Salma Hayek hefur ekkert elst

skjáskot/Instagram

Mexíkóska leikkonan Salma Hayek virðist ekkert eldast. Leikkonan fagra fagnaði 55 ára afmæli sínu nú á dögunum og hefur sjaldan litið betur út. Deildi hún glæsilegri mynd af sér í bláum sundbol einum fata í tilefni dagsins.

„Hamingjuóskir með 55 ára afmælið til mín. Ég hlakka til nýrra ævintýra,“ ritaði hún við Instagram færsluna. 

Hayek hefur talað um mikilvægi þess að konur fari að setja sjálfar sig í fyrsta sæti, þær séu meira en bara mæður og eiginkonur.

„Það er engin dagsetning á konum eins og á umbúðum. Við þurfum að eyða slíku viðhorfi. Þú getur sparkað í rassinn á þér á hvaða aldri sem er. Þú getur haldið þér vel við á hvaða aldri sem er. Þú getur látið þig dreyma á hvaða aldri sem er og þú getur verið rómantísk á hvaða aldri sem er,“ er haft eftir leikkonunni í viðtali við Red Table Talk á Facebook.

„Konur eru ekki bara hér til þess að annast börn og elska mennina sína. Við erum ekki hér til þess að þjónusta alla aðra en okkur sjálfar.“

Salma Hayek segist finna til með konum sem hafa fest sig í móður og eiginkonu hlutverkinu því einn daginn munu börnin vaxa úr grasi. Þá er hætt við því að þau hafi mun minni þörf en áður fyrir mæður sínar og í kjölfarið kunna þær að týna sjálfinu sínu.

„Þetta er misskilningur sem hefur átt sér stað kynslóð eftir kynslóð. Konur renna ekki út á tíma.“

mbl.is