Þessi sýning skiptir máli fyrir mig því hún snýst um Ísland. Nánast allt sem ég hef verið að vinna að fram að þessu hefur snúist um annað. Ég er búin að vera úti í 27 ár og þegar fólk er lengi í burtu þá missir það tengingu. Auðvitað kemur Ísland alltaf fyrir í verkum mínum og hefur gert í gegnum tíðina en fólk missir mikið úr þegar það býr ekki á landinu á helstu mótunarárunum. Ég var ekki á Íslandi þegar ég var á þrítugs-, fertugs- og fimmtugsaldri. Þetta eru árin sem byggja mann upp sem manneskju,“ segir Kristjana. Hún er hálfíslensk og hálf ensk. Móðir hennar er íslensk en faðir hennar var enskur. 

„Ég skilgreini mig sem íslenskan listamann sem býr í London,“ segir hún og það er stutt í brosið. 

Hún segist hafa þurft að fara í gegnum mikla sjálfsskoðun þegar hún fór að vinna að sýningunni. 

„Ég þurfti að spyrja mig spurninga hvernig verk ég myndi búa til um Ísland. Í verkum mínum er ég svolítið að horfa á umhverfið í gegnum kíki. Á Íslandi eru eldfjöll og stórmerkilegir hlutir sem útlendingum finnst mjög sérstakir. Allir þessir klettar, bátar, náttúran og orkan í steinunum. Allt þetta fáum við Íslendingar gefins,“ segir hún. 

Talið berst að upprunanum og Kristjana segir frá því að Bretland hafi togað í hana þegar hún var tvítug. 

„Faðir minn er breskur og mamma mín er íslensk. Þegar ég var tveggja ára flutti mamma, Matthildur Erna Magnúsdóttir, með mig til Íslands. Svo eignaðist hún mann sem hún hefur verið með allar götur síðan. Hann heitir Árni G. Jónsson og ég kalla hann pabba minn. Þegar ég var tvítug langaði mig til að flytja til Bretlands. Mig langaði að vera frjáls. Ég vildi geta farið á náttfötunum út í búð án þess að umhverfið veitti því sérstaka athygli. Ég var svolítið týnd. Ég lærði rafeindatækni áður en ég flutti út en listin kallaði alltaf á mig. Ég vissi bara ekki alveg hvernig ég ætti að sameina þetta allt. Þegar ég var 25 ára komst ég inn í Central Saint Marteins en útskrifaðist ekki fyrr en ég varð þrítug. Þetta er búið að vera langt ferðalag hjá mér. Þetta byrjaði allt að púslast saman í rétta átt þegar ég var í kringum 37 ára. Þetta er búið að vera æðislegt síðan,“ segir hún og er þakklát fyrir velgengnina. 

Kristjana var með litríkar neglur þegar við hittumst.
Kristjana var með litríkar neglur þegar við hittumst. mbl.is/Marta María

Á þessu ferðalagi hefur hún fengið mörg góð tækifæri, unnið fyrir tískuhús, fyrirtæki og listasöfn.

„Ég er hræðilega ánægð með það. Partur af því er að ég er að vinna með The Victoria and Albert Museum en ég hef unnið með listasafninu síðan 2011. En það að gera þessa sýningu var fyrsta alvöru verkefnið sem ég fékk almennilega greitt fyrir,“ segir Kristjana og nefnir bókina Alice sem hún gerði ásamt vörulínu í tengslum við hana. Á sýningunni í The Victoria and Albert Museum er einnig sýningarrými sem Kristjana hannaði. Þar er hægt að komast inn í teikningarnar hennar með sýndarveruleikagleraugum og fá ævintýrið beint í æð.

Ég spyr Kristjönu út í vinnuna og hvernig rútínan hennar sé. Hvernig skipuleggur hún dagana? Það kemur í ljós að hún er með tíu manneskjur í vinnu sem sinna allar mikilvægu hlutverki á vinnustofunni. Þegar hún opnaði fyrirtækið var hún ein en bætti svo fljótlega við sig einum starfsmanni. Síðan þá hafa umsvifin aukist mikið.

„Þegar ég er að gera verkefni eins og fyrir Ben Fogle þá sá ég þessa tengingu við Ísland. Það var útgangspunkturinn. Hann hefur verið töluvert á Íslandi og elskar Ísland. Á sýningunni minni eru fjögur verk upp úr bókunum hans en til þess að búa þau til þurfti ég að lesa öll verkin hans og finna svo réttur myndirnar, réttu fjöllin og þar fram eftir götunum, eða þannig að það myndi rúmast í fjórum myndum,“ segir Kristjana en Ben Fogle er breskur verðlaunarithöfundur og sjónvarpsstjarna.

