Var oft á spítti í útvarpinu

Ómar Úlfur Eyþórsson var gestur Snæbjörns Ragnarssonar.
Ómar Úlfur Eyþórsson var gestur Snæbjörns Ragnarssonar. Ljósmynd/Snæbjörn Ragnarsson

Ómar Úlfur Eyþórsson ætlaði sér alltaf að verða rokkstjarna en endaði sem fjölmiðlamaður, lengstan tíma hjá X-977 þar sem hann stjórnar Morgunþættinum í dag. Hann er líka lærður smiður, óvirkur fíkill, með He-Man húðflúr og hefur náð að eyða 15 þúsund krónum í sælgætissjálfssala á tveimur vikum.

Ómar fór í eitt ár í skóla við Laugavatn. Fljótlega fór hann að finna fyrir erfiðleikum gagnvart áfengi og segist sjálfur hafa verið leiðinleg og léleg fyllibytta á aldrinum 16 til 25 ára. Í dag er hann þurr og segir það ekki fara í taugarnar á sér þegar fólk er að drekka í kringum hann eða áfengi sé til á heimilinu. Hann taki því þó ekki sem sjálfsögðum hlut að vera þurr.

„Ég er eins og Weekend at Bernie's. Árin frá svona 16 ára til svona 25 er ég Weekend at Bernie's. Það eru bara tveir vinir mínir sem halda á mér dauðum og hafa mig alltaf með, eins og Bernie. [...] ég var ekki skemmtilegur, það hefur bara enginn kominn upp að mér og sagt 'ég bara skil ekki af hverju þú hættir að drekka'. Þú veist, ég var bara leiðinlegur og ég drapst bara snemma og ég var bara hænuhaus og rúllaði bara svona í gegnum þetta. Og það er ekkert skrítið að ég hafi hætt að drekka, það var bara ein af fáum gáfulegum hugmyndum í mínu lífi,“ segir Ómar.

Ómar segir eiginkonu sína ekki hafa vitað mikið af neyslu hans. „Það kom bara ekkert í ljós fyrr en ég var alveg búinn á því. Bara búinn að vera út úr spíttaður, eiginlega bara meiripart vikunnar. [...] Ég var fleiri fleiri ár sko útúr spíttaður í útvarpinu sko, bara inná klósetti að fá mér í nefið. [...] Það er bara ömurlegt að segja þetta en þetta var nú bara staðreyndin, sko. En það fattaði þetta enginn, kveikti enginn á þessu,“ segir Ómar.

Viðtalið í heild sinni er að finna á hlaðvarpsvef mbl.is og öllum helstu hlaðvarpsveitum. 

mbl.is