Móeiður fylgir hjartanu

Móeiður Júníusdóttir gefur út lagið Pure undir nafninu Móa.
Móeiður Júníusdóttir gefur út lagið Pure undir nafninu Móa. Ljósmynd/ Ásta Kristjáns og Blóð stúdíó

Móeiður Júníusdóttir sendir frá sér lagið Pure undir nafninu Móa í dag en þetta er í fyrsta sinn í langan tíma sem Móeiður gefur út nýtt lag. Hún segir sköpunarkraftinn hafa bankað upp á í einverunni bæði fyrir kórónuveirufaraldurinn og í heimsfaraldrinum. „Ég hef ekki verið að gera tónlist mjög lengi og varla komið nálægt því,“ segir hún. Hún hefur bæði menntaði sig í guðfræði og uppeldis- og menntunarfræðum og sinnir nú kennslu.

Móeiður vann lagið Pure með tónlistarmanninum og upptökustjóranum Arnari Guðjónssyni. Hann hefur meðal annars unnið með hljómsveitum á borð við Kaleo og Leaves.

„Við erum að vinna efni saman sem endar líklegast með stórri plötu. Þetta er fyrsta smáskífan í því samstarfi. Ég er komin aftur í það að semja eftir mjög langt hlé. Það kviknaði á sköpunargleðinni á ný. Það komu bara lög og lög og lög og ég hafði samband við Arnar sem ég þekkti frá fyrri tíð, hafði spilað með honum. Við fórum að vinna saman og það varð til fallegt samstarf. Mig langaði að koma þessu frá mér þó það hafi ekki endilega byrjað þannig,“ segir Móeiður.

Tónlistin bankaði aftur upp á

„Svo er það bara tónlistin sem bankaði svona sterkt upp á. Mig langaði mig bara að gera þetta vel, gera myndband koma þessu myndrænt frá mér. Ég talaði við Ása Má hjá Blóð stúdíó sem er rosalega flott fyrirtæki sem gerir allskonar skapandi hluti með fólki og þetta myndband er afraksturinn af þeirri samvinnu,“ segir Móeiður en myndband við lagið kemur einnig út í dag. 

Móeiður er ekki á sama stað núna og þegar tónlist var hennar aðalstarf. Sú reynsla og þroski sem hún hefur öðlast hefur á einn eða annan hátt áhrif á lagasmíðarnar. „Allt sem maður upplifir verður manni efniviður, það er nú bara þannig. Ég samdi þetta á píanó. Svo nota ég röddina mína og orða bæði reynslu og það sem ég hef upplifað á þennan einfalda hátt,“ segir Móeiður sem hefur túlkað á þennan hátt síðan hún var barn.

Lagið Pure er nokkurs konar bæn segir Móeiður. „Þetta er þessi tilfinning þegar maður er fullur af von en samt sem áður þessi tilfinning að tíminn flýgur fram hjá manni en það gerist á sama tíma. Það er svo öflug stund þegar maður upplifir það.“

Móeiður hefur sinnt öðrum störfum en tónlist undanfarin ár.
Móeiður hefur sinnt öðrum störfum en tónlist undanfarin ár. Ljósmynd/ Ásta Kristjáns og Blóð stúdíó

Mikil tónlist á heimilinu

Móeiður segist ekki endilega stefna á stórsigra í tónlistarheiminum. „Þetta er bara þessi sterka þörf fyrir að gera það sem ég hef alltaf gert, frá því að ég var pínulítil. En svo veit maður aldrei hvert það leiðir mann. Ég bara er. Það er kannski niðurstaðan, maður bara er og reynir að fylgja hjartanu. Ég held að það sé alltaf mjög gæfulegt,“ segir Móeiður og leggur áherslu á að fólk geri það sem það hefur ástríðu fyrir og það sem veitir því ánægju. Einnig segir hún mikilvægt að hvetja unglinga að hugsa eins.

Eru unglingarnir þínir meðvitaðir um að þú sért að gefa út plötu og þú eigir þér fyrra líf?

„Þau eru aðeins að fatta það núna. Ég hélt þessu alveg aðskildu. Þau hafa aldrei upplifað mig sem tónlistarkonu. Þó þau hafi alveg vitað af þessum hlutum. En svo er sonur minn kominn á kaf í tónlist. Hann er í metalbandi og er að gefa út. Þetta er bara í blóðinu þannig það er mikil músík á heimilinu og mikill sköpunarkraftur,“ segir Móeiður.

Lagið Pure kemur út á Spotify í dag. Hér fyrir neðan má horfa á myndbandið.

mbl.is