Það á enginn að láta „vaða yfir sig“ í ástarsamböndum

Gerður Huld Arinbjarnardóttir eigandi Blush.
Gerður Huld Arinbjarnardóttir eigandi Blush. mbl.is/Árni Sæberg

Kynlífstækjaverslunin Blush stendur fyrir paranámskeiði með Theodór Francis Birgissyni sem er klínískur félagsráðgjafi MA. Hann hefur haldið fjölda námskeiða um pör og samskipti en námskeiðið tekur þrjár klukkustundir og er fyrir fólk í ástarsambandi en líka fyrir fólk sem þráir að komast í ástarsamband. Gerður Huld Arinbjarnardóttir eigandi Blush heillaðist af námskeiðinu þegar hún fór sjálf á það með sambýlismanni sínum og vildi leyfa fleirum að upplifa töfrana sem felast í því að geta leyst ágreining.  

„Það hefur alltaf verið draumur að auka fjölbreytni í þjónustu Blush, að geta boðið upp á fleira en kynlífstæki. Þegar við opnuðum nýju verslunina okkar í apríl á þessu ári hönnuðum við rýmið með það í huga að geta haldið viðburði og námskeið og erum við því með rúmgóðan sal í versluninni sem hentar fullkomlega fyrir námskeið,“ segir Gerður. 

Theodór Francis Birgisson.
Theodór Francis Birgisson.

Gerður segir að hún hafi fundið fyrir mikilli vöntun á fræðslu um kynlíf.  

„Í gegnum árin hef ég fundið fyrir mikilli vöntun á fræðslu um kynlíf og parsambönd fyrir fullorðna og okkur fannst því tilvalið að það yrði okkar fyrsta námskeið. 

Það virðist allavega vera mikill spenningur fyrir námskeiðinu því nú þegar er nær uppselt á bæði námskeiðin. Við erum með tvær dagsetningar í boði, 16. og 23. september, og höfum við fengið mjög góð viðbrögð. Námskeiðið er um þrjár klukkustundir og mun Theodór fara yfir það sem þarf til að parsamband geti þroskast og dafnað. Farið er í helstu þætti parsambanda og einnig fjallað um algengustu vandamál í parsamböndum og hvernig best er að bregðast við þeim. Fjallað er um mikilvægi málamiðlunar í samböndum og muninn á málamiðlun og „að láta vaða yfir sig“. Þá er tekið á því hvernig bregðast eigi við ágreiningi sem kemur upp í öllum parsamböndum og hvernig leysa má ágreining.“

Hvað drífur þig áfram í þessu?

„Ætli það sé ekki þessi tilfinning að vita að maður sé að hjálpa eða bæta lífsgæði einhvers. 

Ég hef sjálf farið á þetta námskeið hjá Theodór og mín upplifun var dásamleg. Ég og makinn minn vorum bæði sammála um að hafa lært helling og að svona námskeið ætti að vera aðgengilegra fyrir fólk sem vill læra meira, gera betur og viðhalda því sem gott er í sínu sambandi.

Ástarsambönd þurfa stanslausa athygli til að vaxa og dafna. Með því að fara á svona námskeið er maður að næra sambandið sitt og hlúa að því,“ segir Gerður. 

Hvernig mun þetta námskeið bæta líf fólks?

„Mín upplifun á námskeiðinu var að eftir námskeiðið þá höfum við vandað okkur betur i samskiptum og ef upp kemur ágreiningur þá eigum við auðveldara með að takast á við hann. Það er líka ofsa gott af geta sagt, „hey manstu hvað Theodór talaði um á námskeiðinu“, ættum við kannski frekar að tækla þetta með hans aðferðum, sem eru töluvert skilvirkari. 

Þau verkfæri sem við fengum hafa nýst okkur vel og ég vona svo innilega að þeir sem munu skrá sig á námskeiðið munu upplifa það sama,“ segir hún. 

Gerður er sannfærð um að fólk muni græða mikið á svona námskeiði. 

„Ég vona að fólk muni læra eitthvað sem það getur nýtt sér í framtíðinni og að sjálfsögðu hafa gaman af námskeiðinu. Teddi er mikill karakter og kemur hlutunum mjög skemmtilega frá sér. Hann segir skemmtilegar sögur inn á milli sem hjálpar fólki að tengja við aðstæðurnar og aðlaga þær að sínu sambandi.“

mbl.is