Á vinnustofunni er hver manneskja með mikilvægt hlutverk. Kristjana segir að stærsta áskorunin sé að finna réttu myndirnar, klippa þær út og setja þær saman. Hún er með tvær manneskjur sem hjálpa til við það. Svo er ein sem starfar eingöngu við það að klippa út. Ein er framkvæmdastjóri vinnustofunnar og önnur sér um heimasíðuna og söluna á netinu. Þegar ég spyr hana hvort veiran hafi breytt vinnuumhverfinu segir hún svo vera. 

„Fyrir kórónuveiruna unnum við allan sólarhringinn. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið þennan tíma til að endurmeta hlutina. Þetta voru svo skrýtnir tímar. Þetta var mjög erfitt og það róaðist mjög mikið en á sama tíma jókst netsalan mjög mikið. Við lærðum að selja online á þessum tíma. Vanalega erum við með sýningar í Dallas, New York, Los Angeles, Singapour, og Hong Kong eða um 20 sýningar á ári. Núna erum við með þrjár sýningar en samt erum við að fá endalaus verkefni. Það sem ég hef verið að æfa mig í upp á síðkastið er að segja nei.“

Þurftir þú að æfa þig sérstaklega í að segja nei?

„Já, það gerði ég. Ég var meira að segja búin að kaupa nokkrar bækur um það hvernig maður lærir að segja nei. Þannig að þessi heimsfaraldur hefur verið lærdómsríkur. Ég fattaði fullt af hlutum sem ég var að gera vitlaust. Þegar það verður allt rólegra fær fólk meira rými til að skoða hlutina,“ segir Kristjana. 

Varstu að vinna heima í veirunni?

„Ég var heima í viku og maðurinn minn, Adam J. Bushell, var mjög þreyttur á því að þurfa að gefa mér hádegismat og líka hugsa um krakkana og hjálpa þeim að læra,“ segir hún og hlær en hún og eiginmaður hennar eiga tvö börn, Isol sem er 9 ára og Eiðar sem er 11 ára. 

„Þau voru í heimaskóla. Ég get aldrei þakkað manninum mínum nóg fyrir að hafa hjálpað börnunum að læra í heimaskólanum. Ég hefði aldrei geta gert þetta.“

Ég spyr hana um drifkraftinn og hvaðan hann komi. 

„Ég er með risastóran lista yfir það hvað veitir mér ánægju sem ég verð að klára áður en ég dey. Ég fæ mikinn innblástur úr umhverfinu og það getur verið hvað sem er sem veitir mér innblástur. Það er alveg sama hvort ég er á ströndinni eða í miðri stórborg. Sköpunarferlið er alltaf í gangi og svo saumast þetta alltaf saman á endanum. Þegar mynd byrjar að saumast saman þá hef ég ekki val. Ég verð að klára hana,“ segir hún. 

Hvað gerir þú þegar þú ert ekki að vinna?

„Mér finnst gaman að synda og vera úti í náttúrunni, horfa á bíó, borða ís, fara á Five Guys, ferðast, lesa og borða mat,“ segir hún. 

Ef þú spólar til baka og hugsar um þig áður en þú fluttir út og varst í iðnskólanum. Hefðir þú getað ímyndað þér hvernig líf þitt myndi þróast?

„Ég vildi óska þess að ég hefði geta kíkt inn í framtíðina. Jafnvel þótt ég hefði bara getað séð 5%. Ég var ekki með framtíðarótta þá, ég fór í rafeindatæknina til að vera praktísk en ég vissi ekki hvernig ég gæti sameinað listina og rafeindatæknina. Fattaði ekki hvað ég ætti að gera við list. Til þess að vera góð í rafeindatækni þarftu að vera góð í stærðfræði en ég var það aldrei. En ég gat lesið á mæla,“ segir hún og hlær en við það vann hún um tíma í Lundúnum áður en hún komst inn í Central Saint Martins. 

„Ég veit að hausinn á mér er ekki eins og hjá öllum öðrum. Ég er ekki alveg venjuleg og svo er ég lesblind. En mér finnst gott að eldast og vera eldri og reyndari. Það voru alltaf flugeldar í hausnum á mér þegar ég var yngri og ég er mjög ánægð að vera á þeim stað sem ég er á í dag,“ segir hún og er spennt fyrir morgundeginum þegar landsmenn geta skoðað listaverkin hennar í Gallerí Fold. 

Við Kristjana fyrir framan eitt af verkunum á sýningunni.
Við Kristjana fyrir framan eitt af verkunum á sýningunni.
mbl.is